Raforkuver

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 16:29:35 (5126)

2003-03-14 16:29:35# 128. lþ. 101.14 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. 2. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[16:29]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera þessi orð hæstv. heilbrrh. að mínum, að það náist að halda þeirri þjóðarsátt sem hér náðist um úrskurð hans. Hann hefur sjálfur sagt á hverju sá úrskurður byggðist. Sá úrskurður byggðist á lónhæð í 566 m yfir sjávarmáli. Það eru góð skilaboð héðan í dag, herra forseti.

Ég get sagt að ótti minn um þetta mál, þar sem mér fannst það í rauninni farið að renna til, hefur nú rénað. Ég hygg að ég tali þar fyrir mörg okkar sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Ég vænti þess, herra forseti, að ummæli hæstv. heilbrrh. verði til þess að menn geti gengið af endurnýjuðum trúnaði til þess verks að ná samkomulagi sem viðheldur þjóðarsáttinni um útfærslu Norðlingaölduveitu.