Lyfjalög og læknalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 18:33:00 (5137)

2003-03-14 18:33:00# 128. lþ. 101.25 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv. 89/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[18:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hugsa að það sé rétt hjá hv. þm. að aldrei sé hægt að búa svo um hnúta að ekki sé einhver örlítill möguleiki á því að hægt væri að tengja saman upplýsingar úr gagnagrunnum og nafngreinda persónu. Ég sannfærðist hins vegar eftir mikla yfirlegu og mikla vinnu á þeim tíma þegar ég var formaður heilbr.- og trn. og nefndin vélaði um miðlægan gagnagrunn, að dulkóðun og ýmis önnur tæknileg úrræði sem beitt var til þess að afmá og fela persónuleg auðkenni upplýsinga sem sett voru upp eða heimilað var að setja í þann grunn, væru nægjanleg til þess að koma í veg fyrir að hægt væri að rekja upplýsingar þaðan til persóna. Ég er því þeirrar skoðunar að það sé hægt. En ég veit ekki hvort hv. þm. hefur kynnt sér málið það vel að hún geti sagt hvort hún telji að það sé munur á þeim vörnum sem eru í þessum grunni og hinum miðlæga gagnagrunni, og það er í sjálfu sér allt í lagi þó hún svari því ekki. En mér leikur hugur á að vita hvort hún telji að varnirnar sem eru í þessu frv. og brtt. sem fram koma séu minni en urðu að veruleika eftir u.þ.b. tveggja ára vinnu heilbr.- og trn. og sérfræðinga hér um árið, þegar við vorum að vinna með miðlæga gagnagrunninn. Þar var um ákaflega merkilegan hlut að ræða og ég greiddi atkvæði gegn því frv. á sínum tíma, en það var vegna þess að ég var á móti einkaleyfinu. Ég var orðinn sannfærður um það þá að svo lítil hætta væri á því að hægt væri rekja upplýsingar saman við persónur að ég taldi að sá hluti frv. væri í lagi. Og mér hefur sýnst á umræðum sem hafa orðið um brtt. og hafa orðið í þingflokki mínum líka við það frv. sem hér liggur fyrir að svipað væri á ferðinni með það. En hv. þm. er þá á allt annarri skoðun samkvæmt því sem hún hefur sagt.