Lyfjalög og læknalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 18:36:41 (5139)

2003-03-14 18:36:41# 128. lþ. 101.25 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv. 89/2003, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[18:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, og læknalögum, nr. 53/1988. Eins og komið hefur fram í umræðunni stend ég að því nál. sem kom frá heilbr.- og trn. um málið og ætla aðeins að koma með nokkur atriði inn í umræðuna vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram.

Eins og menn sjá fylgja frv. sem fyrir liggur til 2. umr. ítarlegar breytingar frá nefndinni í heild og sýna þær að farið hefur verið mjög ítarlega yfir málið í heilbr.- og trn. Þegar málið kom til nefndarinnar voru ýmis atriði sem okkur þótti ástæða til að skoða nánar og sérstaklega hvað varðar persónuverndina og dulkóðunina á þeim upplýsingum sem eiga að fara í þá grunna sem hér eru til umfjöllunar.

Eitt af því sem varð til þess að ákveðið var að setja upp gagnagrunn, lyfjagrunn sem þennan eða þessa, var að fyrir nokkru kom upp ákveðið misferli hjá læknum þar sem þeir höfðu ávísað vanabindandi lyfjum eða fíknilyfjum ótæpilega og landlækni var ekki unnt að taka á því máli vegna þess að hann hafði ekki tiltæk meðul til þess, og þótti mönnum því ástæða til að lagfæra það.

Hvað varðar grunn Tryggingastofnunar þá höfum við horft á það að kostnaður Tryggingastofnunar af lyfjum hefur aukist gífurlega á undanförnum árum og fer vaxandi, eða eins og kemur fram í nál. okkar er hann orðinn 6 milljarðar og fer vaxandi. Og stjórnvöld hverju sinni verða auðvitað að geta tekið á því þegar kostnaður sem þessi fer svona vaxandi eins og þarna er. Því þótti eðlilegt og mér þykir það fullkomlega eðlilegt að Tryggingastofnun fái tæki til þess að skoða í hverju þessi auknu útgjöld eru fólgin og hvort hægt sé að taka á slíku. En auðvitað má það ekki vera á kostnað persónuverndar.

Við höfum því skoðað þetta mál mjög ítarlega í nefndinni og höfum gert breytingar, sem gerð hefur verið ítarleg grein fyrir í umræðunni á undan, og höfum ákveðið að gert sé ráð fyrir því í frv. að Tryggingastofnun sjái um rekstur annars grunnsins, en landlæknir hins. Við leggjum til að þeir verði kallaðir annars vegar tölfræðigrunnur og í honum eru ópersónugreinanlegar upplýsingar og hins vegar gagnagrunnur sem landlæknir hefur umsjón með sem er með persónugreinanlegum upplýsingum og kallaður lyfjagagnagrunnur.

Eins og fram kemur í nál. og ég ætla að ítreka það að í grunninn sem Tryggingastofnun sér um reksturinn á fara engin persónuauðkenni, hvorki lækna né sjúklinga. Nefndin leggur einnig til að persónuauðkennum þeirra skuli eytt, þannig að óafturkræft sé, áður en upplýsingar af lyfseðlum eru vistaðar í gagnagrunninum. Markmiðið með grunninum er að safna upplýsingum um lyfjanotkun sem geri kleift að sinna fræðslu og söfnun tölfræðiupplýsinga um lyf, lyfjaávísanir, lyfjanotkun og lyfjakostnað. Eins og bent er á í greinargerð er tölfræðigrunninum ætlað að veita heilbrigðisyfirvöldum góða yfirsýn yfir lyfjanotkun landsmanna, sem er auðvitað nauðsynlegt að heilbrigðisyfirvöld hafi. Til þess að þjóna þeim tilgangi sem hér var nefndur er ekki þörf á persónuauðkennum sjúklinga né lækna. Aftur á móti er nauðsynlegt að hægt sé að greina fjölda einstaklinga og skoða mismunandi sjúklingahópa með tilliti til t.d. greiðslubyrði og lyfjanotkunar. Þetta er hægt að skoða og greina með grunni Tryggingastofnunar eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég ætla aðeins að geta þess að hér tel ég að við höfum gert þær breytingar á frv. sem nauðsynlegar voru til þess að hafa hann sem öruggastan og ógna ekki persónuvernd nokkurs manns, en engu að síður að hafa þarna tæki fyrir yfirvöld, heilbrigðisyfirvöld, og Tryggingastofnun til þess að taka á þeim þáttum sem ég hef nefnt.

Einnig er gert ráð fyrir að landlæknir geti tekið á atburðum eins og gerðust hér á dögunum þegar læknar höfðu ávísað lyfjum, fíknilyfjum, til fólks, sem þurfti auðvitað að skoða en ekki var unnt á þeim tíma.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara ítarlegar í þetta. Vissulega er þetta mikið og flókið mál sem full ástæða væri til að skoða, en þar sem mörg mál eru hér órædd og á eftir að afgreiða í dag og gert er ráð fyrir að við ljúkum störfum þingsins á þessum sólarhring, þá held ég að ekki sé mikil ástæða til að fara yfir þetta. En ég vil ítreka að mikilvægt er að landlæknir hafi möguleika á eftirliti með lyfjaávísunum lækna, m.a. á önnur lyf en þau sem skilgreind eru eftirritunarskyld, en mörg lyf geta valdið ávana og fíkn og eru notuð sem fíkniefni.

Ég ætla líka að nefna eitt atriði sem ég talaði nokkuð um þegar við ræddum þetta mál við 1. umr. Það er hlutverk Tryggingastofnunar að upplýsa sjúklinga sem gætu átt réttindi hjá Tryggingastofnun vegna mikils lyfjakostnaðar. Þetta frv. mun auðvelda Tryggingastofnun að koma til móts við þarfir þeirra sjúklinga og auðvelda þeim að fá þann rétt sem þeir eiga samkvæmt lögum og tel ég því að þetta sé til bóta hvað varðar gæði þjónustu Tryggingastofnunar sem slíkrar.

En ég stend sem sagt að þessu máli og svo langt sem ég þekki dulkóðun og slík vinnubrögð þá tel ég að við séum búin að ná þarna utan um þetta mál og okkur hafi tekist með þeim breytingum sem við erum að gera á frv., að koma í veg fyrir að þarna sé einhver hætta á ferðum.