Lyfjalög og læknalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 18:45:37 (5140)

2003-03-14 18:45:37# 128. lþ. 101.25 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv. 89/2003, LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[18:45]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er talið af mörgum þeim sem um þessi mál hafa fjallað og hafa kynnt sér þau hvað best að nú þegar séu nægilegar upplýsingar gefnar til landlæknis og Tryggingastofnunar til að hafa yfirlit bæði yfir kostnað og notkun á lyfjum. Ég vil hins vegar ræða svolítið um dulkóðunina sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir talaði um hér áðan vegna þess að ekki er alveg fullvíst, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, hvort verið er að ræða um eina eða tvær dulkóðanir. Það segir í frv. að landlæknir veiti einn lykil að dulkóðuninni. En ég sé ekki betur en að um tvöfalda dulkóðun sé að ræða. Ef átt er við að landlæknir hafi annan dulkóðunarlykil en lyfsalarnir þá þýðir það að bæði af- og endurdulkóðun muni fara fram hjá Tryggingastofnun fyrir flutning í lyfjagagnagrunninn. Til þess þarf stofnunin einnig að hafa lykilinn undir höndum en ekki landlæknir einn. Það er þess vegna sem ég tel að þessi grunnur gefi ekki nægilega tryggingu fyrir þeim viðkvæmu upplýsingum sem við erum að nefna. Auk þess tel ég að verið sé að safna miklum upplýsingum sem í rauninni sé algjör óþarfi fyrir ríkið að sanka að sér.