Lyfjalög og læknalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 18:49:03 (5142)

2003-03-14 18:49:03# 128. lþ. 101.25 fundur 423. mál: #A lyfjalög og læknalög# (lyfjagagnagrunnar) frv. 89/2003, LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[18:49]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan þá tel ég að við höfum þegar í dag þau tæki sem við þurfum til þess að hafa yfirlit yfir þann kostnað sem verður til vegna notkunar lyfja og að við höfum þau tæki sem nægileg eru til að hnýsast ekki of mikið ofan í persónulega hagi fólks. Við vitum öll að ástæður fyrir aukinni lyfjanotkun eru öldrun, betri þekking á sjúkdómum, meiri betri meðhöndlun á sjúklingum, aukin lífsgæði vegna betri lyfja o.s.frv. Við vitum að öll þessi nýju lyf hafa aukið mjög svo lyfjakostnaðinn í landinu. Það er afar einfalt að skýra þessi mál á þennan máta ásamt því að hafa þessar upplýsingar sem við erum með og þá söfnun sem fer fram í dag. Þess vegna tel ég að hér sé verið að fara út í allt of viðamikið, dýrt og stórt verkefni fyrir afskaplega lítinn ágóða eða hagnað, ef ég get kallað það svo, af þeirri upplýsingasöfnun sem hér um ræðir.