Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 19:03:12 (5148)

2003-03-14 19:03:12# 128. lþ. 101.17 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, Frsm. 1. minni hluta GE
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[19:03]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003 vegna aðgerða í atvinnu- og byggðamálum.

Með frumvarpinu er lagt til að útgjöld árið 2003 aukist um 4.700 millj. kr. og verði samtals 264,8 milljarðar kr. Það sem kemur á óvart er að sú fjárhæð sem hefur verið í umræðunni er 6 milljarðar kr. en ekki 4,7 milljarðar kr. Almennur stuðningur er við að fara í átak er varðar atvinnu- og byggðamál en 1. minni hluti gagnrýnir hvernig staðið var að undirbúningi og bendir á að í málum sem þessum er nauðsynlegt að haft verði að leiðarljósi víðtækt samráð og samvinna við stjórnarandstöðu, verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnulífsins. Það var ekki gert í þessu máli.

Undir nefndarálitið ritar ásamt mér hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson.

Virðulegi forseti. Það liggur í augum uppi að Samfylkingin mun sitja hjá við afgreiðslu þessa frv. Við höfum enga aðkomu að málinu. En það er ástæða til að fjalla aðeins betur um hvernig að málinu var staðið.

Á haustmánuðum lögðum við þrír hv. þingmenn fram till. til þál. á þskj. 29, 29. mál þingsins, um aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum. Fyrsti flm. var hv. þm. Jóhann Ársælsson og að því stóðu að auki sá sem hér stendur og hv. þm. Karl V. Matthíasson. Það hefði verið ólíkt betur að staðið ef sá undirbúningur sem við lögðum til hefði hafist. Uppi voru fyrirætlanir um mestu framkvæmdir í Íslandssögunni í orku- og iðnaðarmálum á Austfjörðum og við höfðum trú á að það mundi ganga eftir. Við sáum fram á að þessar framkvæmdir mundu hafa með sér aðra uppbyggingu í tengslum við búsetu og þjónustu við atvinnustarfsemi á Austfjörðum. Í tillögunni bentum við einnig á að það lægju fyrir ákvarðanir um gerð þriggja jarðganga á Norðausturlandi sem yrðu boðin út í einu lagi eins og þá var gert ráð fyrir. Þess vegna lögðum við til strax á haustmánuðum að farið yrði í aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum nákvæmlega þess sem núna, seint og síðar meir, er gripið til þegar allt er raunverulega komið á kaldan klaka.

Þannig er að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. tóku saman höndum þegar allt var komið í vandræði og unguðu út þessari tillögu sem í raun er verið að afgreiða núna með fjáraukalögum.

Skynsamlegast hefði verið að hefja vinnu að þessu strax í haust á eðlilegan máta, af þinginu. Það má líka velta fyrir sér hvað verið er að gera. Það er verið að nota fjármuni, virðulegur forseti, vegna sölu bankanna. Hvað þýðir þetta? Maður getur velt því fyrir sér að á undanförnum árum hafa bankarnir, Búnaðarbankinn og Landsbankinn, meira og minna verið að yfirtaka starfsemi sparisjóðanna á landsbyggðinni. Hefði ekki verið eðlilegt að skoða í einhverju samhengi að byggðirnir höfðu víða lagt mikið inn í Landsbanka, í Búnaðarbanka? Ég get t.d. nefnt Snæfellsnes þótt ég tiltaki ekki einstaka staði. Á Snæfellsnesi voru sparisjóðirnir lagðir inn í Landsbanka og Búnaðarbanka. Ég hefði talið eðlilegt að skoða eitthvað slíkt hefðu menn ekki þurft að vinna í svo miklu flaustri sem raun ber vitni.

Þetta eru atriði, virðulegi forseti, sem ég tel ástæðu til að fjalla um. Ég tel ástæðu til að fjalla um það þegar svona lagað er gert þó svo að ég lýsi yfir ánægju minni með að þó skuli gripið til ráðstafana þótt seint sé og um síðir. Af því sem ég hef séð af umfjöllun um ráðstöfun þessara fjármuna þá finnst mér skorta á vönduð vinnubrögð af hálfu þeirra sem gera tillöguna. Sú skoðun mín á ekki við afgreiðslu fjáraukalaga, það er sérstakur þáttur út af fyrir sig.

En ég ætla að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, á að þakka hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni fyrir ágætt samstarf sem við höfum átt þann tíma sem hann hefur veitt fjárln. forustu. Hann er senn á leið til annarra starfa. Ég óska honum og fjölskyldu hans velfernaðar og þakka honum fyrir ágætt samstarf. Þrátt fyrir að töluverð gjá sé á milli þeirra sem sitja í stjórnarandstöðu og þeirra sem sitja í stjórnarliðinu hefur samstarf okkar persónulega verið gott.