Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 19:47:07 (5149)

2003-03-14 19:47:07# 128. lþ. 101.17 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[19:47]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta fjárln. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003 vegna aðgerða í atvinnu- og byggðamálum. Þetta frv. kom fram fyrir nokkrum dögum og hefur síðan verið til meðhöndlunar í fjárln. og verið afgreitt út úr nefndinni.

Annar minni hluti fagnar því að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp til fjáraukalaga nú í þinglok. Ríkisstjórnin hefur tíðkað það á undanförnum árum að stofna til útgjalda fyrst og leita svo heimilda Alþingis eftir á. Sá sem hér talar hefur gagnrýnt þau vinnubrögð á Alþingi enda er með þeim farið á svig við lögin um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997.

Annar minni hluti lagði fram á síðasta þingi frumvarp til breytinga á lögum um fjárreiður ríkisins þess eðlis að fjármálaráðherra skuli leggja fram frumvarp til fjáraukalaga að vori og að hausti eftir því sem tilefni gefast til. Vonandi er það vinnulag sem nú er viðhaft fyrirboði þess að hér eftir verði það föst regla að leggja fram frumvarp til fjáraukalaga að vori í lok vorþings ef breytingar liggja fyrir og þörf er á varðandi einstaka gjalda- eða teknaliði fjárlaganna.

Með þessu frumvarpi er verið að ráðstafa auknu fjármagni til ,,aðgerða í atvinnu- og byggðamálum`` þar sem 3 milljarðar kr. renna til vegamála, 1 milljarður kr. til byggingar svo kallaðra menningarhúsa og 700 millj. kr. til Byggðastofnunar til atvinnuþróunar.

Það er full ástæða til að fagna því að aukið fjármagn sé veitt til samgöngumála og þeirra verkefna sem tíunduð eru í frumvarpinu. Þessar ákvarðanir hefði þó verið eðlilegra að taka við afgreiðslu fjárlaga í desember sl.

Annar minni hluti telur að Alþingi hefði átt að gefa sér meiri tíma er varðar forgangsröðun verkefna með tilliti til þeirra markmiða sem sett voru um aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum. Enn fremur bendir 2. minni hluti á að ekki liggur fyrir sundurliðun á verkefni er varðar 1 milljarðs kr. framlag til byggingar menningarhúsa og 700 millj. kr. framlag til Byggðastofnunar. Það hefði verið eðlilegt og í samræmi við vinnulag við gerð fjárlaga að þessar upphæðir hefðu verið sundurliðaðar á þau verk sem þeim var ætlað að ganga til og kveðið nánar á um ráðstöfun þessa fjár.

Hins vegar er rétt að benda á varðandi það fjármagn sem hér er verið að ráðstafa og á að verða til þess að styrkja verkefni í atvinnu- og byggðamálum að við ráðstöfun þess fjár verði horft til þess, ef af fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum verður á Austurlandi og byggingu álverksmiðju þar og sömuleiðis ef af stækkun verksmiðjunnar á Grundartanga verður, þ.e. þá er ljóst að þessi tvö stórverkefni munu taka til sín stóran hluta í efnahagslífi þjóðarinnar og hafa áhrif á atvinnulíf og samkeppnishæfni annarra atvinnugreina.

Þessi verkefni sem ég nefndi, virðulegi forseti, eru mjög bundin við ákveðna landshluta. Því er ljóst að aðrir landshlutar, hinar dreifðu byggðir eins og Norðurl. v., Vestfirðir og Vesturland um Snæfellsnes og Dali og eins norðausturhluti landsins, verða afskiptar ef litið er á þessar stórframkvæmdir. Ég er ekki að mæla með því að þær eigi að leysa í sjálfu sér vandamál atvinnulífs og byggðar og búsetu um landið allt. En verði þetta staðreynd þá er ljóst að það mun mæða enn frekar á þessum landshlutum. Því afar mikilvægt með tilliti til ráðstöfunar þessa fjár þó ekki sé það mikið að horft verði til verkefna í þessum landshlutum til þess að styrkja atvinnulíf og búsetu.

Herra forseti. Hins vegar er hægt að velta því fyrir sér hvort þessi ráðstöfun fjár sé að fullu leyti í samræmi við þá fyrirsögn sem er á þessum aðgerðum, þ.e. aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum. Vissulega eru þessar upphæðir og ráðstöfun þeirra til styrkingar atvinnu- og byggðamálum. En í ljósi umræðunnar um bæði atvinnuleysið sem þegar er til staðar og hættu á óöruggu atvinnuástandi á næstu mánuðum þá hefði að mínu viti verið rétt af Alþingi að skoða nánar forgangsröðun í ráðstöfun þessa fjár og jafnvel kannað hvort ekki þyrfti að auka við fjármagn í aðra þætti sem væru raunverulega atvinnuskapandi, a.m.k. til viðbótar við þær aðgerðir sem hér hafa verið nefndar og eru aðalefni þessa frv.

Við höfum lagt til í umræðunni að það verði kannað að láta verja auknu fé til vísindastarfa, til vísindarannsókna en ljóst er að þar kreppir að nú í atvinnu. En verkefni þar eru næg. Þar er hægt að vinna verkefni til að undirbyggja og styrkja og efla framtíðaratvinnulíf í landinu einmitt með því að efla vísindarannsóknir og vísindi og fræðslustarf til þess að styrkja grunn atvinnulífsins og jafnframt líka til að tryggja störf þeirra sem þegar eru að vinna.

Þá hefur líka verið á það bent varðandi ráðstöfun þessa fjár sem rennur að mestu leyti vil vegamála og vegagerðar --- allt gott er um það að segja --- að það fjármagn mun ekki nýtast svo vel til þess að styrkja og efla atvinnu t.d. kvenna eða ungs fólks því að vegagerð er að stórum hluta þungavinnuvélavinna. Ef maður horfir því til þeirra þátta sem fyrirsögn frv. vísar beint í, aðgerða í atvinnumálum, þá hefðu menn átt að leiða betur hugann að því og kanna hvernig ríkið gæti komið að til þess að styrkja þá stöðu bæði á þessu svæði hér á suðvesturhorninu og líka út um hinar dreifðu byggðir landsins.

Herra forseti. Ég tel því að yfirskrift frumvarpsins standi ekki fyllilega undir því nafni að heita ,,vegna aðgerða í atvinnu- og byggðamálum``. En að sjálfsögðu eru þær aðgerðir sem þarna er verið að grípa til góðra gjalda verðar.

Það hefði líka verið ástæða til þess að skoða stöðu t.d. sjúkrahúsanna. Það var ljóst að við afgreiðslu fjárlaga fyrir jólin voru sjúkrahúsin víða um land afskipt hvað varðaði fjárveitingar en einmitt þar er líka mikilvægur vinnustaður og hluti grunnþjónustunnar sem hægt er að byggja upp.

Ég er t.d. með frétt hérna í blaðinu Feyki, fréttablaði Norðurl. v., um heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi v. sem ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins upp úr í lok ræðu minnar, virðulegi forseti:

,,Heilbrigðisstofnunum á Norðurl. v. gert að skera niður um tugi milljóna á árinu.

Sökum niðurskurðar á fjárlögum til heilbrigðisstofnana í landinu hefur stjórn Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki ákveðið að hætta starfrækslu eigin þvottahúss og semja við Efnalaug Sauðárkróks. Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar, segir að þetta muni væntanlega gerast í júníbyrjun en uppsagnir sex starfsmanna tóku gildi um síðustu mánaðamót. Þessi aðgerð ásamt því að áður hefur verið sagt upp fólki á bakvakt skurðstofu segir Birgir að dugi þó skammt til að ná þeim markmiðum sem fjárlagafrv. gerir kröfur um og séu langt í frá raunhæfar að sínu mati. Framlag ríkisins til landsbyggðarsjúkrahúsa er í nýju frv. skert um 2,5%.`` --- Þetta er í fjárlögum sem samþykkt voru fyrir jólin. Ég vitna svo áfram í blaðið, virðulegi forseti: --- ,,Þetta þýðir 15 millj. kr. niðurskurð til Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki. Forsvarsmenn sjúkrastofnana úti um landið eru allt annað en ánægðir með þessar aðgerðir á kosningaári, finnst þarna koma fram gróf mismunun við stóru landssjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu sem fengu aukningu á fjárlögum.

Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki hefur verið rekin innan fjárlaga um langt árabil og Birgi Gunnarssyni framkvæmdastjóra líst ekki á að hægt verði að taka við þessari miklu skerðingu sem hann segir í heildina nema um 25 millj. kr. þar sem 10 millj. kr. vegna launa- og kostnaðarhækkana frá síðasta ári hafi ekki fengist bættar.``

Eins var vitnað til stöðu Heilbrigðisstofnunarinnar á Hvammstanga en þar vantar 4,8 millj. og Heilbrigðisstofnunarinnar á Siglufirði sem er gert að skera niður um 7 millj. svo að nokkuð sé nefnt.

Herra forseti. Það hefði verið ástæða til að skoða stöðu einmitt þessara stofnana úti um land bæði með tilliti til þeirrar þjónustu sem þær bjóða og einnig til þess að viðhalda þeim störfum sem þar eru. Svona hefði ég talið, herra forseti, að hefði átt að vinna nú við þessa fjáraukalagagerð en ekki einskorða sig við örfá atriði sem ríkisstjórnin lagði til.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég tel að það sé gott fordæmi að koma nú fram með fjáraukalög og staðfesta þannig fjárveitingar sem framkvæmdarvaldið hefur ákveðið að ráðast í þannig að Alþingi fái að staðfesta þær áður en þær eru greiddar út eins og hér er verið að gera. En ég tel að það hefði átt og eigi að fara yfir stöðu fjárlaga að vori almennt og skoða hvort þingið hafi gert skuldbindandi ákvarðanir um fjárútlát og eins ef ástæða er til að leiðrétta fjárlögin sem samþykkt hafa verið, þ.e. ef augljós þörf er á því.

Herra forseti. Vinnan við þessa fjáraukalagagerð hefur að sjálfsögðu algerlega farið fram á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar. Minni hlutinn hefur í sjálfu sér ekki komið neitt að þeirri vinnu.

Ég læt svo lokið þessari framsögu minni við 2. umr. um fjáraukalög.