Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 20:16:37 (5152)

2003-03-14 20:16:37# 128. lþ. 101.17 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[20:16]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður í ræðu minni í kvöld lýst aðdáun minni á hv. þm. Jóni Bjarnasyni og það hefur engum fölva slegið á þá aðdáun eftir að hafa hlustað á þessa ræðu hans. Ég kom ekki upp áðan til þess að draga úr andstöðu hv. þingmanns við ýmsar stóriðjuframkvæmdir. Mér er mætavel ljóst að hann er alfarið á móti virkjun við Kárahnjúka og þar af leiðandi álverinu í Reyðarfirði. Ég neita því ekki að ég varð svolítið undrandi þegar ég heyrði að hann er líka á móti stækkun álversins á Grundartanga vegna þess að orkuöflun þess er í nokkuð góðu lagi, held ég. Ég hef skilið það svo að þrátt fyrir allt hafi flokkur hans um síðir komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun hæstv. setts umhvrh. hafi verið góð. Ég notaði part af ræðu minni áðan til þess að vekja eftirtekt á því að jafnvel þó að hv. þm. sé örlítið andsnúinn þeim framkvæmdum er hann samt sem áður reiðubúinn til þess að nofæra sér afrakstur þeirra framkvæmda, m.a. fyrir kjördæmi sitt. Það er það sem ræður afstöðu okkar, flestra hinna, að við teljum að þegar upp er staðið skili þessar framkvæmdir ávinningi fyrir þjóðarbúið sem við viljum notfæra okkur, til hagsbóta fyrir þjóðina alla. Að öðru leyti, herra forseti, held ég að við séum um margt sammála að því er varðar fyrirliggjandi mál.

Það hefði verið æskilegt ef hægt hefði verið að verja einhverjum hluta af þessu fjármagni til þess að styrkja grunngerð samfélagsins. Það mætti nefna ýmislegt annað en hv. þm. nefndi en ég vek eftirtekt á því að við þingmenn Samfylkingarinnar sögðum það strax að dæmigert verkefni sem hægt væri að ráðast í með litlum fyrirvara og sem skapaði mikla vinnu, jafnt hér í grennd við þéttbýlið en þó aðallega í þeim byggðum sem fjærst liggja hðfuðborgarsvæðinu, hefði verið að ráðast í að útrýma þeim smánarblettum sem eru á vegakerfinu, svörtu blettunum, hitablettunum sem eru einbreiðu brýrnar.