Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 20:31:31 (5160)

2003-03-14 20:31:31# 128. lþ. 101.17 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[20:31]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek fullkomlega undir það sem kom fram hjá samflokksmanni mínum áðan um að við stóriðjuframkvæmdirnar koma miklir fjármunir inn í atvinnulífið. Það er alveg rétt. Við höfum verið að velta því fyrir okkur hvernig eigi að bregaðst við hliðarafleiðingum af þeirri miklu fjármagnsinnspýtingu. Það er síðan allt annar hlutur að þegar dæmið verður gert upp á endanum þá hafa menn um það miklar efasemdir að það verði nokkur arðsemi af þessari framkvæmd. Út á það ganga varnaðarorð hagfræðinga sem tjá sig um þessi mál. Menn hafa einnig áhyggjur af hækkun vaxta af niðurskurði sem hv. þm. talar um sem tímabundinn niðurskurð og það er alveg rétt. Engu að síður verður það niðurskurður í opinberum framkvæmdum.

Varðandi Evrópusambandið og fyrirmyndirnar þá er margt gott í Evrópu. Það er margt gott í Evrópusambandinu. Það er margt ágætt í öðrum löndum og öðrum heimshlutum og við erum tilbúin að horfa til alla átta um fyrirmyndir og erum ekki haldin neinum fordómum hvað það varðar. En varðandi stóriðjustefnuna sem mér fannst hv. þm. tala fyrir áðan þá stefnir í það með þeirri stækkun sem fyrirhuguð er á núverandi álverum og útkomu nýs álvers á Reyðarfirði að álframleiðsla verði meira en þriðjungur af efnahagsstarfsemi landsmanna. Við þessu erum við að vara og teljum það óráðlegt. Við tölum þess í stað fyrir meiri fjölbreytni í atvinnulífinu og það er þess vegna sem við leggjum áherslu á að styðja og styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki en öll okkar atvinnustefna gengur út á þetta: Að skapa og efla fjölbreytni í atvinnulífinu.