Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 20:34:40 (5162)

2003-03-14 20:34:40# 128. lþ. 101.17 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[20:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þetta sem við höfum efasemdir um, þ.e. að gróði verði af stóriðjunni. Það á eftir að koma í ljós hvernig það dæmi mun líta út þegar upp verður gert. Við vitum það hreinlega ekki.

Þetta ræðst af ýmsum þáttum, stofnkostnaði við fjárfestingu okkar, sem er kostnaðurinn við virkjunina, og hins vegar því hvað við fáum fyrir afurðina, sem er raforkan. (Gripið fram í.) Það er allt á huldu um hvort tveggja, bæði um stofnkostnaðinn og einnig um verðið á afurðinni. Hins vegar hafa hagfræðingar og sérfræðingar miklar efasemdir um að þær forsendur sem Landsvirkjun gefur sér varðandi bæði þessi atriði muni ganga upp. Hins vegar tala virkjunarsinnar og stóriðjusinnar af mikilli sannfæringu um að allt hljóti að verða í himnalagi. Við höfum efasemdir um þetta.

Við höfum líka vakið athygli á skrifum hagfræðinga sem hafa varað við því að með tilkomu stóriðjunnar sem þriðjungs af efnahagsstarfsemi landsins muni óstöðugleiki í efnahagslífinu verða meiri en hann áður var og við höfum varað við því að draga þannig úr jafnvægi í efnahagslífinu.