Vatnsveitur sveitarfélaga

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 20:54:35 (5165)

2003-03-14 20:54:35# 128. lþ. 101.24 fundur 422. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (rekstrarform, arðgreiðslur o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[20:54]

Frsm. meiri hluta félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Garðar Jónsson og Guðjón Bragason. Einnig bárust nefndinni umsagnir frá mjög mörgum aðilum, sérstaklega sveitarfélögum.

Frumvarpið er endurflutt frá 127. þingi, m.a. að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem nefndinni bárust við málið. Meginmarkið þess er að auka sveigjanleika í stjórn og rekstri vatnsveitna. Lagt er til það nýmæli að vatnsveitu verði heimilt að framselja einkarétt sinn á rekstri vatnsveitu og sölu vatns til stofnunar eða fyrirtækis sem að meiri hluta er í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Þá er stefnt að því að einfalda gjaldtökuheimildir vatnsveitna og hindra eftir megni sóun neysluvatns. Loks hefur komið fram að ekki sé ætlunin að samþykkt frumvarpsins leiði til hækkunar á gjaldskrám vatnsveitna.

Nefndin fjallaði ítarlega um málið og telur meiri hlutinn rétt að gera ýmsar breytingar á frumvarpinu, m.a. á þeim ákvæðum sem varða stjórn og eignarhald vatnsveitna. Þannig telur meiri hlutinn að ekki sé kveðið nægilega skýrt á um það í hvaða tilvikum sveitarfélög eiga einkarétt á að leggja og starfrækja vatnsveitu. Þá hefur ekki verið tekið nægilegt tillit til þess að aðrir en sveitarstjórn geti átt eða starfrækt vatnsveitu. Nauðsynlegt þykir að kveða frekar á um skilyrði og kvaðir eignarréttar á stofnkerfi vatnsveitu þar sem um mikilsverða hagsmuni er að ræða og líklegt að framsal einkaréttarins verði til langs tíma. Þá verða ekki séð nein rök fyrir því að vatnsveitum sem ekki eru að öllu leyti í eigu sveitarfélaga verði heimilt að áskilja sér hærri arð en vatnsveitur sem að öllu leyti eru í eigu sveitarfélaga og er því lagt til að ákvæði þar að lútandi falli brott. Að lokum er það mat meiri hlutans að vandséð sé hvernig ákvæði 9. gr. frumvarpsins um að gjaldskrá þurfi staðfestingu eigenda eigi að vera í framkvæmd og því er lögð til breyting á því.

Meiri hlutinn telur rétt að benda á að eðlilegra hefði verið að leggja fram frumvarp til nýrra heildarlaga um vatnsveitur sveitarfélaga í stað þess að leggja fram frumvarp með breytingum á 10 af 14 greinum laganna.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Helstu efnisbreytingar eru eftirfarandi:

1. Ekki er kveðið nægilega skýrt á um það í frumvarpinu í hvaða tilvikum sveitarfélög eiga einkarétt á að leggja og starfrækja vatnsveitu. Til að bæta úr þessum ágalla er lagt til að við bætist nýtt ákvæði sem breyti 1. gr. laganna. 1. mgr. 1. gr. laganna er þá að mestu efnislega óbreytt en í stað þess að tala um að bæjarstjórn skuli starfrækja vatnsveitu í kaupstöðum og bæjum er lagt til að fjallað verði um sambærilegar skyldur sveitarfélaga í þéttbýli jafnframt því sem vísað er til nýrrar 3. mgr. ákvæðisins sem fjallar um undanþáguákvæði frá gildissviði laganna. Ný 2. mgr. er einnig efnislega óbreytt en í stað þess að ræða um heimild hreppsnefnda til þess að starfrækja vatnsveitu í hreppum er nú lagt til að fjallað verði um heimildir sveitarstjórna í dreifbýli. Í nýrri 3. mgr. ákvæðisins er síðan tekið fram að ákvæði laganna gildi ekki um vatnsveitur sem vatnsveitufélög eða aðrir starfrækja samkvæmt ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923. Þá er talið nauðsynlegt að taka fram í nýrri 4. mgr. ákvæðisins að ákvæði 4. gr. um einkarétt sveitarfélaga til að eiga og reka vatnsveitu gildi ekki um landsvæði þar sem ekki er talið hagkvæmt að leggja vatnsveitu, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

2. Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er ekki tekið tillit til þess að aðrir en sveitarstjórn geti átt eða starfrækt vatnsveitu. Því er lögð til breyting á ákvæðinu þannig að skýrt komi fram að með orðunum stjórn vatnsveitu í lögunum sé átt við þann aðila sem ber ábyrgð á daglegri stjórn vatnsveitunnar, hvort sem um er að ræða sveitarstjórn, sérstaka stjórn vatnsveitu sem skipuð er skv. 2. mgr. greinarinnar eða annan þann aðila sem fer með málefni vatnsveitu skv. 3. eða 4. gr. laganna.

3. Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um einkarétt sveitarfélaga á rekstri vatnsveitu og heimild þeirra til að framselja þann rétt. Fram kemur að framsal sé heimilt um ákveðið tímabil í senn með þeim skilyrðum og kvöðum sem ástæða þykir til. Það er mat meiri hlutans að rétt sé að skylda sveitarfélögin til þess að setja inn skilyrði og kvaðir varðandi eignarrétt á stofnkerfi vatnsveitna, verð til notenda veitunnar og innlausnarrétt. Hér er um mikilsverða hagsmuni að ræða og líklegt að framsal einkaréttarins verði til langs tíma. Tryggja verður því hagsmuni sveitarfélaga og íbúa gagnvart því að stofnkerfið geti ávallt nýst íbúunum og sveitarfélaginu þar með. Jafnframt er talið nauðsynlegt að tryggja möguleika komandi sveitarstjórna til að geta innkallað einkaréttinn, t.d. ef rekstur og viðhald vatnsveitunnar er óviðunandi. Þá telur meiri hlutinn að tryggja verði hagsmuni íbúa sveitarfélagsins gagnvart gjaldtöku þar sem hér er um þjónustugjald að ræða og lögskylt verkefni sveitarfélaga sem ætlað er að sinna einni frumforsendu þess að hægt sé að lifa í sveitarfélaginu. Rétt er að benda á í þessu sambandi að íbúar eiga ekki annarra úrkosta völ en að þiggja vatn frá viðkomandi vatnsveitu. Meiri hlutinn leggur því til breytingu hvað þetta varðar.

4. Lögð er til breyting á 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins um eignarhald og viðhaldsskyldu á heimæðum. Þannig er lagt til að það skuli að öðru leyti haldast óbreytt en skylt sé vatnsveitu að yfirtaka heimæðar að skriflegri beiðni eiganda. Ástæður þessa eru að nú eru 12 ár liðin síðan sett voru lög um vatnsveitur sveitarfélaga sem m.a. gerðu ráð fyrir að vatnsveitur sæju um og ættu heimæðar fasteigna í framhaldi af endurnýjun þeirra. Ekki er lengur þörf á að vernda vatnsveitur fyrir skyldu til að endurnýja og viðhalda illa frágengnum heimæðum og því eðlilegt að húseigendur geti losnað undan þeirri kvöð að eiga heimæðarnar og bera ábyrgð á þeim og skaða af þeirra völdum.

5. Lagt er til að 2. málsl. 3. gr. frumvarpsins falli brott. Ástæður þessa eru að ekki verða séð nein rök fyrir því að vatnsveitum sem ekki eru að öllu leyti í eigu sveitarfélaga verði heimilt að áskilja sér hærri arð en vatnsveitur sem að öllu leyti eru í eigu þeirra. Slíkt leiðir til óeðlilegs misræmis gagnvart íbúum landsins. Þá verður að hafa í huga að um er að ræða þjónustugjald vegna skylduverkefnis sveitarfélaga en slík gjöld mega ekki vera hærri en sá kostnaður sem almennt hlýst af því að veita þjónustuna. Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins er þó heimilt að hafa gjaldið hærra sem nemur 7% af eigin fé og telst það ekki í andstöðu við stjórnarskrá og reglur um þjónustugjöld þar sem sérstök lagaheimild er fyrir því.

6. Lögð er til orðalagsbreyting við 3. og 4. málsl. 1. efnismgr. 4. gr. og 4. efnismgr. 6. gr. frumvarpsins. Þannig er lagt til að beiðnum um lagningu heimæðar, leyfisumsóknum um breytingar á heimæð vegna framkvæmda á vegum eiganda sjálfs og við ákvörðun á endurgjaldi fyrir vatn til kaupanda við ákveðnar aðstæður verði vísað til viðkomandi vatnsveitu í stað þess að vera vísað til stjórnar hennar.

7. Þá er lögð til breyting á 5. málsl. c-liðar 5. gr. frumvarpsins um innheimtu vatnsgjalds þannig að heimilt verði að innheimta vatnsgjald með fasteignasköttum og skulu þá gjalddagar vatnsgjalds vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu vatnsgjalds þá hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts, sbr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.

8. Lögð er til breyting á lokamálslið 9. gr. frumvarpsins um staðfestingu eigenda á gjaldskrá þar sem vandséð er hvernig slíkt eigi að vera í framkvæmd. Ekkert er getið um það hvort vatnsveita þurfi samþykki allra eigenda eða hvort samþykki meiri hluta sé nóg eða jafnvel hvort einungis þurfi samþykki þeirra eigenda sem gjaldskráin snertir. Þar að auki telur meiri hlutinn óeðlilegt, t.d. í hlutafélögum, að samþykki eigenda þurfi fyrir tilteknum atriðum. Venjan er sú að hluthafar hafa eingöngu vald á hluthafafundum og þá ræður tiltekinn meiri hluti hluthafa. Jafnframt er ljóst að þegar búið er að taka tillit til framangreindra breytinga á 3. gr. frumvarpsins er ekki þörf á staðfestingu eigenda. Hagsmunir notenda vatnsveitu eiga að vera tryggðir með almennu hámarki vatnsgjalds, sbr. 5. gr. frumvarpsins, auk þess sem ekki er heimilt að taka hærra gjald en sem nemur kostnaði við stofnun og rekstur vatnsveitunnar, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Þá er gert ráð fyrir því í 2. gr. frumvarpsins að sveitarfélög setji m.a. skilyrði um verð til notenda veitunnar. Staðfesting eigenda er því óþörf og illframkvæmanleg.

Hæstv. forseti. Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir formaður og framsögumaður, Guðrún Ögmundsdóttir, Pétur H. Blöndal, Magnús Stefánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Drífa Hjartardóttir og Jónína Bjartmarz.