Raforkulög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 21:36:14 (5168)

2003-03-14 21:36:14# 128. lþ. 101.28 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, SJS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[21:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa ýkja mörg orð um þetta frv., en ef svo skyldi nú fara að það eigi að ganga hér til afgreiðslu, þá vildi ég láta sjónarmið mín liggja þar fyrir.

Í fyrsta lagi vil ég minna á að allur þessi vandræðagangur með þessi nýju raforkulög og þetta nýja skipulag raforkumarkaðarins er þannig til kominn að Íslendingar gerðu enga tilraun til þess eða a.m.k. létu ekki á það reyna með neinum marktækum hætti hvort við, aðstöðu okkar vegna og landfræðilegrar legu, gætum ekki fengið undanþágu frá því að vera aðilar að sameiginlegri raforkustefnu Evrópusambandsins eða Evrópska efnahagssvæðisins. Hér er á ferðinni eins og hv. þingmenn efalaust þekkja tilskipun um innri markað með raforku, ef við leyfum okkur að kalla hana svo, tilskipun sem eftir miklar deilur innan Evrópusambandsins var knúin þar í gegn, tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins nr. 96/92 frá því í desember 1996, um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku. Og hver var nú megintilgangur þeirrar tilskipunar? Jú, að gera meginland Evrópu að sameiginlegum orkumarkaði og auðvelda viðskipti með raforku milli landa. Það er góðra gjalda vert eins og aðstæður eru þar, enda talsverð viðskipti með raforku yfir landamæri sem eru hvort sem er meira og minna að verða ósýnileg í Evrópusambandinu þar sem er að rísa á fót evrópskt sambandsríki eða stórríki eins og kunnugt er.

En hvaða erindi á Ísland, eyja í miðju Norður-Atlantshafinu algerlega sjálfstæður raforkumarkaður og ótengdur nokkrum öðrum aðila, inn í þetta samhengi? Ekki neitt. Bókstaflega ekki neitt. Nánast öll meginmarkmið evrópsku tilskipunarinnar lúta að öðru en því sem á við hér eins og að auðvelda samkeppni í viðskiptum yfir landamæri og annað í þeim dúr.

Fyrsta atriði þessa máls er auðvitað það, herra forseti, að það var yfirgengilegt að íslensk stjórnvöld skyldu ekki svo mikið sem bera það við af einhverjum myndugleik í aðdraganda málsins og undirbúningsferli að fara fram á að Ísland fengi að vera undanþegið, eða fengi a.m.k. langa undanþágu eða aðlögunartíma, þess vegna ótímasetta undanþágu, sem væri þannig útfærð að hún félli úr gildi ef Ísland tengdist evrópska orkumarkaðnum og yrði hluti af honum.

Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/1999, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn, kom hér til umfjöllunar á Alþingi á vordögum, man ég ekki nákvæmlega hvort það var vorið 2000 eða 2001, ég hygg þó hið síðara kannski. Þá var dálítið lýsandi, herra forseti, fyrir árvekni manna í þessum efnum að það tókst nánast ekki að vekja athygli nokkurs einasta þingmanns á þessu máli. Ég var fulltrúi flokks míns í utanrmn. sem fékk málið til umfjöllunar og reyndi að koma því þar á dagskrá að þarna væri um stórmál að ræða sem menn ættu nú heldur betur að taka til skoðunar, en það kom fyrir ekki og ég skilaði einn minnihlutaáliti um að við ættum að fresta þessari fullgildingu, eða þ.e. að Ísland ætti ekki að falla frá stjórnskipulegum fyrirvara, heldur senda erindismenn sína til baka og fara fram á það að reynt yrði að fá fram undanþágu fyrir Ísland.

Ég er í litlum vafa um það, herra forseti, að þeir sem þarna héldu á málum vildu auðvitað bara í þessum efnum eins og öllum öðrum reyra okkur sem fastast inn í Evrópusambandið. Er það ekki þannig sem þessi mál ber æ oftar að okkur, að þeir sem hafa verið fulltrúar okkar og átt að standa vaktina og vekja athygli manna á því hvað þarna væri að gerast vilja bara koma með þetta hér í kyrrþey, snyrtilega innpakkað og drífa þetta í gegn, því markmið þeirra er að við göngum þarna inn?

Mér finnst það mikið umhugsunarefni, herra forseti, að ekki skyldi vera öðruvísi að málum staðið á þeim tíma og það er líka dapurlegt að rifja upp að það var nánast engin umræða um þetta mál á Alþingi þegar ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var tekin hér í gegn. Þá sváfu þingmenn sem síðar hafa rumskað í málinu og farið að velta því fyrir sér: Heyrðu, bíddu, þetta er nú kannski ekki svo sniðugt fyrir Ísland. Hvaða erindi eigum við inn í þetta? Hér hafa síðan komið menn, og það er virðingarvert og þakkarvert, og lýst yfir eindreginni andstöðu við málið og þetta frv. í kjölfarið eins og það er úr garði gert. Ég heyrði síðsumars eða í haust að í umræðum um þessi mál á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur var allt í einu fyrrv. menntmrh. og hv. þm. Björn Bjarnason orðinn fullur efasemda um þetta og spurði: Bíddu, af hverju reyndi Ísland ekki að fá undanþágu frá þessu máli? Menn hafa heyrt hér hv. þm. Einar Odd Kristjánsson og fleiri tala á svipuðum nótum. (Gripið fram í.) Ja, ég geri það ef þeir færa skynsamleg rök fyrir máli sínu, hv. þm. Ég er nú að rembast við að ræða um málið efnislega eins og það kemur fyrir. Eða hef ég farið á einhvern hátt með rangt mál? Ég bið þá hæstv. ráðherra að leiðrétta ef þetta er ekki í grófum dráttum svona vaxið eins og ég hef hér farið yfir það.

Herra forseti. Um efni þessa frv. mætti síðan mikið segja. Kunnara er en frá þurfi að segja að fæðingarhríðir þess hafa verið gríðarlegar. Stjórnarflokkarnir hafa engst sundur og saman yfir þessu máli í nokkur missiri. Þó nokkurt vatn er til sjávar runnið frá því menn hér illu heilli afgreiddu þáltill. um að falla frá stjórnskipulegum fyrirvara og mörkuðu þar með stefnuna að Ísland skyldi fullgilda þessa tilskipun. Ætli það séu ekki að nálgast tvö ár síðan? Og stjórninni hefur nú ekki gengið betur en þetta að koma á nauðsynlegri lagasetningu í framhaldinu. Hver er lendingin hér að verða, hver er hún? Þetta er ekki einu sinni magalending. Þetta er ekki nema helmingur af málinu. Það vantar í raun og veru öll mikilvægustu undirstöðuatriðin í málið, sem er hvernig menn ætla að standa að þessum hlutum sem verða að vera undirstaðan varðandi opnara umhverfi eða samkeppnisumhverfi í raforkuvinnslu og dreifingu í landinu og það er hvernig flutningskerfið verður uppbyggt og hver jafnar kostnaðinn af rekstri þess. Það er sett í nefnd. Eftir allan þann tíma sem menn hafa þó haft til þess að undirbúa það mál og ganga frá því er það sett í nefnd. Af hverju er það sett í nefnd? Af því menn koma sér ekki saman um málið. Það er ekkert annað á ferðinni. Það er bullandi ágreiningur um það hvernig eigi að standa að málum. Það víbrar allt á bak við tjöldin milli risanna í orkugeiranum, það vita allir menn. Menn geta varla heilsast þar á fundum, þeir eru svo taugaveiklaðir. Núningurinn milli Landsvirkjunar, Rariks, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja og jafnvel fleiri aðila sem ætla sér inn í þennan slag er þannig að menn geta rétt svona kastað orðið kveðju hver á annan, það eru allir svo titrandi hræddir yfir því hver þeirra staða verður inni í þessu nýja samhengi. Eitt af því sem menn eru auðvitað að reyna að verja sig fyrir er að verða dregnir inn í það að bera sameiginlega ábyrgð á og kosta raforkuverðsjöfnunina. Rekstur flutningskerfisins þannig að allir geti keppt þar og allir landsmenn njóti þjónustunnar.

Og nú ætla menn sem sagt að henda sér inn í þetta nýja umhverfi, fara fram með fyrri hluta málsins en skilja botninn eftir, ekki einu sinni upp í Borgarfirði, hann er hvergi í sjónmáli. Hann er týndur. Það er ekki einu sinni hægt að vísa á hann þar. Það er enginn botn í málinu. Þetta ætla þingmenn að láta bjóða sér að láta heita svo að ágreiningnum sé pakkað inn og hann settur í nefnd. Og það vita allir af hverju þetta er gert. Það er af því menn hafa ekki náð landi. Menn hafa ekki náð saman um hvernig eigi að gera þetta. Það er grenjandi ágreiningur hérna á bak við tjöldin um það mál. Það eru allir að reyna að verja sig og sínar hundaþúfur í þessum efnum, reyna að koma sér fyrir í málinu. Vita menn t.d. hvað orkufyrirtækin eru að gera þessa dagana? Þau eru að fara um á milli viðskiptavina sinna og bjóða þeim langtímasamninga. Af hverju eru þau að því? Það er af því þau hafa setið ein að þeim hingað til. Nú er Landsvirkjun og fleiri aðilar að senda póst og erindreka til sinna stóru kúnna, heildsölufyrirtækjanna sem kaupa af þeim raforku í heildsölu, og segja: Heyrðu, eigum við ekki að fara að ræða málin? Þið væruð kannski til í að semja við okkur svona til tíu, fimmtán ára? Við ætlum að veita ykkur afslátt ef þið semjið. Þetta lítur voðalega vel út. Hvað eru menn að reyna að gera? Menn eru að reyna að festa sér kúnnana og negla þetta niður vegna óvissunnar sem er fram undan ef menn henda sér út í vatnslausa laugina eins og menn ætla að gera. Þetta er enginn frágangur á málinu, herra forseti. Þetta er algerlega fráleitt.

Í lögunum um Landsvirkjun er þó það ákvæði að Landsvirkjun beri að afhenda öllum rafmagnið á sama verði alls staðar þar sem hún afhendir orku. Nú mun væntanlega þurfa að endurskoða ákvæði laganna um Landsvirkjun. Það hlýtur eiginlega að þurfa að gerast, því sú sérstaða, þau sérréttindi og þær skyldur sem Landsvirkjun hefur geta varla gengið þegar komið verður inn í samkeppnisumhverfið. Hvernig verður það þá? Hefði ekki átt að kíkja á það fyrst, herra forseti?

Nei, herra forseti, í sjálfu sér þarf ekki að hafa um það fleiri orð. Þetta frv. er algjörlega ótækt til afgreiðslu eins og nú er í pottinn búið. Það mun nokkuð örugglega leiða til hækkaðs orkuverðs strax. Og er það þó kannski bara forsmekkurinn af því sem við ættum eftir að sjá ef menn lenda út í ógöngur einkavæðingar og samkeppni í þessu eins og menn hafa gert sums staðar í nágrannalöndunum með þeim afleiðingum af raforkuverðið stefnir bara lóðbeint til himins.

Ef þetta er það sem menn vilja, herra forseti, þá verða menn auðvitað að hafa það svo lengi sem menn búa við svona óskynsamlegan meiri hluta hér á Alþingi, vonandi verður það nú ekki lengi. Ég held að þetta mál verði eitt af því sem verður ágætt veganesti að taka út í kosningabaráttuna til marks við vinnubrögð og viðhorf ríkisstjórnarinnar. Málefni landsbyggðarinnar sem auðvitað á hér fyrst og fremst í hlut hvað varðar rekstur dreifikerfisins og jöfnun orkuverðs í landinu eru sett í nefnd eftir þau fjögur ár sem ríkisstjórnin hefur haft til að reyna að koma sér saman um eitthvað í þessu máli, gefist upp við það og þá er því pakkað inn með þessum hætti.

Þetta eru endemis vinnubrögð, herra forseti. Ná engri átt og við látum ekki bjóða okkur þetta.