Raforkulög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 21:52:43 (5171)

2003-03-14 21:52:43# 128. lþ. 101.28 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[21:52]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þannig eins og hv. þm. veit mjög vel --- hann bar nú fram fyrirspurn á hv. Alþingi um hvað hefði verið gert til þess að reyna að fá undanþágu frá þessari tilskipun --- og það var bara einfaldlega þannig að það var ekki hægt. Við skulum ekki eyða tíma í að ræða það.

En hvað höfum við upp úr þessu? spyr hv. þm. Og hann sagði í ræðu sinni áðan að þessi tilskipun gengi eingöngu út á það að auðvelda viðskipti á milli landa. Það er nú reyndar ekki þannig. Þessi tilskipun gengur m.a. út á að það verði meira gegnsæi í sambandi við raforkumálin. Og ég vil meina og ég trúi því að það sé mikilvægt fyrir neytendur að það sé gegnsæi og neytandinn viti meira um það hvernig rafmagnsverðið verður til. Þetta er eitt lykilatriðið í tilskipuninni.

Hv. þm. talaði um Rarik. Vissulega hefur Rarik tekið að sér mikilvægt hlutverk í sambandi við jöfnun raforkuverðs, hefur reyndar þurft að jafna það út á meðal neytenda sinna, kaupenda, sem hefur þá þýtt hærra orkuverð í þéttbýli á Rarik-svæði en hefði kannski verið eðlilegt, en með því að taka upp þetta fyrirkomulag erum við að fara út úr því kerfi. Og við fáum aðra fjármuni til þess að taka á dreifbýlisvandanum. Ég tel það mjög mikilvægt fyrir þá þéttbýlisstaði sem hafa verið að kaupa rafmagn af Rarik.

Hvernig við dekkum þessar 500 milljónir eða hvað það er er ekki ljóst á þessari stundu og það er það sem nefndin fær sem umfjöllunarefni. Mér finnst að hv. þingmenn eigi ekki að horfa á það svona neikvæðum augum. Við verðum þarna með 17--18 manna nefnd og þar verða fulltrúar þingflokka, orkufyrirtækja, neytendasamtaka, sveitarfélaga o.s.frv., og þeir munu finna leiðina. Ég er náttúrlega með alveg skoðun á því hvernig þetta á að vera.