Raforkulög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 21:57:26 (5173)

2003-03-14 21:57:26# 128. lþ. 101.28 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[21:57]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur verið til meðferðar í ríkisstjórn í tvö ár án þess að komin sé niðurstaða í það. Frv. er nú þannig úr garði gert að það segir í 1. og 2. gr. hver markmiðin eru, en síðan kemur ákvæði VII til bráðabirgða sem segir fyrir um að skipa skuli nefnd til að leysa úr þeim ágreiningi sem er algjörlega óleystur í frv.

Hv. þm. hafa gert hér grein fyrir afstöðu sinni í þessu máli og ég ætla að tjá í stuttu máli afstöðu Frjálslynda flokksins til þess. Hún er í einföldu máli sú að þar sem málið er alls ekki í þeim búningi að það ætti að afgreiðast frá Alþingi munum við í fyrsta lagi styðja tillögu frá Vinstri grænum um að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og í öðru lagi munum við leggjast gegn því að frv. fari í gegn.

Það er dálítið einkennilegt að koma hér inn með þennan mikla lagabálk þegar stór efnisatriði í málinu eru algjörlega óleyst, því að í ákvæði til bráðabirgða VII segir svo, með leyfi forseta:

,,Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd þar sem eiga sæti fulltrúar allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti fimm fulltrúar frá Samorku, tveir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Neytendasamtökunum. Þá skal fjármálaráðherra skipa einn fulltrúa í nefndina og iðnaðarráðherra tvo og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar.``

Síðan segir um hlutverkið:

,,Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings á raforku, þar með talið um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri flutningskerfisins og kerfisstjórnunar skuli háttað þannig að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins verði sem best tryggð. Þá skal nefndin móta tillögur um uppbyggingu gjaldskrár fyrir flutning raforku. Jafnframt skal nefndin móta tillögur um með hvaða hætti jafna eigi kostnaði vegna flutnings og dreifingar raforku.

Nefndin skal skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps til iðnaðarráðherra eigi síðar en 31. desember 2003.``

Sem sagt, við erum að samþykkja frv. en stór efnisatriði í því eru sett í nefnd sem á að búa til nýtt lagafrv. sem við eigum svo að samþykkja. Þetta er málsmeðferðin í stuttu máli, herra forseti. Það er náttúrlega ljóst að auðvitað höfum við miklar áhyggjur af því hvernig þetta mál er í pottinn búið því að ef ekki verður eðlileg niðurstaða varðandi verðlagningu, flutning og jöfnun raforkuverðs út úr þessari nefndarskipun taka ákvæði frv. gildi. Það væri eiginlega það versta sem gæti hent landsbyggðina. Frv. eins og það er er hótun gagnvart landsbyggðinni um að enn verði vegið að kjörum fólks þar. Þess vegna lýsi ég því yfir, herra forseti, að við í Frjálslynda flokknum munum greiða atkvæði gegn þessu frv.