Raforkulög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 22:20:59 (5176)

2003-03-14 22:20:59# 128. lþ. 101.28 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv. 65/2003, SvanJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[22:20]

Svanfríður Jónasdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Vorið 2000 samþykkti Alþingi að sú tilskipun Evrópusambandsins sem laut að raforkulöggjöfinni yrði færð inn í EES-samninginn. Þá tók Alþingi ákvörðun sem í raun hefur leitt til þess að nú er verið að setja þessi lög á Alþingi.

Það er þó mikill galli, herra forseti, að ríkisstjórnin hafi ekki haft þrek til að ljúka málinu öllu. Hér er skilinn eftir III. kafli frv. um flutning á raforku, um hvernig honum verði háttað og um kostnað. Sömuleiðis er ekki gengið frá því hvernig gengið verður frá hinum félagslegi þætti eða jöfnuði í raforkukerfinu. Aðrir kaflar frv. eru vel unnir og við fulltrúar Samfylkingarinnar höfum tekið þátt í þeirri vinnu í iðnn. Við munum því greiða atkvæði með ýmsum þeim brtt. sem hér liggja fyrir og sitja hjá við aðrar eftir atvikum.

Herra forseti. Við getum hins vegar ekki stutt frv. út úr þinginu í þessum búningi. Við teljum í raun ófært að afgreiða frv. þannig að þessi stóru ágreiningsmál liggi eftir og Alþingi takist ekki á við þau og afgreiði eins og aðra kafla frv. Það að vísa þessum stóru málum í nefnd er ákveðin uppgjöf. Ríkisstjórnin gat ekki lokið málinu. Það bíður nýrrar ríkisstjórnar.

Samfylkingin situr hjá við afgreiðslu frv., því miður, enda slæmt að geta ekki klárað þetta stóra mál þannig að menn hafi alla myndina.