Barnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 23:16:43 (5179)

2003-03-14 23:16:43# 128. lþ. 102.15 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv. 76/2003, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[23:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. sem ég hef flutt við þetta frv. Hún felur í sér að sameiginleg forsjá verði meginregla í barnalögum. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, en vísa til frv. til laga sem flutt var hér fyrr á þinginu sem ég var 1. flm. að og meðflutningsmenn mínir voru nokkrir aðrir hv. þm. Samfylkingarinnar. Í greinargerð með því frv. þar sem lagt er til að sameiginleg forsjá verði meginregla segir, með leyfi forseta:

,,Í júní 1999 skilaði forsjárnefnd, skipuð af dómsmálaráðherra, af sér áfangaskýrslu þar sem m.a. er fjallað um reynsluna af sameiginlegri forsjá hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Kemur þar m.a. fram að bæði í Finnlandi og Svíþjóð hafi sameiginleg forsjá verið gerð að meginreglu við hjónaskilnað foreldra og er það niðurstaða nefndarinnar að rétt sé að feta í fótspor þeirra.

Ein meginröksemd forsjárnefndar fyrir sameiginlegri forsjá sem meginreglu er sú að slíkt fyrirkomulag samrýmist best 1. mgr. 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem Ísland hefur fullgilt.``

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þeirri brtt. sem hér er á þskj. 1343, brtt. við það frv. sem hér liggur fyrir til barnalaga.