Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 19:50:54 (10)

2002-10-02 19:50:54# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[19:50]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Nú er síðasta þing þessa kjörtímabils að hefjast. Hagspekingar og spástofnanir hafa gjarnan horn í síðu kosningaþings. Þá gerist stjórnmálamenn óábyrgri en vant er, veikari fyrir þrýstihópum en vant er og jafnvel enn veikari fyrir hvers kyns yfirboðum í útgjöldum en vant er. Haft er á orði, að ríkissjóður verði aldrei svo vinasnauður sem á kosningaþingi. Því miður er nokkuð til í tali af þessu tagi um ístöðuleysi og yfirboð síðustu mánuði fyrir kosningar og berum við öll þar nokkra ábyrgð. Mín reynsla er einnig sú að á kosningaþingi sé meira um upphlaup eins og það er kallað þegar smávægileg dægurmál eru blásin upp í æðra veldi og nokkuð halli á málefnalega umræðu við þessar aðstæður. Auðvitað má finna að slíku og menn verða að kunna sér hóf. En á hinn bóginn ber að hafa í huga að þing er ekki aðeins löggjafarstofnun þótt það hlutverk sé virðulegast og þýðingarmest. Þing sem undir nafni rís verður einnig að vera vettvangur dagsins og völlur pólitískra átaka, þar sem rökum er teflt saman, hugsjónir lita orðræðuna og þingmenn sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að þeim sé ekki sama hvernig þjóðmálin þróast. Í rauninni fer ekki illa á því að þessir þættir þinghaldsins séu fyrirferðarmeiri á kosningaþingi en endranær.

Eins og sést á fylgiskjali með stefnuræðunni vilja einstakir ráðherrar og ríkisstjórnin í heild þó fá drjúgan hlut af starfstíma þingmanna til hreinna löggjafarstarfa á komandi vetri því boðuð eru mjög mörg þingmál á vegum stjórnarmeirihlutans. Væntanlega munu þingmenn stjórnar- og stjórnarandstöðu einnig hafa fjölmörg mál fram að færa. Það þarf því að halda mjög vel á spöðunum á þessum stutta þingtíma og er gott við slíkar aðstæður að búa við röggsaman þingforseta.

Við upphaf þings er gjarnan spurt hvaða mál verði fyrirferðarmest. Ljóst er að fjárlagafrv. og efnahagsmál munu yfirgnæfa önnur mál fram að jólahléi. Enda eru ríkar ástæður til þess. Forustumenn stjórnmálaflokkanna komu saman til sjónvarpsumræðna á dögunum en þá bar svo við að efnahagsmál voru vart tekin á dagskrá. Á því var gefin sú skýring að í þeim málum væri ekkert að gerast, eins og það var orðað. Það voru mikil öfugmæli. Í efnahagsmálum eru stórtíðindi að gerast. Tíðindi sem að fáir sáu fyrir, þar með taldir þeir sem áttu að hafa mesta þekkingu og bestu aðstæður til að rýna inn í efnahagslega framtíð landsins. Lítum á nokkur dæmi og þau ekki gömul. Fyrir 18 mánuðum spáði Þjóðhagsstofnun að viðskiptahalli ársins 2001 yrði 72,2 milljarðar króna, en hann varð meiri en helmingi minni. Fyrir réttu ári spáði sama stofnun að hallinn yrði 46 milljarðar króna á þessu ári, árinu 2002, en nú er útlit fyrir að hann verði enginn. Hallinn verði enginn. Og fyrir aðeins átta mánuðum var krafist umræðu hér í þinginu vegna þeirra ógna sem blöstu við í efnahagsmálum. Þá sagði málshefjandinn eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Var það ekki örugglega fyrir síðustu jól, herra forseti, sem ríkisstjórnin lýsti því hvernig verðbólgan mundi senn hníga hægt en örugglega og var það ekki fyrir jólin sem ríkisstjórnin talaði líka um svigrúmið sem var að myndast til að lækka vexti þegar krónan mundi styrkjast? Jú, herra forseti. Ef mig misminnir ekki, þá var það einmitt fyrir síðustu jól. En ríkisstjórnin eins og svo margir aðrir að því er þetta varðar fór því miður í jólaköttinn.``

Og sami maður sagði einnig:

,,Miðað við þær hækkanir sem yfirleitt verða á verðlagi á þessum tíma árs bendir ekkert til þess að við verðum undir þessum rauðu strikum. Hver segir það? Ekki bara formaður Samfylkingarinnar heldur segir forstjóri Þjóðhagsstofnunar að það sé ákaflega ólíklegt, og það er þess vegna sem við efnum til þessarar umræðu.``

Það gátu fleiri orðið saddir en jólakötturinn því það er ekki oft sem stjórnmálamaður þarf að éta aðrar eins kræsingar ofan í sig eins og í þessu tilviki.

Og formaður Vinstri grænna taldi að eitt aðalvandamálið í efnahagsmálum væri að forsætisráðherra landsins væri veruleikafirrtur og á efnahagslegu afneitunarstigi, eins og það var efnislega orðað. Hann sagði orðrétt: ,,Öll skilaboð sem nú koma úr íslenska hagkerfinu hvað varðar viðskiptahalla, verðlagsþróun, gengismál og vaxtamál eru skilaboð um óstöðugleika, óvissu og viðsjár.

En hæstv. forsrh. er enn við sama heygarðshornið. Hann tekur ekki mark á neinu slíku, skiptir um efnahagsráðgjafa eftir þörfum og setur upp ný og ný sólgleraugu, eins þótt hellirigni.``

Og nú hlýtur að verða spurt: Hvar eru skilaboðin um óstöðugleika, óvissu og viðsjár? Áttar formaður Vinstri grænna sig ekki á því að það er dálítið spaugilegt að spássera í regnstakk með uppspennta regnhlíf í glaðasólskini og góðviðri? Stjórnarandstaðan hélt því fram að verðbólgan væri komin á fulla ferð aftur og viðskiptahallinn væri slíkur að hann væri orðinn óviðráðanlegur, eins og það var orðað. Henni þótti ekkert benda til þess að gengið mundi styrkjast og vextir færu lækkandi, eins og áður var nefnt. Af sérstökum kurteisisástæðum ætla ég ekki að fjalla hér um hina frægu tifandi tímasprengju sem oft var nefnd til sögunnar. En hvernig er þá staðan núna og hvernig eru horfurnar? Það tókst að tryggja frið á vinnumarkaði þvert á framangreindar spár. Verðbólgan er komin í takt við meðaltal samanburðarþjóðanna. Það verður heldur ekki samdráttur í þjóðarframleiðslunni á þessu ári eins og spáð var og nú er gert ráð fyrir allgóðum hagvexti á næsta ári og eru þá virkjanaframkvæmdir ekki reiknaðar inn í dæmið. Og hinn óviðráðanlegi viðskiptahalli verður enginn á þessu ári og hinu næsta sem þýðir, þegar tekið er tillit til erlendrar verðbólgu, að viðskiptajöfnuðurinn sé í raun jákvæður. Þýðingarmikið er einnig að þjóðhagslegur sparnaður fer nú vaxandi á nýjan leik. Allir þessir þættir munu tryggja að kaupmáttur í landinu mun aukast um 2% á næsta ári og verður það níunda árið í röð sem kaupmáttur þjóðarinnar vex. Það eru engin dæmi um slíkt áður í íslenskri þjóðarsögu að kaupmáttur vaxi níu ár samfellt í röð. Er ekki orðið óhætt fyrir suma að fara úr stígvélunum í þægilegra skótau og leggja frá sér regnhlífina?

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur samráð ríkisvaldsins við heildarsamtök aldraðra verið að aukast. Talsmenn aldraðra hafa þó fundið að því að þótt samráð hafi vissulega aukist hafi þeir iðulega komið of seint að ákvarðanaferlinu og á stundum nánast staðið frammi fyrir gerðum hlut. Nú hefur verið sett í gang djörf tilraun til að bæta úr þessu þannig að forstumenn Landssambands eldri borgara og ríkisvaldsins verði samferða í undirbúningsvinnunni. Ekki verði tjaldað til einnar nætur, heldur reynt að setja fram sáttargjörð í samningsformi sem varðar veginn næstu árin. Ég er ekki í vafa um að báðir aðilar ganga til þessa samstarfs af fullum heilindum. Þýðingarmikið er að sæmilega takist til, því þá má fylgja þessu vinnumódeli eftir í samstarfi þessara aðila í framtíðinni og reyna það einnig á fleiri sviðum.

Herra forseti. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að setja af stað heildarendurskoðun á lögum um heilbrigðisþjónustu, m.a. með hliðsjón af fjórum nýlegum skýrslum Ríkisendurskoðunar. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2000, haustið 1999, var sérstaklega leitað til Ríkisendurskoðunar og henni falið að kanna rekstrarkostnað sjúkrastofnana miðað við fjárlög. Í kjölfarið var rekstrarhalli stofnana gerður upp, þar á meðal Landspítala, og heildarútgjöld, eins og stofnanirnar sjálfar höfðu áætlað þau, lögð til grundvallar fjárveitingum í fjárlögum ársins 2000. Aðeins tveimur árum eftir þessa aðgerð sem átti að koma fjármálunum á hreint virðist allt komið í fyrra horf. Ef litið er á samanlögð fjárframlög í fjárlögum til Landspítala og Borgarspítala árið 1997 og borið saman við framlög í fjárlögum 2002 þá hafa þau hækkað um 65--70%, það jafngildir 10--11% árlegri hækkun.

Framlög til heilbrigðismála eru há hér á Íslandi miðað við önnur ríki, hvaða mælikvarði sem notaður er. Við viljum hafa heilbrigðiskerfið opið öllum og þjónustuna bæði mikla og góða. Í fjárlögum fyrir árið 2002 er ráðstafað tæplega 60 milljörðum króna, 60 þús. milljónum króna, til heilbrigðismála. Það er fjórðungur af heildarútgjöldum ríkisins. Það eru því gríðarlegir hagsmunir fyrir landsmenn alla að vel sé farið með það fé og að stuðlað sé að hagkvæmum rekstri. Heilbrigðiskerfið er ekki hafið yfir gagnrýni og í raun er óábyrgt að halda því fram að stórkostlega fjármuni vanti til heilbrigðismála. Við verðum að leita skýringa á hvað farið hefur úrskeiðis áður en ríkissjóður er krafinn um enn meira fé. Það gengur ekki að ítrekað séu lagðir fram miklir fjármunir til að leysa rekstrarvanda sem skýtur svo aftur upp kollinum óðar en við er litið.

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa orðið stórkostlegar framfarir í samgöngukerfi landsmanna. Öryggi hefur aukist til muna, vegalengdir milli staða styst og flutningskostnaður lækkað fyrir vikið. Stórverkefni eru fram undan á þessu sviði eins og kunnugt er. Yfir 90% umferðar á landinu er nú á bundnu slitlagi. Það er mjög dýrt að ná þeim 10% sem eftir liggja. En áætlanir eru til og góður vilji til að fylgja þeim fram.

Ákveðið hefur verið að tillögu landbúnaðarráðherra að hefja á næstunni viðræður ríkis við framleiðendur mjólkur- og sauðfjárafurða. Starfsumhverfi landbúnaðar breytist ört og vélum við Íslendingar ekki lengur einir um þau mál. Þýðingarmikið er að styrkja grundvöll innlendrar landbúnaðarframleiðslu við aukna samkeppni með því meðal annars að efla mennta- og rannsóknarþátt íslensks landbúnaðar og styrkja með öðrum hætti stöðu íslenskra bænda.

Umhverfisráðherra leiddi þátttöku okkar á alþjóðlegum fundi í Suður-Afríku nýlega. Verður að telja að vel hafi tekist að koma sjónarmiðum Íslands til skila og hafði sendinefnd Íslands frumkvæði í umfjöllun sem snerti mikilvæga málaflokka, svo sem varðandi málefni hafsins og endurnýjanlega orku í víðtæku samhengi.

Herra forseti. Íslendingar skipa sér nú í fremstu röð þjóða að því er lífskjör varðar. Traust menntakerfi er ein af meginástæðum fyrir því að okkur hefur vegnað svo vel enda er árangur okkar í alþjóðlegu samhengi athyglisverður. Traust menntun eykur aðlögunarhæfni þjóðarinnar í alþjóðlegri samkeppni. Fjárfesting í menntun og menningu gefur því ríka og örugga ávöxtun.

Ríkisstjórnin mun áfram leggja áherslu á að bæta enn frekar aðgengi landsmanna að fjölbreyttri grunn- og símenntun. Nú í vetur verður til dæmis komið upp háhraðanettengingum til framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva, mótaðar verða tillögur um háskólanámssetur á Egilsstöðum og almennar hugmyndir um netháskóla.

Verkefni af þessu tagi falla einstaklega vel að aðstæðum lítillar þjóðar í stóru landi og að þekktum vilja landsmanna til að nota upplýsingar- og fjarskiptatækni við lausn hvers kyns verkefna.

Dómsmálaráðherra mun leggja fram nýtt frumvarp um barnalög og annað er skerpir á ákvæðum sem taka á kynferðisafbrotum gegn börnum, svo nefnd séu tvö atriði af verkefnalista ráðherrans. Fjárfrekustu verkefnin snerta á hinn bóginn varðskip og nýtt fangelsi og er vonast til að þau fari í gang á næsta ári.

Að frumkvæði félagsmálaráðherra stendur nú yfir sérstakt átak til að auka framboð á leiguhúsnæði fyrir tekjulága einstaklinga. Á næstu fjórum árum verða byggðar sex hundruð félagslegar leiguíbúðir umfram þær fjögur hundruð íbúðir sem þegar hefur verið ákveðið að byggja á hverju ári. Samtals verða þetta tvö þúsund og tvö hundruð íbúðir á einungis fjórum árum.

Á sl. árum hefur ríkisstjórnin stóraukið framlög til málaflokks fatlaðra. Miklar úrbætur hafa orðið í húsnæðismálum fatlaðra og hefur tekist góð samvinna á milli stjórnvalda og Hússjóðs Öryrkjabandalagsins um þau mál.

Herra forseti. Á næstu vikum er að vænta tímamóta í sögu Evrópu eftir kalda stríðið með frekari stækkun Atlantshafsbandalagsins og upphafi stækkunar Evrópusambandsins. Með stækkun Evrópusambandsins til austurs bætast ný ríki við hið Evrópska efnahagssvæði, sem EES-samningurinn nær yfir. Íslensk stjórnvöld fylgjast því grannt með stækkuninni og hafa eindregið stutt hana. Það er vegna EES-samningsins, en ekki síður vegna þess hve mikilvæg stækkun Evrópusambandsins er fyrir frið og velferð í Evrópu allri. Það hefur legið fyrir frá því skömmu eftir kalda stríðið að mikilvægar umbætur í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu sem og efnahagsleg velferð þeirra og stöðugleiki væri háð því að þau eygðu aðild að Evrópusambandinu. Stækkun sambandsins hefur dregist úr hömlu og því ber að vona að loks núna sé hún að verða að veruleika.

Atlantshafsbandalagið hóf stækkun sína til austurs fyrir rúmum þremur árum þegar Pólland, Tékkland og Ungverjaland fengu aðild að því. Stefnt er að því að ákveða á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Prag í nóvember að bjóða fleiri Mið- og Austur-Evrópuríkjum aðild að bandalaginu. Nú eru almennt taldar góðar líkur á að Eystrasaltsríkin þrjú verði þar á meðal, en íslensk stjórnvöld hafa eins og kunnugt er sérstaklega beitt sér fyrir inngöngu þessara ríkja í bandalagið. Eystrasaltsríkin voru hluti af Sovétríkjunum sem hernumin lönd. Aðild Eystrasaltsríkjanna að Atlantshafsbandalaginu hefur því mikla táknræna þýðingu, því hún mun staðfesta að lok kalda stríðsins leiddu ekki til nýrrar skiptingar álfunnar eins og útilokun Eystrasaltsþjóðanna frá NATO hefði gert. Aðild þeirra að Atlantshafsbandalaginu mun þannig boða upphaf nýrra tíma í Evrópu.

Eftirleikur hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin í fyrra stendur enn. Baráttan gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi hefur náð umtalsverðum árangri, en hún er flókin og tímafrek og krefst þrautseigju og staðfestu. Lykilþáttur í baráttunni er að hindra að gereyðingarvopn komist í hendur hryðjuverkamanna. Atburðirnir í Bandaríkjunum sýndu að þau hryðjuverkasamtök eru til sem mundu ekki skirrast við að nota gereyðingarvopn, kæmust þau yfir slík vopn. En það þarf líka að koma í veg fyrir að einræðisherrar og harðstjórar geti framið illvirki í skjóli slíkra vopna og notað þau eða fengið þau hryðjuverkamönnum í hendur.

Alþjóðasamfélagið má ekki sitja hjá meðan stjórnin í Írak stendur sannanlega fyrir framleiðslu gereyðingarvopna. Stjórnin í Írak hefur sigað hersveitum sínum á nágrannaríki, herjað miskunnarlaust á eigin borgara og hún heldur áfram að ógna alþjóðlegum friði og öryggi. Það verður að afvopna Íraksstjórn og koma í veg fyrir að hún eignist kjarnorkuvopn og ræða verður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hvernig það verður best gert. Sameinuðu þjóðunum ber að taka á málinu því það eru einmitt ályktanir þeirra sem Íraksstjórn virðir að vettugi. Eins og utanríkisráðherra Íslands hefur bent á er trúverðugleiki Sameinuðu þjóðanna í húfi. Takist öryggisráðinu ekki að fást við svo hættulega ógn sem þá er stafar frá Íraksstjórn og brölti hennar má ekki útiloka að farnar verði aðrar leiðir.

Nú um mánaðamótin urðu þær breytingar á fyrirkomulagi varna á Íslandi að yfirstjórn varnarliðsins færðist í hendur bandarísku Evrópuherstjórnarinnar sem er staðsett í Stuttgart í Þýskalandi. Er þessi breyting til komin vegna nýs herstjórnarskipulags í Bandaríkjunum sem ákveðin var í kjölfar atburðanna 11. september í fyrra. Hafa fulltrúar bandarískra hermálayfirvalda átt fundi með utanríkisráðherra og þeim embættismönnum hans sem fara með þessi mál og gert þeim nánari grein fyrir breytingunum. Hefur ekkert komið fram í þeim samtölum sem gefur tilefni til að ætla að varnarviðbúnaður á Íslandi eða starfsemi varnarliðsins verði skert frá því sem nú er.

Herra forseti. Íslenska ríkið styrkir stjórnmálastarfsemi innan lands af töluverðum rausnarskap og má ekki mikið auka þann stuðning svo ekki verði hægt að tala um að hér á landi séu stjórnmálaflokkarnir ríkisreknir. Þetta er nefnt hér til sögu þar sem fjármálum stjórnmálaflokkanna hefur stundum skotið upp í umræðunni og hafa sumir, af sláandi vanefnum, reynt að gera sig heilagri en aðra í þeim efnum. En marggefnar yfirlýsingar þeirra um að upplýsa um þann þátt í eigin ranni hafa jafnan verið orðin tóm eða innihaldslaus í besta falli. Gefst mér síðar tækifæri til að fara yfir þann þátt. Ég hef orðað þá hugmynd að ákveðið yrði með lögum að fyrirtækjum væri bannað að styrkja stjórnmálaflokka. Þær hugmyndir hafa ekki fengið góðar undirtektir af einhverjum ástæðum. Við hljótum að vera opin fyrir því að ræða aðrar lausnir. Óþolandi er að pólitískir loddarar reyni að gera starfsemi stjórnmálaflokkanna tortryggilega aftur og aftur án þess að geta nefnt nokkur dæmi máli sínu til stuðnings. Þýðingarmest er að reglur um fjármál flokka séu skýrar og skiljanlegar. Úrræði um hvernig bregðast eigi við ef út af er brugðið verða einnig að vera markviss. Styrkhugtakið þarf að vera skýrt. Hvers konar fyrirgreiðslur við stjórnmálaflokka aðrar en bein fjárframlög teljast til styrkja? Það þarf að liggja fyrir. Meginatriðið hlýtur þó að vera að ganga til athugunar á þessum efnum af einurð og heiðarleika en ekki í pólitískum skollaleik eins og borið hefur á síðustu árin.

Góðir áheyrendur. Það segir mikla sögu að virtar fjármálastofnanir á Íslandi geti rætt efnahagsþróunina af myndarskap undir heitinu ,,Kreppan sem aldrei kom``. Ríkisstjórnin lá undir ámæli fyrir bjartsýni sína og fyrir að vilja ekki kokgleypa kreppuvellinginn sem soðinn var. Þjóðhagsspár sýna að bjartara er nú fram undan í efnahagsmálum en meira að segja hin bjartsýna ríkisstjórn þorði að vona. Við höfum áfram góð tækifæri til að vera í röð fremstu þjóða heims, bæði hvað tekjur og velferð varðar. Þau tækifæri erum við fastákveðin í að grípa til heilla fyrir land og þjóð. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.