Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 20:11:11 (11)

2002-10-02 20:11:11# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[20:11]

Össur Skarphéðinsson:

Góðir áheyrendur. Góðir Íslendingar. Í vor verðum við öll sem hér sitjum vegin á vogarskálum okkar eigin verka. Þegar ég horfi yfir þetta kjörtímabil sé ég tækifæri sem ekki voru nýtt. Ég sé ríkisstjórn sem skortir kraft og ferskleika. Ég sé ríkisstjórn sem megnar ekki að takast á við verkefni sín, hvort sem þau eru einkavæðing, úrbætur á heilbrigðiskerfinu eða tengsl Íslands og Evrópu. Ég sé líka möguleika. Ég sé tækifæri sem gætu fært okkur miklu meiri velsæld í framtíðinni. Ég sé möguleika á að jafna og bæta lífskjörin. Ég sé tækifæri til að sameina okkar litlu, góðu þjóð um hófstilltari og réttlátari stjórnarhætti. En til þess þarf framtíðarsýn. Og til þess þurfið þið líka, sem eruð að hlusta á mig í kvöld, að þora og vilja vinna með okkur.

Í vor gefst tækifæri til að breyta. Þá verður tekist á um grundvallaratriði þar sem skilur á milli stefnu Samfylkingarinnar annars vegar og hins vegar stefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að kosningarnar í vor muni aðallega snúast um fjögur atriði: um tengslin við Evrópu, um að þróa og bæta velferðarkerfið, um kvótakerfið og um fjárfestingu í menntun. Í öllum þessum málum er stefna Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins eins og svart og hvítt. Munurinn á Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum er líklega hvergi jafnaugljós og varðandi Evrópu. Tengslin við Evrópu snúast um lífskjör. Þau snúast um Evrópuvexti á lán og fjármagn og um Evrópuverð á matvælum. Matarverð er 69% hærra á Íslandi en í löndum Evrópusambandsins. Ég spyr: Er það ekki einnar messu virði að kanna a.m.k. hvort það sé ekki í þágu íslenskra hagsmuna að tengjast Evrópusambandinu? Sjálfstæðisflokkurinn segir nei. Hann vill ekki ræða málið. Við í Samfylkingunni segjum jú. Við viljum ræða það hispurslaust hvort það þjóni hagsmunum okkar Íslendinga að verða fullgildur hluti af Evrópusambandinu.

Ég taldi sjálfur upphaflega að við gætum ekki gengið í Evrópusambandið vegna þess að það mundi leiða til þess að við mundum tapa yfirráðum yfir auðlindinni í hafinu. Ég mundi aldrei leggja til að við gengjum í Evrópusambandið ef svo væri. En ég braut þetta mál til mergjar og komst að því að sú niðurstaða var röng. Um það voru og um það eru afgerandi vísbendingar. Ég gæti hins vegar haft rangt fyrir mér og andstæðingar ESB, Steingrímur Jóhann Sigfússon og Davíð Oddsson, gætu haft rétt fyrir sér. Það er bara ein leið til að ganga úr skugga um það. Sú leið er að skilgreina samningsmarkmið Íslendinga, sækja um aðild í fullri alvöru og leggja síðan niðurstöðuna undir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég spyr ykkur: Hvað er að því að þjóðin sjálf fái að ráða í svo mikilvægu máli?

Í velferðarmálum hefur Samfylkingin barist fyrir því að lífeyrir aldraðra og öryrkja hækki í takt við laun í landinu. Við viljum að ríkið geri samning við þessa hópa um sérstaka afkomutryggingu. Þetta er partur af þeim leiðum sem við leggjum fram til að afmá hina nýju fátækt sem er að verða hluti af arfleifð Sjálfstæðisflokksins.

Í tíð Sjálfstæðisflokksins hafa bætur ekki hækkað eins og laun og undir forustu Sjálfstæðisflokksins hefur skattheimta á aldraða og öryrkja aukist. Þeir sem lifa bara á bótum í dag þurfa nú árlega að greiða sem svarar mánaðarbótum í tekjuskatt. Þetta var ekki svona. Þetta þarf ekki að vera svona. Það er óhæfa að skattleggja þá sem eru fátækir.

[20:15]

Samfylkingin hefur viljað efla heilsugæsluna, stytta biðlistana og taka með festu á kostnaði við sérfræðilæknana sem hefur bólgnað út og tvöfaldast síðan 1997. Þannig er hægt að skapa svigrúm til að bæta stöðu Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Hvað er það sem Sjálfstfl. leggur til málanna í heilbrigðismálum? Hann leggur fyrst og fremst til eitt, eina hugmynd: Einkavæðingu. Við vitum öll hvað einkavæðing þýðir. Einkavæðing þýðir auknar álögur á sjúklinga og aukið fé í vasa sérfræðinganna. Munurinn á okkur í Samfylkingunni og Sjálfstfl. gæti ekki verið skýrari.

Hið sama gildir um kvótakerfið. Hvernig mundi þér, áhorfandi góður, líka ef bíllinn þinn eða íbúðin væri tekin og afhent öðrum sem mætti síðan leigja hana eða selja? Þannig er kvótakerfið. Það er þess vegna sem Samfylkingin hefur lagt fram ítarlegar tillögur sem gera ráð fyrir því að þjóðin fái aflaheimildirnar aftur í sínar hendur á 10 árum. Við gerum það með svokallaðri fyrningarleið. Samkvæmt okkar tillögum hefðu allir sömu möguleika til þess að leigja kvóta gegn gjaldi sem yrði miklu lægra en gangverð á kvóta í dag. Tillögur Samfylkingarinnar eyða forréttindum hinna fáu og opna réttlátan aðgang fyrir hagkvæma útgerð. Þær tryggja að aflanum verði landað á stöðum sem standa og falla með fiskvinnslu og draga verulega úr brottkasti.

Hverjir eru það sem standa gegn þessum breytingum? Það er Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn stendur dyggan vörð um óbreytt kerfi, um sérhagsmuni hinna útvöldu sem hafa fengið verðmætustu eign þjóðarinnar í sínar hendur, réttinn til þess að veiða á Íslandsmiðum. Þeir mega selja hann og leigja hann fyrir milljarða, og það hafa þeir svikalaust gert. Þetta er óhæfa. Það er einn flokkur, Samfylkingin, sem hefur lagt fram mótaðar tillögur um hvernig best er að snúa hana niður.

Góðir Íslendingar. Sjálfstfl. hefur nú farið með völd í menntmrn. síðan 1991. Hann hefur bráðum haft 12 ár til að breyta menntakerfi Íslendinga þannig að það svari kalli nýrra atvinnuhátta. En í lok valdatíma Sjálfstæðisflokksins blasir við að íslensk ungmenni standa jafnöldrum sínum að baki í lykilgreinum. Í alþjóðlegri rannsókn voru nemendur í áttunda bekk í 20. sæti af 25 þjóðum í náttúrufræðum og í 21. sæti í stærðfræði. Brottfall á framhaldsskólastiginu er með því mesta sem þekkist. Það segir allt um forgangsröðina hjá Sjálfstæðisflokknum að landbúnaður hér á landi fær meira fjármagn frá hinu opinbera, beint eða óbeint, en það sem allir framhaldsskólar landsins, auk Háskóla Íslands, fá samanlagt. Það er ekki leiðin til að gera íslenskt vinnuafl samkeppnishæft. Þetta er ekki leiðin til þess að mæta kröfum nýrra atvinnuhátta.

Samfylkingin vill þess vegna stórauka fjárfestingar í menntakerfinu enda munu þær skila sér fljótt í auknum þjóðarauði. Við höfum róttækar hugmyndir, m.a. um að stytta leiðina gegnum framhaldsskólann og lækka skólaskyldualdur. En nýir atvinnuhættir krefjast þess líka að þeir tugir þúsunda Íslendinga sem hafa aðeins lokið grunnnámi fái notið endurmenntunar. Þeir verðskulda annað tækifæri og Samfylkingin ætlar að gefa þeim annað tækifæri. Fólkið er okkar dýrmætasta auðlind og stóraukin fjárfesting í menntun er fjárfesting í framtíðinni.

Góðir Íslendingar. Þegar ég hlustaði á forsætisráðherrann okkar tala um efnahagsmálin kom mér í hug saga af manni sem fór í fjallgöngu. Hann lenti í ógöngum og það þurfti að senda lið honum til bjargar. Þegar hann kom niður var hann bara býsna brattur og sagði: Þetta gekk allt saman vel, ég komst lifandi niður. Forsætisráðherrann fór í ferðalag og hann gleymdi að taka kompás og kort með sér. Undir hans stjórn fór þenslan úr böndum, viðskiptahallinn rauk upp úr öllu valdi, að hluta til vegna hans mistaka, m.a. þegar byrjað var að einkavæða bankana. Afleiðingin varð sú að gengið húrraði niður, um þriðjung þegar mest var. Í kjölfarið rauk verðbólgan upp og vextir ruku upp. Þetta kostaði gríðarlegar fjárhæðir fyrir skuldsetta einstaklinga, ekki síst barnafólk sem tók lán til þess að fjármagna húsnæðiskaup sín. Þetta kostaði mikið fyrir smáfyrirtækin, fyrir sprotafyrirtæki unga fólksins og fyrir fyrirtækin á landsbyggðinni.

Hverjir voru það svo sem lögðu á brattann til að bjarga þjóðinni úr sjálfheldunni sem blessaður formaður Sjálfstæðisflokksins hafði komið okkur öllum í? Sú björgunarsveit hefur nafn. Hún heitir Alþýðusamband Íslands. En maðurinn sem talaði um kurteisi í ræðu sinni áðan sagði ekki einu sinni takk fyrir. Það var verkalýðshreyfingin sem knúði ríkisstjórnina til að taka aftur eigin verðhækkanir og skipulagði niðurfærslu verðlags í samvinnu við samtök atvinnurekenda. Það var verkalýðshreyfingin sem bjargaði einfaldlega efnahagsmálunum þegar í óefni var komið.

Staðreyndin er þessi: Rangar ákvarðanir leiddu til ofþenslu sem skapaði viðskiptahalla við útlönd, sem kolfelldi gengið. Það leiddi til verðbólguskots, mikillar vaxtahækkunar og skildi eftir hagkerfi þar sem hagvöxtur er núll í ár og verður slakur á næsta ári. Svo kemur forsætisráðherrann og segir: Þetta gekk allt saman vel því ég komst lifandi niður. Jú, við komumst lifandi niður úr háskaför forsætisráðherra en það var ekki honum að þakka heldur verkalýðshreyfingunni.

Góðir Íslendingar. Tækifæri til nýsköpunar og framfara eru mörg í okkar ágæta þjóðfélagi, tækifæri í alþjóðlegri samvinnu sem getur fært okkur mikinn ávinning, tækifæri í vel menntuðu vinnuafli sem mætir kröfum nýrra atvinnuhátta, tækifæri til að bæta velferðarkerfið í þágu þeirra sem lágu eftir í góðæri Davíðs Oddssonar, tækifæri til að taka á í byggðamálum og var nú oft þörf á því, tækifæri til að afnema ranglátt kvótakerfi.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki nýtt þessi tækifæri. Hún er þreytt. Hún er kraftlaus. Hún er hugmyndasnauð. Hún hefur lifað sjálfa sig og situr í dag til þess eins að sitja. Við finnum það öll á okkar eigin skinni að það þarf að breyta til. Við finnum það öll á okkar eigin skinni að það þarf að skipta um ríkisstjórn.

Ég hef hér reifað málefni Samfylkingarinnar. Stjórnmálamenn á að dæma af hugmyndum þeirra og verkum. Framtíðarsýn okkar er hófstillt en hún er hiklaus. Með hana í veganesti göngum við inn í þennan vetur og hana leggjum við óhrædd í dóm þjóðarinnar. --- Góðar stundir.