Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 20:33:51 (13)

2002-10-02 20:33:51# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, SJS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[20:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég held að það hljóti að hafa verið sett bráðabirgðalög um breytingu á siglingalögum ef þar er svo komið að það geti verið tveir skipstjórar samtímis í brúnni á sömu skútunni.

Vorið er komið og grundirnar gróa, mætti segja, þ.e. það eru að koma kosningar. Og sólskinið er svo sterkt að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson verður að bera hönd fyrir sólu þrátt fyrir dökku gleraugun. Fjárlagafrv. í sólskinskápunni er svo rjúkandi heitt af góðæri í höndunum á fjmrh. Geir H. Haarde að það liggur við brunasárum. Kannast nokkur við þetta? Man einhver eftir þessu áður? Jú, þetta eru fastir liðir eins og venjulega. Það á nefnilega að fara að kjósa og Davíð Oddsson setur ævinlega upp sólgleraugun haustið fyrir kosningavetur, 1994, 1998 og nú 2002 og væntanlega í síðasta sinn.

Eigum við að kíkja aðeins í ræðurnar frá 1994 og frá 1998?

1994: ,,... raunveruleikinn tekur spánni og áætluninni langt fram og er mun hagstæðari búskap þjóðarinnar.

... hefur framvindan á þessu ári orðið mun jákvæðari á öllum sviðum en búist var við ... Þetta eru mjög mikil umskipti til hins betra.`` Anno 1994.

1998: ,,Erfitt er að finna mörg önnur kjörtímabil í sögu lýðveldisins þar sem jafnmiklum árangri hefur verið náð og hagur borgaranna hefur breyst jafnmikið til batnaðar og á þessu. ... Slíkur árangur var óþekktur á Íslandi. ... hagur atvinnuveganna góður ... Góð afkoma þjóðarbúsins skilar sér þannig bæði til heimila og fyrirtækja.``

Og nú heyrðum við lesturinn áðan.

Nú er það að vísu svo sem betur fer að útlitið er að mörgu leyti betra en það var fyrir um ári til einu og hálfu ári síðan þegar óstöðugleiki einkenndi allt umhverfið og sá óstöðugleiki vel að merkja, hæstv. forsrh., var staðreynd. Hann var ekki ímyndun stjórnarandstöðunnar þó að að mörgu leyti hafi ræst vel úr. Það er svo önnur saga. Það má þakka m.a. og ekki síst hagstæðum ytri skilyrðum, hækkandi verði á sjávarafurðum og því að Seðlabankinn hefur staðið fast í lappirnar og hvorki látið undan þrýstingi hagsmunaaðila né ríkisstjórnarinnar. Og gerist það nú sem ekki gerist oft að þeirri stofnun er hælt í þessum sal. Stjórntækin voru til staðar, sjálfstætt gengi, vaxtastýring, efnahags- og peningamálaaðgerðir, og virkuðu býsna vel. Það væri svo fróðlegt að heyra áköfustu talsmenn aðildar að Evrópusambandinu útskýra fyrir okkur hvernig hefði farið ef svo hefði ekki verið. Hvert væri atvinnuleysið á Íslandi þá?

En það skiptir ekki bara máli hvernig ástandið er á haustin á fjögurra ára fresti. Bak við glansmyndina nú leynist margvíslegur veruleiki. Margir hafa fært fórnir. Tekjunum er misskipt og því miður fer aðstöðu- og launamunur vaxandi í íslensku samfélagi. Skuldir heimilanna á Íslandi eru gríðarlegar, sennilega heimsmet, hæsta hlutfall sem þekkist á byggðu bóli af ráðstöfunartekjum, 170--180%.

Íslenskt atvinnulíf er mjög skuldsett. Íslensk sveitarfélög eru mjög skuldsett. Íslenskt þjóðarbú er mjög skuldsett og þær skuldir hafa ekki lækkað að raungildi í erlendri mynt þótt það henti núna fjármálaráðuneytinu í áróðursþjóðhagsáætlun sinni að nota viðmiðunina í íslenskum krónum við innlenda mælikvarða af því að það kemur betur út. Það ríkir ófremdarástand í heilbrigðismálum. Í húsnæðismálum ríkir lögmál frumskógarins, a.m.k. hér á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu. En þyngst vegur þó að skattbyrði láglaunafólks vegna rýrnandi skattleysismarka hneppir þúsundir og aftur þúsundir einstaklinga og fjölskyldna í fátæktargildru.

Fjárlagafrumvarpið er slétt og fellt á yfirborðinu. En þegar farið er undir yfirborðið kemur þar margt athyglisvert í ljós. Þannig er tekjuskattur almennra launamanna að hækka um 20 milljarða kr. á þremur árum á sama tíma og tekjuskattur gróðafyrirtækjanna lækkar um 4,4. Það er einn hópur í landinu sem á að fá sérstaka skattalækkun núna um áramótin. Eru það öryrkjar og aldraðir, láglaunafólk? Eru það atvinnulausir? Nei, það er hátekjufólkið í landinu. Skatturinn þess á að lækka sérstaklega, aukalega, um tvö prósentustig og var þó tekjuviðmiðunin hækkuð áður, enda á hátekjuskatturinn að skila 300 millj. kr. minna á næsta ári. Þar fann ríkisstjórnin breiðu bökin eða hitt þó heldur.

Nei, herra forseti, sólskinið í þessu frv. skín ekki á aldraða og öryrkja, ekki á láglaunafólk, ekki á velferðarþjónustuna. Það skín á hátekjufólk. Það skín á eignafólk sem fær helmingslækkun eignarskatta. Það skín á gróðafyrirtækin sem eru verðlaunuð með um það bil lægstu, ef ekki lægstu tekjuskattsprósentu í Evrópu og það skín á ríkislögreglustjórann sem fær venjubundna hækkun og Almannavarnir ríkisins í eftirrétt.

Íhaldinu, nýfrjálshyggjuöflunum, hefur orðið vel ágengt og þeim er að takast að breyta þessu samfélagi. Það var um það sem Guðni Ágústsson fjallaði þegar hann brá sér norður yfir Holtavörðuheiði og alla leið heim að Hólum eins og okkur Norðlendingum er tamt að segja. Í Hólaræðu var Guðni kominn í bullandi stjórnarandstöðu. Hann var algerlega á móti þeim breytingum á samfélaginu sem hann og hans ríkisstjórn standa fyrir, einkavæðingunni, nýfrjálshyggjunni og öllu því. Norðan Holtavörðuheiðar tala framsóknarmenn um auðsöfnun fárra, um fákeppni. En hér syðra sitja þeir í kóngulóarvefnum miðjum og möndla með eignir almennings og hagræða þeim til í þágu eigin valdablokka í viðskiptalífinu. Helmingaskipti voru það, t.d. í hermanginu, helmingaskipti eru það og helmingaskipti skulu það heita þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur leysa hlutina sín í millum í hverjum hrossakaupunum á fætur öðrum.

Einkavæðingin er orðin að einu allsherjarhneyksli og það er lágmarkskrafa að einkavæðingarnefnd verði nú leyst frá störfum eins og við flytjum tillögu um og öll frekari einkavæðing stöðvuð þar til rannsókn Ríkisendurskoðunar lýkur. Gegn þessari stefnu teflum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði kröfu okkar um velferðarstjórn. Myndun velferðarstjórnar að loknum næstu kosningum verður meginbaráttumál okkar í vetur og um það munum við safna liði. Verkefni þessarar velferðarstjórnar verður stórátak til endurreisnar velferðarkerfinu í landinu. Það stórsér á velferðarkerfinu eftir 11 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins, fyrst með krötum, Össuri Skarphéðinssyni og félögum sem hófu breytingarnar í heilbrigðismálum sem þjóðin er að súpa seyðið af og síðan með Framsóknarflokknum. Umskiptin gengu svo smurt að það tók varla nokkur maður eftir þeim.

Herra forseti. Hækkun elli- og örorkulífeyris, aðgerðir í skattamálum þar sem röðin er nú loksins komin að láglaunafólki, átak í heilbrigðismálum, átak til að jafna lífskjör og aðstæður fólks eftir búsetu, átak í geðheilbrigðismálum sem ekki gleymist, velferð barna og unglinga í öndvegi, m.a. með því að gera styttingu vinnuvikunnar og mannsæmandi dagvinnulaun að forgangsmáli í verkalýðsbaráttu, þetta og margt, margt fleira þarf að hefjast handa um. Verkefni velferðarstjórnarinnar verða ærin eftir 12 ára frostavetur íhaldsins með krötum og Framsókn.

Annað baráttumál okkar verður fjölbreytni í atvinnulífi í stað þeirrar einhæfu blindu stóriðjustefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur rekið. Framsóknarflokkurinn virðist einhvers staðar á vegferð sinni hafa fengið þá flugu í höfuðið að hefja þunga iðnaðarvæðingu Íslands 50--150 árum á eftir tímanum, ákveða miðstýrt í hvers konar verksmiðjum fólk skuli vinna í einstökum byggðarlögum. Hér skal vera opið hús fyrir erlenda auðhringa og á veisluborðinu náttúra landsins ókeypis.

Það er ekki hægt, herra forseti, að minnast ekki fáeinum orðum á þá umræðu sem uppi er um Evrópumál. Þar ber einnig fyrir í leiðangri miklum utanrrh. sjálfur, Halldór Ásgrímsson. Ráðherra hefur uppi ótrúlega tilburði til að túlka hluti þannig að jafnvel hin sameiginlega sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins kunni að vera þolanleg fyrir okkur og nefnir Möltu og fleiri umsóknarríki í því sambandi. Nú vill svo til að ég er með samning Póllands í höndunum. Hvað felur hann í sér í sjávarútvegsmálum fyrir Pólland? Uppgjöf og aftur uppgjöf. Pólland fær ekki neitt, núll, og fellur að lokum frá kröfu sinni um fimm ára aðlögunartíma. (Utanrrh.: Eru þeir mikið með ...?) Á Möltu er sjávarútvegssamningurinn svo góður, hæstv. utanrrh., að sjávarútvegurinn á Möltu leggst gegn honum, t.d. sjómannasamtökin, og gefur ekkert fyrir túlkun Halldórs Ásgrímssonar á því hvað sjávarútvegssamningurinn sé góður fyrir Möltu.

Herra forseti. Einna undarlegast er þó að sjá Alþýðusamband Íslands fara fyrir í einhliða áróðri um þessi mál, þar sem sami Halldór Ásgrímsson og sendiherra Evrópusambandsins eru í broddi fylkingar.

Herra forseti. Þá verður maður að minnast nokkrum orðum á alþjóðamál og þá dapurlegu og dimmu daga sem þar ganga yfir. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mótmælir og fordæmir stríðsæsingastefnu Bush og Bandaríkjastjórnar. Sérstaklega mótmælum við vísvitandi tilraunum til að bregða fæti fyrir tilraunir aðalritara Sameinuðu þjóðanna til að finna friðsamlega lausn á deilumálum. Sameinuðu þjóðunum er nú stillt upp við vegg af Bandaríkjastjórn og sagt að þær muni hafa verra af, og öll heimsbyggðin ef hún lýtur ekki valdi Bandaríkjamanna. Því verður ekki trúað, herra forseti, fyrr en að fullreyndu að ríkisstjórn Íslands ætli að hlaupa til stuðnings þessari stefnu þó óneitanlega væri erfitt að skilja yfirlýsingar hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar á dögunum öðruvísi en þannig að hann hygðist feta götuna býsna þétt á eftir þeim Bush og Blair.

Þá var það einnig sérkennilegt að utanrrh. Íslands skyldi af öllum slíkum einna fyrstur manna lýsa yfir stuðningi við að stofna sérstakan NATO-her. Og ég sem hélt að hér í þessum sal væri aðeins einn maður sem vildi stofna her, alþingismaður og borgarfulltrúi Björn Bjarnason.

Góðir áheyrendur. Ísland er gott land og sú þjóð sem hefur fengið það til búsetu, nytja og varðveislu er gæfusöm. En hún ber líka mikla ábyrgð.

Ég sagði í byrjun að markmið okkar að loknum kosningum væri velferðarstjórn. Við berjumst fyrir gerbreyttri stjórnarstefnu. Ég skora á allt róttækt fólk og umhverfisverndarsinnað fólk að koma til liðs við okkur í vetur og koma að starfi og byggja upp okkar hreyfingu til þeirra átaka. Við þorum að vera við sjálf, eins og landbrh. réttilega benti á hér áðan. Við þorum t.d. að berjast á móti því sem við erum á móti og um leið þorum við að berjast ódeig fyrir því samfélagi sem við viljum, samfélagi samhjálpar, samfélagi samábyrgðar, fyrir umhverfisvernd og virðingu fyrir náttúrunni, fyrir fjölbreytni í atvinnulífi, fyrir sjálfstæðu fjölmenningarlegu og umburðarlyndu samfélagi í hópi þjóðanna þar sem við reynum áfram að vera okkar eigin gæfu smiðir hér eftir sem hingað til, enda hefur það reynst okkur vel.

Ég óska landsmönnum og okkur öllum uppbyggilegrar stjórnmálabaráttu í vetur. --- Lifið heil.