Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 21:26:29 (19)

2002-10-02 21:26:29# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, GAK
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[21:26]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í stefnuræðu forsætisráðherra var vandlega þagað um fiskveiðistjórn og kvótabrask. Sáttahempan sem forustumenn ríkisstjórnarflokkanna létu hraðsauma á stjórnarþingmenn fyrir alþingiskosningar vorið 1999 er nú brennd eða grafin. Sennilega verður að sérsauma eftirlíkingu þessa falsklæðis til varðveislu á Byggðasafninu á Hnjóti og í Ósvör, enda sáttin hluti af atvinnusögunni.

En kannski vill svo heppilega til að formaður sjávarútvegsnefndar hafi ákveðið að varðveita eintak af sáttahempunni miklu í sinni sérstöku kistu notaðra loforða. Forsætisráðherra gat þess að óhætt væri fyrir suma að fara úr stígvélunum. Stjórnarliðum er að minni hyggju óhætt að fara úr klofstígvélunum enda felur sáttahempan ekki lengur illan kvótaþefinn.

Í kosningabaráttunni vorið 1999 lagði Frjálslyndi flokkurinn höfuðáherslu á að tekið yrði á fiskveiðistjórnarkerfinu, kvótakerfi sem hefur innbyggt frjálsa sölu á aflahlutdeild, þ.e. óveiddum fiski í sjónum og veiðiréttinum, aflamarkinu, sem hægt er að leigja burt innan ársins, fyrir hærra verð en fæst í beinni sölu fiskaflans til vinnslu innan lands. Við þingmenn Frjálslynda flokksins teljum að hagsmunir sjávarbyggðanna allt í kringum land og fólksins sem hefur atvinnu af fiskveiðum og fiskvinnslu séu í stórhættu verði ekki tekist sem fyrst á við þau miklu vandamál sem kvótasalan úr sjávarbyggðunum hefur leitt af sér. Salan á atvinnuréttindum fólksins mun að öllu óbreyttu halda áfram að búa til nýtt og endurtekið upplausnarástand, nú síðast í Sandgerði. Hvaða staður verður næstur?

Sjávarútvegsráðherra hefur framfylgt kvótabraskskerfinu afar vandlega öll þau þrjú ár sem liðin eru af þessu kjörtímabili. Vilji stóreignasægreifanna í LÍÚ hefur allri för hans ráðið. Og undir hafa gengið fylgispakir flokksmenn hans í sjávarútvegsnefnd sem tekið hafa sér nýja trú og það sem þeir hafa orðað ,,að taka beri mið af hinum nýja veruleika``. Sá nýi veruleiki var það verk stjórnarliða að koma kvótabraskskerfinu yfir smábátana og takmarka veiðifrelsi á ýsu og steinbít, frjálsa sjósóknarréttinum sem var fólkinu og byggðunum svo mikils virði.

Árangur þessa óhæfuverks er sá að afli krókabátanna af ýsu var aðeins 5.800 tonn á nýliðnu fiskveiðiári en ekki 10.300 tonn eins og árið áður og minnkaði aflinn um 4.500 tonn á sama tíma og heildarkvótinn af ýsu var hækkaður um 11.000 tonn milli ára. Steinbítsafli krókabáta minnkaði úr 9.800 tonnum í 5.600 tonn eða um 4.200 tonn á síðasta fiskveiðiári. Var það þetta, þessi minni afli og minni atvinna fyrir fólkið í sjávarbyggðunum sem forsætisráðherra vildi að sjávarútvegsráðherrann sem þjónað hefur LÍÚ fengi þingmenn sína til að meðtaka sem hinn ,,nýja veruleika``, eins og formaður sjávarútvegsnefndar orðaði það svo nett þegar hann gafst upp við að verja hagsmuni minni sjávarbyggða og samþykkti kvótabraskskerfi þeim til handa?

[21:30]

Forsrh. sagði í stefnuræðu 8. júní 1999, með leyfi forseta:

,,Við endurskoðun á ramma sjávarútvegsins ætla menn sér að skoða ítarlega öll þau gagnrýnisatriði sem sett hafa verið fram á undanförnum árum og meta hversu raunhæf þau eru, hversu sanngjörn þau kunna að vera og bregðast við með skynsamlegum hætti.``

Er þessi gjörð, sem þrengir kost hinna minni byggða, það sem sanngjarnt og raunhæft var til þess hversu við mætti bregðast? Ef svo er var að mínu mati betra fyrir atvinnuöryggi fólksins að njóta ekki neinnar sanngirni eða sátta frá ríkisstjórninni. Hún þarf að fara frá á komandi vori.

Ég hef oft tekið mér stór orð í munn um kvótakerfið og fundið því margt til foráttu. Mér finnst líka að þegar sjútvrh. hefur tekið margar fisktegundir undir kvótasetningu á hvert skip þá séu það algjör embættisafglöp af hans hálfu.

Ég óttast hins vegar að sumar gjörðir hans séu til komnar vegna þess að hann hafi látið undan þrýstingi manna sem sáu einkahag sínum betur borgið með því að fá kvótasetningu sem fyrst, t.d. í fisktegundum eins og keilu, löngu, skötusel og kolmunna, heldur en ef það hefði ekki verið gert.

Þjóðin verður að skilja að kvótaúthlutun til útgerðarmanna í hverri fisktegundinni á fætur annarri myndar einkarétt þeirra til sölu á óveiddum fiski í sjónum. Venjulega er það kallað varanleg sala á aflahlutdeild, nú krókaaflahlutdeild smábátanna, eða einkaréttur þeirra til leigu á óveiddum fiski í sjónum innan ársins á aflamarki, nú krókaaflamarki smábáta, og jafnframt veðsetning lifandi fisks í sjó sem þó á að vera þjóðareign. Þessi einkaréttur er jafngildi þess að með stjórnarathöfnum sé verið að bera fé á menn.

Þannig má fá þá sem hagnast til fylgis við flokkinn sem með völdin fer eða þá þingmenn sem sitja að fiskkötlunum og ákveða úthlutunarreglurnar.

Markmið okkar var að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Þau orð eru skráð í lög en árangur er enginn. Uppbygging fiskstofnanna var annað meginmarkmið. Árangur er enn þá vægast sagt lítill.

Þrátt fyrir það yrði ég ekki hissa þó að aflaheimildir í þorski, ýsu, ufsa og skarkola yrðu auknar á komandi vetri fyrir kosningar eða í það minnsta sagt að nú horfi vel í þeim efnum og allt stefni í verulega aukningu innan skamms. Það má lengi enn fara á skjön við jafnræðis- og meðalhófsreglur með handvöldum úthlutunum til þeirra sem launa kunna.

Góðir áheyrendur. Vituð þér enn, eða hvat -- hvort atkvæðin eru föl? --- Góðar stundir.