Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 21:33:09 (20)

2002-10-02 21:33:09# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[21:33]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Til að treysta byggðir landsins er eitt af þýðingarmestu verkefnunum að byggja upp gott samgöngukerfi. Í okkar stóra landi er það mikið og fjárfrekt verkefni. Aldrei hefur verið lagt eins mikið í vegamál og nú enda þörfin mikil. Íslendingar hafa þörf fyrir vaxandi samskipti með fljótum og öruggum hætti. Ferðaþjónustan sem hvað mestur vöxtur er í af öllum atvinnugreinum byggist á góðum samgöngum. Allir okkar atvinnuvegir kalla á það að hægt sé að lækka flutningskostnað með betri vegum og styttingu vegalengda. Þjóð sem byggir á því að sjávarútvegur vítt og breitt um landið geti starfað með sem hagkvæmustum hætti kallar á öra flutninga.

Allt ber þetta að sama brunni. Það er enda svo að við þessari þörf hefur verið brugðist með auknum fjárframlögum. Ríflega 20% aukning er til nýframkvæmda í vegagerð á næsta ári þar sem 1,2 milljarðar koma til fjármögnunar jarðganga af söluhagnaði eigna. Vegagerðin hefur valið fimm verktakahópa til þess að taka þátt í útboði á jarðgöngum milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar annars vegar og Siglufjarðar og Ólafsfjarðar hins vegar. Útboð mun fara fram fyrir árslok. Unnið er samkvæmt jarðgangaáætlun sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Jarðagangaframkvæmdir kalla á mikinn undirbúning og rannsóknir áður en hægt er að hefjast handa. Það er því jafnframt gert ráð fyrir því að rannsóknir fari jafnhliða fram á næstu jarðgangakostum. Þar hefur helst verið horft til Vestfjarða og Austfjarða.

Aukin bjartsýni um að virkjunarframkvæmdir hefjist á næsta sumri hefur þegar haft jákvæð áhrif á atvinnulíf á Norður- og Austurlandi. Fyrirtæki á Austurlandi hafa um nokkurt skeið verið að setja það niður fyrir sér hvernig þau gætu haft sem bestan hag af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru. Norðlendingar og reyndar fyrirtæki víðar á landinu eru nú sem óðast að kynna sér aðstæður á Austurlandi með það í huga að taka þátt í framkvæmdum enda má segja að af nógu sé að taka. Fjárfestingin er u.þ.b. tíu Smáralindir.

Þær undirbúningsframkvæmdir sem nú eru hafnar á Austurlandi hafa þegar haft jákvæð áhrif á atvinnulífið. Álverið er mikil þjóðþrifaframkvæmd. Það kallar á 900 starfsmenn og 400 afleidd störf á Austurlandi og 500 störf annars staðar. Útflutningur mun aukast um 30 milljarða. Ál er vistvænn málmur og virkjun vatnsafls er vistvæn aðferð við framleiðslu raforku.

Það er krafa tímans að fjölbreytni í atvinnulífi sé sem mest. Það er því viðvarandi verkefni að hlúa að landbúnaði og sjávarútvegi sem hinum hefðbundnu atvinnugreinum en jafnframt líta til með öðrum atvinnugreinum og nýsköpunarverkefnum.

Miklar væntingar eru um aukna nýtingu á jarðhita á Norðurlandi og gefur Þeistareykjasvæðið góðar vonir. Erlend fyrirtæki hafa nú þegar sýnt svæðinu mikinn áhuga. Jarðhitinn er mikil auðlind til húshitunar og er hægt að óska Eskfirðingum til hamingju með nýfundinn jarðhita. En jarðhitinn er einnig mikilvægur til þess að sinna þörfum ferðaþjónustunnar.

Ferðaþjónusta hefur vaxið hratt á undanförnum árum og spár Ferðamálaráðs um eðlisbreytingu á því hvernig ferðamenn kynna sér landið eru að koma fram. Sú breyting verður til þess að þjónustan dreifist víðar um landið og fleiri tækifæri í menningar- og heilsutengdri ferðaþjónustu verða til. Til að styrkja ferðaþjónustu enn frekar birtist stefna ríkisstjórnarinnar í því að fjármagn er veitt til stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs og mun það enn og aftur sýna stefnu ríkisstjórnarinnar til verndunar landsins.

Víða um land er unnið ómetanlegt starf við björgun menningarverðmæta og vöxtur í menningarstarfsemi sem atvinnugrein hefur verið mikill. Allt stuðlar þetta að bættum búsetuskilyrðum og styrkir ferðaþjónustu sem atvinnugrein. Miklar vonir eru nú bundnar við fiskeldi af ýmsum toga sem kalla mun á mörg störf. Skógrækt og landgræðsla hefur orðið til þess að styrkja búsetu í sveitum þegar draga hefur þurft úr framleiðslu á landbúnaðarvörum. Verkefnin eru enda ærin eins og landsmenn þekkja.

Góðir áheyrendur. Fás er fróðum vant, segir í Hávamálum. Það má segja að landsmenn hafi haft þau orð að leiðarljósi því slík er ásóknin í nám af ýmsum toga, og ekki síst fjarnám. Á næstliðnum árum hefur verið unnið markvisst að framboði á fjarkennslu bæði á sviði framhaldsmenntunar og háskólamenntunar. Sí- og endurmenntun hefur einnig verið sinnt eftir þeirri leið hvort sem búsetan er í þéttbýli eða dreifbýli. Upplýsingadreifiveitur verða að vera þær bestu hverju sinni og hinar dreifðu byggðir hafa fullan aðgang eins og tæknin leyfir.

Góðir áheyrendur. Á komandi vetri munu stjórnmálaflokkarnir skýra stefnu sína í þeim stjórnmálaátökum sem fram undan eru. Sjálfstfl. mun hér eftir sem hingað til ganga fram af ábyrgð og þeirri festu sem landsmenn geta treyst. --- Góðar stundir.