Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 02. október 2002, kl. 21:44:23 (22)

2002-10-02 21:44:23# 128. lþ. 2.1 fundur 129#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 128. lþ.

[21:44]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ráðstefnu um lýðræði í skólastarfi, sem haldin var hér á dögunum, var fylgt úr hlaði með kynningu norrænu ráðherranefndarinnar. Þar sagði m.a. að norrænn skilningur á lýðræði lyti ekki aðeins að stjórnskipun eða frelsi og réttindum einstaklinga heldur einnig að lífsháttum þar sem samskipti manna grundvallast á gagnkvæmri virðingu og jafnrétti og skoðanaskipti eru í hávegum höfð. Ekki sé nægilegt að taka fram að við búum við lýðræði heldur verðum við að tjá jákvæða afstöðu okkar til þess og standa vörð um gildi lýðræðisins. Lýðræðið krefst opinna og heiðarlegra skoðanaskipta og lýðræðið krefst þess jafnframt að þeir sem eru í fararbroddi þjóðfélagsumræðu hvers tíma tali af fullri ábyrgð og forðist hvers kyns upphrópanir, einfaldanir og fyrir fram gefnar niðurstöður.

[21:45]

Kjósendur eiga annað og betra skilið en að við stjórnmálamenn hrópum misvísandi slagorð og ruglum með heiti og hugtök, eins og við þekkjum dæmi af, í umræðum og átökum um tvær meginstoðir velferðarkerfisins, menntakerfið og heilbrigðisþjónustuna. Einkavæðing er eitt slíkt hugtak sem þátttakendur í umræðunni um heilbrigðismál hafa ýmist lýst sig mjög andstæða eða fylgjandi, og einkarekstur er annað hugtak. Hvort tveggja er heiti yfir rekstrarform sem segir í raun ekkert um aðgang að heilbrigðisþjónustunni. Fylgismenn einkavæðingar sem í raun tala jafnframt fyrir tveimur kerfum, hinna efnuðu og hinna fátækari, rökstyðja gjarnan ágæti hennar með því að hún auki skilvirkni og hagkvæmni með því að þeir sem efni hafi á geti notað peninga sína til að kaupa sér aðgerðir, geti keypt sig fram fyrir aðra í biðröðinni, og dragi þar með úr álaginu á opinbera kerfið og bæti þjónustuna þar. Slíkar hugmyndir flokkast vitaskuld ekki undir neitt annað en einkavæðingu. Eða hvað? Í leiðara Morgunblaðsins 12. september sl. er minnt á að blaðið hafi oft bent á ágæti þessa fyrirkomulags en þar kallast það einkarekstur.

Við framsóknarmenn höfum mjög eindregna afstöðu til einkavæðingar heilbrigðiskerfisins. Við erum mótfallin henni og þar er um grundvallarafstöðu okkar að ræða. Við erum mótfallin því að lögmál markaðarins um framboð og eftirspurn ráði öll um verð og gæði heilbrigðisþjónustu og að fólki sé mismunað eftir efnahag og félagslegri stöðu. Við munum áfram sem hingað til standa vörð um samtrygginguna sem eina af meginstoðum velferðarkerfisins og að allir eigi jafnan aðgang og þjónustan sé greidd úr sameiginlegum sjóðum. Því geta landsmenn treyst.

Á hinn bóginn skýlum við okkur ekki á bak við pólitískan rétttrúnað gagnvart ólíkum og mismunandi rekstrarformum hafi verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að önnur form en ríkisrekstur séu hagkvæmari og dragi ekki úr gæðunum. Slíkt væri enda fjarstæða þar sem myndarlegur hluti íslenskrar heilbrigðisþjónustu hefur jú um árabil verið inntur af hendi einkaaðila og félagasamtaka á grundvelli samninga um kaup ríkisins á skilgreindri þjónustu eða verkum og hefur gefið mjög góða raun.

Viðfangsefni íslenskrar heilbrigðisþjónustu er í engu frábrugðin þeim viðfangsefnum sem nágrannaþjóðir okkar standa frammi fyrir. Þessi viðfangsefni á auðvitað ekki að skilgreina sem vandamál heldur þvert á móti sem vegsemd hennar. Hærri lífaldur og fjölgun aldraðra, svo og framfarir í þekkingu og tækni, eru vegsemd sem við getum auðvitað stært okkur af en vegna þessa eykst hins vegar kostnaðurinn. Við verðum því að horfast í augu við tvennt, annars vegar að heilbrigðisþjónustan mun sífellt kalla á aukin fjárútlát og hins vegar að ekki eru til neinar algildar eða endanlegar lausnir í heilbrigðismálum. Þess vegna er það í raun ekki nema eðlilegt að heilbrigðismál beri hátt í opinberri umræðu hér á landi eins og annars staðar.

Mér finnst þó umræðan hafi verið í meira lagi óvægin síðustu vikurnar og mér finnst lítið hafa borið á því að menn hafi minnst margra góðra verka sem unnin hafa verið frá því að framsóknarmenn tóku við heilbrrn. en tækifærin verða næg á næstu vikum og mánuðum til að rifja þau upp.

Með lagabreytingu sem tók gildi um síðustu áramót var hæstv. heilbrrh. gert betur kleift að stuðla að aukinni hagkvæmni og að tryggja gæði heilbrigðisþjónustunnar, marka stefnu um forgangsröðun verkefna í heilbrigðisþjónustu og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja stefnunni.

Í frv. til fjárlaga næsta árs er að finna helstu áherslur hæstv. heilbrrh. um eflingu heilsugæslunnar, einkum á höfuðborgarsvæðinu, um uppbyggingu öldrunarþjónustunnar, m.a. fjölgun hjúkrunarrýma, og um leiðréttingu á rekstrargrunni stóru sjúkrahúsanna.

Ábyrgð ráðherra heilbrigðismála og heimildir eru nú ótvíræðar en duga ekki til nema þingmenn sýni samábyrgð og samstöðu um að tryggja á fjárlögum það aukna fé sem þarf til að ná þeim markmiðum sem hið háa Alþingi hefur þegar sett sér um heilbrigðisþjónustuna með samþykkt heilbrigðisáætlunar til ársins 2010.

Í kjölfar ráðstefnunnar sem ég nefndi í upphafi máls míns um lýðræðið í skólastarfi og í anda boðskapar hennar stóðu nemendur grunnskóla í Reykjavík fyrir þingi. Þema þess var unglingar, kynlíf og fjölmiðlar. En hver ætli hafi verið megináherslan í ályktuninni sem þeir sendu frá sér? Þeir lögðu megináherslu á fjölskylduna og samverustundir hennar. ,,Við viljum að fjölskyldur séu meira saman,`` sögðu grunnskólanemendurnir.

Við framsóknarmenn viljum hlúa að þessari grunneiningu samfélagsins og samhjálpinni og samábyrgðinni sem hún grundvallast á. Við stöndum vörð um jafnan rétt allra til menntunar við hæfi hvers og eins, menntunar sem miðar að því að hámarka getu hvers einstaklings og hvikum hvergi í baráttunni fyrir hágæðaheilbrigðis- og félagsþjónustu sem allir eigi jafnan aðgang að. --- Góðar stundir.