Krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 10:33:32 (27)

2002-10-03 10:33:32# 128. lþ. 3.94 fundur 133#B krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[10:33]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að völd á Íslandi hafa fyrst og fremst legið í gegnum áhrif í bankakerfinu. Lengi vel var sú barátta fyrst og fremst valdabarátta Sjálfstfl. og Framsfl. Þeirri baráttu lyktaði með frægri helmingaskiptasátt sem enn virðist lifa góðu lífi.

Þá er mörgum í fersku minni sú barátta sem háð var um völd og áhrif í Íslandsbanka hf. þar sem m.a. hæstv. forsrh. hafði sterkar skoðanir á kaupum tiltekinna aðila á stórum hlut í bankanum. Svo miklu skipta því áhrif einstakra aðila í íslenskum bönkum að helstu valdamönnum hvers tíma stendur ekki á sama um hver kaupir og hver selur. Samkeppni á íslenskum lánamarkaði er engin. Vaxtakjör almennings og fyrirtækja ráðast alfarið af ákvörðunum Seðlabanka Íslands um stýrivexti. Samtryggingin þar er því alger. Völd munu áfram sem hingað til liggja í gegnum áhrif í bankakerfinu. Það er því nauðsynlegt þegar fyrir liggur ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að selja ráðandi hlut í ríkisbönkunum tveimur að ræða þann ásetning hennar að ætla að selja ráðandi hlut í bönkunum einum aðila.

Hvers vegna hefur ríkisstjórnin snúið af þeirri leið að stefna að dreifðri eignaraðild við sölu á hlutum í ríkisbönkunum? Hvers vegna lýsti hæstv. forsrh. því yfir í Morgunblaðsviðtali árið 1998 að enginn ætti að eiga meira en 3--8% í bönkunum, og taldi hann lægri töluna nær lagi, þegar sá hinn sami hyggst nú beita sér fyrir því að selja 33--45% eignarhlut í Landsbankanum einum aðila? Hvað er að marka slíka menn?

Svipaðar yfirlýsingar um pólitíska stefnumótun og æskileg markmið gaf hæstv. utanrrh. í viðtali við sama blað í ágúst 1999.

Rökin í mínum huga fyrir því að rétt sé að stefna að dreifðri eignaraðild í fjármálastofnunum á Íslandi eru skýr og einföld því að vegna valdsins sem fylgir eignarhaldi á ráðandi hlut í stórum banka og hins fámenna íslenska samfélags þolir það ekki til lengdar að nánast allar eignir þjóðarinnar færist á fárra hendur. Það er því skynsamlegt að hafa í huga orð repúblikans og öldungardeildarþingmannsins Johns Shermans sem í lok 19. aldar sagði í umræðum á bandaríska þinginu í tengslum við setningu samkeppnislaga: ,,Þar sem við Bandaríkjamenn höfum hafnað pólitískum einvaldi spyr ég: Hví skyldum við fela öðrum sömu völd í gegnum áhrif í átvinnulífinu?``

Franklin Delano Roosevelt, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, orðaði þessa sömu hugsun einnig á þá leið að sjálft lýðræðið væri í hættu ef vald einkaaðila kæmist á það stig að þeir gætu haft þau áhrif á stjórnkerfið að völd þeirra sköðuðu sjálft lýðræðisríkið.

Af fyrstu skrefum við sölu á ráðandi hlut í Landsbankanum virðist ljóst að hástemmdar yfirlýsingar um nauðsyn dreifðrar eignaraðilar eru foknar út í veður og vind. Þá er ekki síður merkilegt að yfirlýsingar sem gengið hafa um nauðsyn þess að kjölfestufjárfestir yrði fenginn að bankanum virðast grafnar og gleymdar.

Fyrir um ári eða svo skilgreindi hæstv. viðskrh. kjölfestufjárfesti eitthvað á þá leið að um væri að ræða aðila sem kæmi til liðs við bankana með aukna þekkingu og reynslu á sviði rekstrar fjármálastofnana. Þá væri gott að sá aðili væri erlendur.

Nú liggur fyrir að sá sem verið er að ræða við um kaup á stórum hlut í Landsbankanum hefur ekki áður tekist á herðar rekstur á fjármálastofnun. Þá segir heilbrigð skynsemi manni það að kjölfestufjárfestir hljóti að vera aðili sem hyggist dvelja um skeið á staðnum. Annars er kjölfestan ekki mikil. Þeir sem nú er verið að ræða við hafa lýst því yfir að þeir hyggist eiga hlut í bankanum að hámarki fjögur ár, gera breytingar á bankanum á meðan og selja hann að því loknu með hagnaði. Því má spyrja: Hvers vegna gerir ríkið ekki þessar breytingar sjálft og selur svo með hagnaði?

Það breytir ekki hinu að eftir stendur spurningin um þá pólitísku stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar að stefna ekki lengur að dreifðri eignaraðild við sölu á hlut í ríkisbönkunum. Því beini ég þeirri einföldu en skýru spurningu til hæstv. viðskrh.: Hverju sætir þessi stefnubreyting?