Krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 10:46:00 (30)

2002-10-03 10:46:00# 128. lþ. 3.94 fundur 133#B krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[10:46]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Það gleymist oft að tímarnir eru að breytast. Það sem áður voru völd stjórnmálamanna yfir fjármagnsmarkaðnum er að breytast yfir í völd markaðarins.

Hvar liggja völd markaðarins? Það eru fyrst og fremst völd viðskiptavinanna. Til þess að banki eða önnur fjármálafyrirtæki nái árangri í dag þurfa þau að þjóna viðskiptavinunum. Banki eða fjármálafyrirtæki sem gerir það ekki lætur undan síga í því umhverfi sem við störfum í núna, sérstaklega ef við lítum til framtíðarinnar, á hvernig hlutirnir munu koma til með að þróast í framtíðinni.

Ef við lítum á umræður sem orðið hafa um einkavæðingu bankanna þá sjáum við að sjálfsögðu breytingar frá því að bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum sé stýrt á pólitískum forsendum yfir í að viðskiptavinirnir fari að ráða ferðinni. Þegar bönkum er stjórnað á pólitískum forsendum koma mörg önnur sjónarmið inn í myndina í rekstri bankanna en sjónarmið viðskiptavina og markaðarins. Menn vilja reka bankana á öðrum forsendum. Allt í lagi með það. En þegar til framtíðar er horft þarf alltaf að spyrja sig hvort bankarnir séu að þjóna viðskiptavinunum. Eigandi bankanna þarf alltaf að hafa það í huga. Í mörgum fyrirtækjum, ekki bara í fjármálakerfinu heldur og hjá öðrum greinum atvinnulífsins, er eignarhald ýmist dreift eða á fárra höndum. Það breytir þó aldrei því að fyrirtækin þurfa að þjóna markaðnum og umræðan um hvort eignarhaldið er dreift eða ekki dreift skiptir sáralitlu í því sambandi, bankarnir þurfa að standa sig hvort sem þeir eru í höndum fárra aðila eða margra.