Krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 10:48:11 (31)

2002-10-03 10:48:11# 128. lþ. 3.94 fundur 133#B krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[10:48]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. virðist eiga erfitt með að átta sig á hvert stjórnarandstaðan er að fara með því að spyrja eftir dreifðri eignaraðild að fyrirtækjum sem ríkið er að selja. Stjórnarandstaðan er einvörðungu að rifja upp sjálfa grundvallarstefnu ríkisvaldsins fyrir nokkrum missirum og spyrja: Af hverju hefur verið frá henni horfið?

Það ber auðvitað allt að sama brunni um þjóðfélagsskipan hér. Allur sjávarútvegur er að færast á hendur eins og þriggja aðila. Þar eru nú völd markaðarins ríkjandi, eins og hann gumaði af hér, formaður efh.- og viðskn., heldur betur. Mestöll matvöruverslun er í höndum tveggja aðila og ef fjármálakerfið kemst í hendur örfárra, eins og nú stefnir að, sjáum við sæng okkar upp reidda. Við höfum samþjöppun á tryggingamarkaðnum, hjá olíufélögunum og fjölmiðlunum, þar sem þeir lúta nú flestir ríkisvaldinu að því sem menn vita.

Hér er ekki spurt um hvort hægt sé að setja lög um dreifða eignaraðild. Spurningin er um vilja stjórnvalda. En ýmislegt bendir til að breyting hafi orðið á afstöðu þeirra þegar þau tóku ákvörðun um að úthluta sjálfum sér þessu fjármálavaldi. Það er a.m.k. eitt og hálft ár síðan ákveðið var að Framsfl. fengi í sinn hlut Búnaðarbanka Íslands með öllu tilheyrandi auk eignarhluta Landsbankans í Vátryggingafélaginu.

Það er margföld reynsla fyrir því í öðrum þjóðlöndum að dreifð eignaraðild hafi verið lögfest og framkvæmd með ágætum. Hér stefnir allt að öðrum brunni.