Krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 10:52:48 (33)

2002-10-03 10:52:48# 128. lþ. 3.94 fundur 133#B krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[10:52]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Sú stjórnarstefna sem rekin er, einkavæðingarstefna ríkiseigna, er að stórskemma og til lengri tíma að eyðileggja það samfélag sem við höfum grundvallað líf okkar á. Ríkiseignir --- hér er rætt um bankana --- eru færðar í hendur örfárra. Það leiðir af sér fákeppni, fákeppni sem enginn ræður við og færir okkur áratugi eða árhundruð aftur í tímann.

Við höfum reynslu af einkavæðingu á ýmsum sviðum. Það er alveg klár stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að líta á bankastarfsemina í landinu sem grunnþjónustu fyrir alla þjóðina og fyrirtæki hennar. Þess vegna er það skoðun okkar og hefur margsinnis komið fram í málflutningi okkar að við teljum að ríkið eigi að hafa eignarhald á ríkisbönkum, alla vega einum banka.

Söluferlið sem menn standa í núna gengur ekki upp. Það hefur margsinnis komið í ljós, ekki bara hvað varðar bankana, að ríkisstjórn Íslands ræður ekki við ferlið sem hún fylgir um þessar mundir. Við erum að uppskera afleiðingar hræðilegrar stefnu til tíu ára. Fjármálakerfið er grundvallaratriði í samfélagsrekstri okkar. Það er því nauðsynlegt, eins og fram kemur í þáltill. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að látið verði af þessum hættulega leik og einkavæðingarferlið stöðvað. Við hvetjum til að menn setjist niður, skoði þessi mál heildstætt og geri sér grein fyrir því hvert við stefnum með þetta samfélag til framtíðar litið. Það er tillaga okkar og er grundvallaratriði. Dreifð aðild eða kjölfestufjárfestar eru aukaatriði í því efni eins og málum er háttað nú.