Krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 11:00:03 (36)

2002-10-03 11:00:03# 128. lþ. 3.94 fundur 133#B krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[11:00]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. frummælanda að bankarnir voru valdastofnanir. Þeir voru stór hluti af uppbyggingu valds á Íslandi. En svo er ekki lengur vegna þess að við erum að breyta fjármálakerfinu og einn þáttur í því er einmitt að einkavæða bankana. Við erum að breyta kerfinu þannig að þar ríki samkeppni í staðinn fyrir yfirfullar biðstofur bankastjóra þar sem lánveitendur biðu í röðum, yfir í það að markmið bankanna sé að ná til kúnnanna, ná til viðskiptamannanna. Og þá breytist þetta úr því að vera valdastofnun yfir í að vera ósköp venjuleg þjónustustofnun og hefur ekkert gildi sem völd. Þetta er breytingin sem á sér stað. Þess vegna er ekki lengur um það að ræða að bankarnir séu valdastofnanir. Ef einhver kjölfestufjárfestir eða einhver annar ætlar að misnota einhvern banka þá hlýtur hann að tapa á því sjálfur af því að hann er eigandi, (Gripið fram í: SPRON. Sparisjóðurinn.) þ.e. ef hann er eigandi, vegna þessa frammíkalls. Ef einhver banki er misnotaður á þennan hátt þá tapar eigandinn og viðskiptamennirnir flýja þann banka. Það sem við verðum því að treysta á er að það ríki samkeppni og við verðum að treysta á að Samkeppnisstofnun og þau tæki sem við höfum sett í gang til að styrkja samkeppni séu virk, þau gæti að því að menn misnoti ekki yfirgnæfandi stöðu sína á markaði. Á það verðum við að treysta að þessir bankar verði þjónustustofnanir og hætti að vera valdastofnanir.