Krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 11:04:36 (38)

2002-10-03 11:04:36# 128. lþ. 3.94 fundur 133#B krafa um dreifða eignaraðild við sölu á hlut ríkisins í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[11:04]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég hefði frekar sagt að það væri með hreinum ólíkindum að heyra hvernig hv. þm. snýr út úr því sem ég sagði í ræðu minni. Það sem ég sagði var ekki það að mikilvægt væri að einn aðili færi með stjórn í bankanum. Þessi umræða snýst um kjölfestufjárfesti og það sem ég held fram að sé mikilvægt er að hann liggi fyrir strax í upphafi vegna þess að það sé þá bara spurning um hvenær hlutirnir gerist því að á eftirmarkaði verði til kjölfestufjárfestir.

Þessi umræða hefur í sjálfu sér verið eins og við mátti búast og ég þakka fyrir hana. En ég held því fram og ítreka að ég hef ekki skipt um skoðun í þessu máli vegna þess að hv. þm. lét að því liggja. Ég sagði að mikilvægt væri að skoða til fullnustu þá aðferð sem kölluð hefur verið dreifð eignaraðild og hvort rétt væri og mögulegt að setja slík ákvæði í lög á Íslandi. Kratar sem bera mikla ábyrgð á EES-samningnum nota tækifærið við aðstæður sem þessar til þess að koma í ræðustól og tala gegn samningnum sem er mjög athyglisvert. (Gripið fram í: Ha!) Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir heldur því stöðugt fram að hægt sé að setja lög um dreifða eignaraðild (Gripið fram í.) sem er ekki í samræmi við EES-samninginn. (Gripið fram í.)

Sú ræða sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hélt hér kom svo sem engum á óvart vegna þess að sá flokkur vill náttúrlega ekkert einkavæða. Það er alveg ljóst og er bara í samræmi við það sem aðrir öfgavinstriflokkar hafa borið fram annars staðar í Evrópu. En reyndar er það þannig í Austur-Evrópu að verið er að einkavæða í stórum stíl. (Gripið fram í.) Menn telja það mikilvægt vegna hagvaxtarins og (Gripið fram í: Þeir eru komnir með ...) hagkerfisins sem slíks að einkavæða og það --- Mér þykir mjög óþægilegt, herra forseti, að tala í kapp við eina fimm, sex þingmenn. Ég hef orðið, hélt ég.

Hann talaði um að einkavæðingin eyðilegði þjóðfélagið og ylli hér fákeppni. Þarna fer hv. þm. með rangt mál. Það er ekki það sem veldur fákeppni að einkaaðilar fái að eiga í fyrirtækjum og bönkum. Við erum með samkeppnislög sem eiga að taka á slíkum málum. Við höfum styrkt þau lög og þau eru burðugri núna til þess að taka á fákeppninni. En það var því miður of seint (Forseti hringir.) sem sú lagasetning fór fram.