Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 11:26:03 (44)

2002-10-03 11:26:03# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[11:26]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ræddi m.a. við forsvarsmenn hjá Alþýðusambandi Íslands meðan ég vann þetta mál. Sá samanburður sem hér var nefndur tekur ekki til þess sem hér er óskað eftir að fari fram, þ.e. að leita að því hvar verðið breytist hjá okkur meira en hjá öðrum.

Það er rétt að erfitt getur reynst að fá splunkunýjar upplýsingar þegar maður vinnur svona mál. Ég vann með þær upplýsingar sem nýjastar voru. Hagstofa Íslands átti skýrslu sem hafði verið unnin í Noregi á árinu 2000, m.a. í samvinnu við norska landbúnaðarráðuneytið. Eftir að ég var búin að leggja þetta mál fyrir þingið kom hins vegar út nýjasta samanburðarskýrslan sem unnin er með þeim hætti sem ég lýsti í máli mínu, sem nær til 31 lands og 550 vörueininga og er mjög flókin í samanburði. Á yfirlitsblaði sem ég hef fengið í hendur varðandi samanburð á árinu 2001 er nákvæmlega sama tilhneigingin og fram kemur í norsku skýrslunni. Það skiptir meginmáli að þegar þróun vísitölunnar, matvælavísitölunnar, er skoðuð milli áranna 2000 og 2001 kemur í ljós að við hækkum meira á milli áranna 2000 og 2001 en árin á undan. Hafi einstaka flokkar matvæla breyst hjá okkur, t.d. grænmetið í kjölfar þess að hér voru teknar upp ákveðnar beingreiðslur og heimsmarkaðsverð, er það bara gott mál. En ef við ætlum að taka á þessum þáttum og finna hvað við gerum allt öðruvísi hérlendis en annars staðar verðum við að fara í samanburð og orsakakönnun eins og ég hef lagt til.