Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 11:51:12 (55)

2002-10-03 11:51:12# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[11:51]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég gat ekki heyrt, herra forseti, að hér væri um að ræða andsvar við ræðu minni heldur væri hv. þm., stjórnarliðinn Ísólfur Gylfi Pálmason, miklu fremur að taka undir það sem ég var að segja um mikla fákeppni á matvælamarkaðnum. Það er alveg rétt, herra forseti.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann vilji ekki beita sér fyrir því að við fáum nú fram þessa könnun sem verið er að gera á matvælamarkaðnum. Það er hæstv. viðskrh. sem fyrst og fremst á að reka á eftir því að svo sé gert. Hv. þm. sem hefur miklar áhyggjur af fákeppni og einokun á matvælamarkaðnum hlýtur að líða illa í þessari ríkisstjórn vegna þess að ríkisstjórnin hefur fyrst og fremst stuðlað að mikilli fákeppni, einokun og samþjöppun valds og auðs í þessu þjóðfélagi, ekki bara á matvælamarkaðnum heldur líka á bankamarkaðnum, sem við vorum að ræða hér í morgun, á tryggingamarkaðnum og á flutningamarkaðnum. Ég spyr: Hvað hefur hv. þm. gert til að sporna við þessari þróun? Hefur hann hreyft andmælum í þingflokki sínum við þeirri þróun sem á sér stað varðandi samþjöppun auðs og valds í þessu þjóðfélagi? Hv. þm. kemur hér í andsvar við okkur þingmenn í stjórnarandstöðunni sem höfum barist hart gegn auðsöfnun fárra í þjóðfélaginu. Þjóðin á heimtingu á að vita, fyrst að hv. þm. hefur svona miklar áhyggjur af samþjöppun í þjóðfélaginu, hvað hv. þm. hefur gert innan eigin þingflokks til að sporna gegn þessari þróun.