Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 11:55:21 (57)

2002-10-03 11:55:21# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[11:55]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér áðan kom fram gagnrýni á samþjöppun og einokun í verslun. Ég tek heils hugar undir að það er mjög slæmt. En ég vil minna á að forsrh. Davíð Oddsson hefur oft gagnrýnt samþjöppun og einokun í matvöruverslun hér í landinu. Hann hefur mjög oft gagnrýnt hana.

Þetta varðar milliliðina og verðið til bóndans, skilaverðið til bóndans og milliliðina sem hækka verðið, m.a. þegar varan er flutt inn til landsins. Auðvitað verður þetta einokun þegar ekki eru nema tveir aðilar sem flytja vöru til landsins. Það er það sem skiptir máli.

Ég vil taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ef það er raunin að 11 þúsund manns lifi við þau kjör að vera ekki með nema 700--1.100 þús. kr. í árstekjur þá er það mikið áhyggjuefni. Ein stétt manna lifir við svona sultarkjör, t.d. sauðfjárbændur. Þetta er alvarlegur hlutur og úr þessu verður að bæta. Það verður að þétta það net sem við viljum hafa, það öryggisnet í okkar samfélagi að enginn lifi við svo kröpp kjör. Ég held að við séum öll sammála um það.

Hér hefur einnig verið rætt um innfluttu vörurnar. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson kom inn á það í ræðu sinni og það var mjög athyglisvert. Ég vil geta þess að íslenskur landbúanður er miklu minna styrktur en landbúnaður alls staðar annars staðar í heiminum --- ég tala nú ekki um Evrópusambandið. Það eru aðeins þrjár greinar í íslenskum landbúnaði sem eru styrktar, það er mjólkurframleiðslan, sauðfjárræktin og grænmetið núna síðast, eftir að tollarnir voru felldir niður á öllu grænemti. Grænmetið hefur lækkað allt að 70% í verði en að sjálfsögðu fer verðmyndun á grænmeti eftir því hvaða árstíma er miðað við.