Athugasemd um ummæli þingmanns

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:01:31 (60)

2002-10-03 12:01:31# 128. lþ. 3.98 fundur 137#B athugasemd um ummæli þingmanns#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:01]

Forseti (Halldór Blöndal):

Vegna athugasemda frá hv. 3. þm. Vesturl., Jóhanni Ársælssyni, við þau ummæli mín að ég hafi óskað eftir því að menn sýndu einstaklingum utan þingsalar háttvísi og hv. þm. bað mig að tilfæra þau orð sem ég ætti við, skal ég verða við þeirri beiðni.

Hv. þm. vék að sölu á Landsbanka og Búnaðarbanka og komst svo að orði: ,,Það ætti að verða mönnum til umhugsunar að framkvæmdina annast að hluta til sjálfur framkvæmdastjóri Sjálfstfl. sem hefur stjórnað meiri hluta í bankaráði Landsbankans í mörg ár. Hann á nú orðið umtalsverðan hlut í bankanum. Þannig var einn helsti vinur og ráðgjafi forsrh. í málinu greinilega vanhæfur til umfjöllunar um það hverjum ætti að selja bankann. Þar með komið spurningarmerki við sjálfan forsrh. í málinu.``

Ég vil vekja athygli hv. þm. á að Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstfl., er ekki í einkavæðingarnefnd og ég tel ekki háttvísi að vera með getgátur um efnahag einstakra manna í þjóðfélaginu hér úr ræðustóli til þess að reyna að gera persónu þeirra tortryggilega. Jafnframt vil ég minna hv. þm. á að það ber að segja hæstv. forsrh. í máli sínu.

Í annan stað vil ég vekja athygli hv. þm. á að hann víkur að ríkisendurskoðanda með því að kalla hann virðingarmann úr vildarklúbbi Sjálfstfl. Ég tel að ummæli af þessu tagi um einstaklinga utan þingsalar sé ekki háttvísi og síðan verða þingmenn sjálfir að gera það upp við sjálfa sig hvernig þeir vilja haga sínu máli. En þetta kalla ég ekki háttvísi, hv. þm.