Athugasemd um ummæli þingmanns

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:05:36 (63)

2002-10-03 12:05:36# 128. lþ. 3.98 fundur 137#B athugasemd um ummæli þingmanns#, LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:05]

Lúðvík Bergvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að ég var mjög hissa á þeim athugasemdum sem hæstv. forseti gerði, en kannski öllu heldur minna á og vekja athygli á því að fallið hafa um það hæstaréttardómar þess efnis að einstaklingar sem taka að sér störf í þágu almennings eða fyrir stjórnmálaflokka eða annað slíkt verða stöðu sinnar vegna að þola almenna umræðu um það vegna þess að þeir fara með almannavald, þeim er falið tiltekið hlutverk og þess vegna þurfa þeir að þola umræðu um sig og störf sín. Ég tel að í þessu tilviki hafi hv. þm. Jóhann Ársælsson ekki verið að gera neitt annað en halda sig innan þeirra eðlilegu marka. Hann hefur á bak við sig genginn hæstaréttardóm og það er mín skoðun, virðulegi forseti, að ekki sé hægt að hefta umræðu í ræðustól á þann hátt sem hæstv. forseti virðist hafa verið að gera með því að vísa til þess að ekki hafi verið næg háttvísi í ræðu hv. þm.