Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:25:10 (68)

2002-10-03 12:25:10# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:25]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma upp til að taka undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Kristjáns Möllers og mér finnst hann undirstrika það sem ég benti á í andsvörum mínum að úr gögnum má lesa að stærsti vandinn er heimavandi. Ég er sammála hv. þm. í því að flutningurinn er þar stór liður. Þar hefur átt sér stað samþjöppun undir formerkjum svokallaðrar samkeppni sem hefur haft hræðilegar afleiðingar, bæði í lofti, láði og legi, ekki síst í loftflutningum eins og menn vita. En ég vil spyrja hv. þm. hvort hann telji ekki líka t.d. að hlutir eins og fjárfestingar í versluninni spili ekki gríðarlega rullu vegna þess að það eru sjálfsagt fáar þjóðir heimsins sem hafa fjárfest annað eins í glæsibyggingum og verslunarhöllum miðað við fólksfjölda. Auðvitað gera sér allir grein fyrir því að þetta endurspeglast í háu vöruverði því að allar þessar fjárfestingar þarf að borga.

Það er mat margra sem eru að fást við skipulagsmál að ef við tökum mið af öðrum löndum, við skulum segja í Norður-Evrópu, þá hefði uppbygging af því tagi sem hefur átt sér stað í verslun hér á landi ekki fengið að þróast með þeim hætti sem hérna hefur gerst vegna þess að það hefði verið talið andstætt hagsmunum neytenda.

Ég vil taka undir margt en spyrja hv. þm. hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að hann telji, eins og fram hefur komið í umræðunni, að e.t.v. sé stærsti hluti vandans hreinlega heimavandi, flutningar, skattar, fjárfestingar í versluninni, einokun eða samþjöppun o.s.frv.