Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:27:11 (69)

2002-10-03 12:27:11# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:27]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni fyrir þetta andsvar. Jú, að vissu leyti er það rétt að hluti af þessu er heimavandi. Ég hygg að það sé sama hvort við erum að tala um þá góðu tillögu sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir flutti og hér er til umræðu eða þá tillögu sem ég vitnaði í og kemur vonandi seinna á dagskrá um vöruverð og muninn á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, þá er það að hluta til heimavandi.

Ég nefndi það og ég er viss um að gagnvart Norðurlöndum og Íslandi er flutningskostnaðurinn til þessa eyríkis sem við búum í mjög stór hluti. Og þar er ekki um samkeppni að ræða. Ég þekki það sjálfur frá fyrri störfum mínum að menn geta verið að flytja inn vöru sem er keypt mjög ódýr úti, en mjög algengt er að flutningskostnaður sé 50% af innkaupsverði viðkomandi vöru, það er mjög algengt.

Fjárfesting í verslun á sannarlega við á höfuðborgarsvæðinu en ekki á landsbyggðinni. Þar nægir að nefna byggingu Smáralindarinnar. Auðvitað liggur það í augum uppi að tekið er tillit til þeirrar fjárfestingar þannig að hún fer út í verðlag, að sjálfsögðu.

Einn þáttur í viðbót getur verið samþjöppun. Ég hef því miður ekki tíma til að ræða nú þann samruna sem átti sér stað fyrir nokkrum árum. Ég man ekki hvaða ár það var. Mér kom það mjög á óvart að Samkeppnisstofnun skyldi samþykkja þann samruna sem varð þar í matvöruverslunum. Jú, að stórum hluta er þetta heimavandi hér á höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni er ekki um það að ræða að verið sé að versla í dýru húsnæði sem hleypir upp vöruverði. Þar er heimavandinn mjög hár flutningskostnaður vegna opinberra álaga á flutningsaðila.