Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:29:24 (70)

2002-10-03 12:29:24# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:29]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig er að verslunin lýtur sömu lögmálum í raun og veru um allt land og þó svo að stærstu verslunarhúsin hafi verið byggð á höfuðborgarsvæðinu, þá endurspeglar tilurð þeirra og uppbygging verslunarkeðja verðið úti á landsbyggðinni vegna þess að við vitum öll að stóru aðilarnir gefa tóninn varðandi verð og síðan koma minni kaupmenn og eiga enga aðra möguleika t.d. en að versla á hærra verði. Þetta er alþekkt. Offjárfesting hvar sem hún á sér stað í landinu, hvar sem væri þenslusvæði hverju sinni er jafnvond á Raufarhöfn og í Reykjavík fyrir alla Íslendinga.

Ég vil bara draga þetta fram og ég held að við verðum að ræða þessi mál heildstætt og ég er sannfærður um --- ég bjó í Danmörku lengi, um sex ára skeið við nám og þar var mönnum hreinlega ekki hleypt í það að fjárfesta að vild í verslun, bæði út frá skipulagslegum þáttum en líka út frá þeirri hugsun að það mætti ekki offjárfesta í þjónustu í þessum geira. Það er ekkert einkamál verslunar t.d. að framkalla milljarðafjárfestingar í kjölfar uppbyggingar verslunarmiðstöðvar t.d. í samgöngumannvirkjum. Um þetta eru sláandi dæmi hér á allra síðustu missirum. Þessa óráðsíu, offjárfestingu, verða landsmenn látnir borga á einn eða annan hátt, allir, alveg sama hvar þeir búa. Þannig vil ég enn og aftur undirstrika að stærstur hluti þessa vanda að mínu mati er heimatilbúinn vandi.