Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 12:51:30 (81)

2002-10-03 12:51:30# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[12:51]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því í ummælum hv. 1. þm. Norðurl. e. að hann hafi sagt að hann hafi verið undrandi á þeirri afstöðu Samkeppnisstofnunar eða samkeppnisráðs að hafa ekki gert athugasemdir við þá samþjöppun sem hefur orðið á matvælamarkaði. Eftir því sem ég hef lesið um afstöðu Samkeppnisstofnunar til Baugs þegar Baugur var að yfirtaka 10--11 búðirnar þá sýnist mér að hún hafi verið byggð á þeirri forsendu að Hæstiréttur hafði áður dæmt að sameining Flugfélags Norðurlands og innanlandsdeildar Flugleiða væri lögleg þrátt fyrir að þar hefði markaðsráðandi staða verið 85% og farið í 90%. Það hefði sem sagt ekki breyst og á þeirri forsendu hefði samkeppnisráð ekki treyst sér til að gera athugasemdir við frekari útbreiðslu Baugs.