Velferð barna og unglinga

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 13:47:16 (93)

2002-10-03 13:47:16# 128. lþ. 3.95 fundur 134#B velferð barna og unglinga# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[13:47]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda Steingrími J. Sigfússyni fyrir að færa þetta mál inn í umræðu á Alþingi.

Nýverið höfum við fengið margvíslegar vísbendingar um aukna mismunun barna og unglinga á Íslandi. Sú ríkisstjórn sem í fjárlagafrv. sínu klifar ár eftir ár á stöðugleika og efnahagsuppsveiflu stjórnar nefnilega með þeim hætti að bil milli ríkra og fátækra eykst stöðugt hér á landi. Því miður búum við ekki lengur í stéttlausu þjóðfélagi þar sem aðstæður fólks eru svipaðar heldur er að myndast gjá milli þjóðfélagshópa þar sem sumir fá þjóðarauðlindirnar gefins á meðan aðrir eiga vart til hnífs og skeiðar.

Niðurstöður kannana hafa oft sýnt að þeir sem erfiðast eiga uppdráttar í þjóðfélaginu eru einmitt þeir sem eiga rétt á launum, þ.e. bótum eða öðrum stuðningi frá hinu opinbera, t.d. öryrkjar, hluti ellilífeyrisþega, ungar, ómenntaðar, einstæðar mæður og síðast en ekki síst ungmenni sem búa við fjárhagslega og félagslega erfiðleika, bæði á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.

Við vitum að stór hópur öryrkja getur ekki unnið og þarf því að lifa af bótum sem duga á engan hátt til framfærslu. Hvernig skyldi börnum þessa fólks vegna? Hafa þau sömu möguleika og önnur börn til að leggja stund á íþróttir og aðrar tómstundir sem ungu fólki standa til boða?

Ég vil í þessu sambandi vekja sérstaka athygli á velferð barna og unglinga meðal innflytjenda á Íslandi. Fram hefur komið að við stöndum frammi fyrir því að hér geti myndast hópar ungmenna sem eru utanveltu í þjóðfélaginu líkt og hefur gerst erlendis ef ekki er lögð sérstök rækt við að hlúa að börnum innflytjenda í skólum og í samfélaginu almennt.

Þau börn og unglingar sem helst líða fyrir fátækt á Íslandi fara á mis við lífsgæði sem börn hinna betur settu eiga aðgang að. Félagslegir erfiðleikar fólks eru samt sem áður ekki bundnir við fátækt, síður en svo. Hin harða krafa samfélagsins um að báðir foreldrar vinni langan vinnudag til að framfleyta fjölskyldunni veldur því að sífellt minni tími gefst til samveru fjölskyldunnar og það bitnar harðast á börnunum. Félagslegar afleiðingar þess geta orðið þeim fjötur um fót, jafnvel þó að fjárhagsleg afkoma sé tryggð með vinnu beggja foreldranna.