Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 14:01:22 (99)

2002-10-03 14:01:22# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Við tökum nú aftur til umræðu till. til þál. sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir og Össur Skarphéðinsson flytja um athugun á orsökum fyrir háu matvælaverði á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd og ríki Evrópusambandsins. Þessi tillaga er framhald umræðu sem varð á síðasta þingi þar sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir lagði fram fyrirspurn um samanburð á matvælaverði eða þróun matvælavísitölunnar hér og á Norðurlöndunum þar sem fram kom að matvælaverð er hátt. Við vissum það reyndar, það eru engin ný sannindi eins og hefur heyrst hér í ræðustól í morgun og heyrðist reyndar í sjónvarpsþætti fyrir stuttu, í Kastljóssþætti, þar sem einn spyrjandi sagði: ,,Bíddu, er þetta ekki eitthvað sem við höfum alltaf vitað?`` Það lá næstum því í orðunum að þetta væri bara eitthvert lögmál sem við ættum ekki að eyða svo miklum tíma í.

En Samfylkingin hefur kynnt áherslur sínar á þessu þingi sem nú er rétt að hefjast og þar leggjum við m.a. megináherslu á kjör fólksins í landinu, fjölskyldnanna, og þá kannski ekki síst á kjör ungs fjölskyldufólks sem er að koma sér þaki yfir höfuðið. Húsaleigan er há, lánin dýr, vextirnir háir og við höfum einnig sagt að það þurfi að taka til sérstakrar skoðunar hvað matvælaverð er allt annað hér en á Norðurlöndunum.

Nú vill svo til að þegar þessari fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur er svarað hér er í undirbúningi skýrsla sem unnin er af norsku Hagstofunni þar sem verið er að bera saman verðlag á matvælum á Norðurlöndum og í Þýskalandi og í Evrópusambandinu á árunum 1994--2000. Og það er svo merkilegt að þessi skýrsla er ekki að beiðni Samfylkingarinnar. Þarna tóku Norðmenn það á sig að skoða þetta sérstaklega og vildu þá skoða um leið þá þróun sem hefur átt sér stað innan Evrópusambandsins og hvernig Noregur og Norðurlöndin í heild og Þýskaland kæmu inn í þá þróun sem þar hefur átt sér stað. Sjálfsagt hafa menn þá líka verið að velta fyrir sér áhrifum evrunnar þegar hún kæmi til sögunnar, og eftir því sem ég best veit ætla þeir að vera með þessar skýrslur sínar uppfærðar.

Nú bregður svo við að hér hafa staðið upp hv. þm. sem ég hafði satt að segja trú á að mundu fyrst og fremst fagna því að þessi mál yrðu skoðuð, hvort sem um er að ræða heimatilbúinn vanda, há flutningsgjöld erlendis frá eða innan lands og hvernig á því stendur að matvælaverð er svona hátt hér. Það hlýtur að vera baráttumál okkar allra að laga það og bjóða fjölskyldum landsins kjör sambærileg við þau sem gerist hjá öðrum Evrópuþjóðum. Nei, það er aldeilis ekki nógu gott. Og hvers vegna? Vegna þess að við viljum láta skoða það sérstaklega með tilliti til þess að Norðurlöndin eiga ekki öll sambærilega aðild að Evrópusambandinu. Þá er umræðan allt í einu orðin Evrópusambandsumræða. Og það er sérstaklega þingflokkur Vinstri grænna sem fer undir öllum kringumstæðum með öll mál inn í þá umræðu, og merkilegt að þeir skuli ekki hafa gert sér grein fyrir því, ef þeir hafa lesið greinargerðina, að þessi sérstaka úttekt sem gerð var af norsku Hagstofunni var ekki að beiðni Samfylkingarinnar. Hún var gerð fyrst og fremst vegna þess að þar eru menn að gera raunhæfar athuganir á matvælaverðinu, örugglega í þágu fjölskyldnanna í því landi. Og það er það sem við erum að fara fram á að verði gert hér.

Því vekja þessi viðbrögð nokkra furðu, svo ekki sé meira sagt, að blanda þessu svona saman og reyna að gera umræðuna tortryggilega, og þessa góðu og merku tillögu sem mun örugglega skila sér í því að það verður tekið á varðandi þróun matvælaverðs hérna. Þá verður væntanlega líka tekið á hver framleiðslukostnaðurinn er. Hvað er það sem skilar sér til framleiðendanna og hvað hirða milliliðirnir? Þá verður svarað þeim spurningum sem hv. þm. Halldór Blöndal setti fram um það hvort um óeðlilega samþjöppun í matvöruverslun væri að ræða. Allir þessir þættir hljóta að verða teknir til skoðunar. Og að gera það að einhverju Evrópusambandsmáli þegar verið er að tala um kjör fjölskyldnanna í landinu er náttúrlega bara fáránlegur útúrsnúningur og ekkert annað.

Nokkrir þingmenn hafa komið inn á það að verðið á landbúnaðarvörum skili sér ekki til bændanna. Það er alveg rétt enda kom það fram hjá hv. 1. flm., Rannveigu Guðmundsdóttur, að af þeim 11--15 þús. manns sem hér búa við hreina fátækt eru bændur stór hluti. Og breytingar sem gerðar voru eftir að grænmetisnefndin svokallaða skilaði tillögum sínum og Alþingi gekk frá þeim málum skiluðu sér sannarlega í lægra vöruverði til neytenda. En það sem við þurfum þá að skoða sérstaklega er hvernig framleiðendurnir standa eftir. Við höfum farið fram á það að Ríkisendurskoðun skoði hvernig þessar tillögur skiluðu sér til neytenda en ekki síður til framleiðenda. Ég held að nauðsynlegt sé að við skoðum af fullri alvöru þær tillögur sem þar um ræðir því þar var líka um greiðslur til bænda að ræða. Í þeim tillögum var lagt til að veitt yrði heimild til úreldingar garðyrkjustöðva og það er auðvitað umhugsunarvert fyrir okkur sem hér stöndum hversu margir sóttu um úreldingu að fullu og eru að hætta framleiðslu. Það segir okkur að þær ráðstafanir sem gripið var til duga ekki til að þessir bændur geti séð sér og sínum farborða.

Það er líka dálítið merkilegt þegar skoðuð er ráðgjöf frá Runólfi Sigursveinssyni, Búnaðarsambandi Suðurlands, í plaggi frá 18. apríl 2002, þar sem hann fer einmitt yfir tekjur og rekstrarmöguleika þeirra sem eru með framleiðslu á nautakjöti. Hann tekur dæmi af því hvernig framleiðslukostnaður í sérhæfðu nautaeldi er. Hann segir:

,,Reiknum með 50 nautum í slátrun á ári og 270 kílóum í meðalfallþunga og að meðalverð til bóndans sé 330 kr. á kíló sem miðað við stöðuna í dag er mjög hátt verð. Breytilegur kostnaður er áætlaður um 35%. Hálffastur kostnaður sé ein millj. kr. á ári.`` Og hann segir: ,,Brúttótekjurnar eru 4.455 þús., breytilegur kostnaður rúmlega 1,5 millj., hálffastur kostnaður milljón, vextir og afborganir, ef miðað er við að búið sé með 10 millj. kr. lán, er 1.750 þús.`` Hver er mismunurinn til að greiða laun? Hann er 146 þús. Það kemur líka fram þarna að smásalan hirðir 34% af því sem bóndinn ætti að fá eða af framleiðslukostnaðinum í heild. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér bara að biðja um orðið aftur. Ég er ekki nærri búin.