Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 14:09:50 (100)

2002-10-03 14:09:50# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[14:09]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég varð undrandi á viðbrögðum hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, að bregðast þannig við umræðum og ábendingum varðandi þessa tillögu eins og við urðum vitni að áðan. Það er ákaflega erfitt ef ekki má ræða dagskrármálin eins og þau liggja fyrir. Eðlilega hafa margir velt þeim þætti þessa máls upp sem tillagan sjálf kveður á um, að skoða eigi sérstaklega mismunandi tengsl Norðurlandanna, þ.e. Íslands og annarra landa, við Evrópusambandið. En má ekki ræða það? Hvers vegna bregðast þingmenn Samfylkingarinnar, einkum og sér í lagi hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, svo við sem raun ber vitni, meira að segja við málflutningi manna sem eru jákvæðir í garð tillögunnar sem slíkrar? Er það illa séð almennt af Samfylkingunni að henni bætist liðsmenn? Og er það illa séð að menn komi með ábendingar um hvernig tillagan mætti jafnvel vera betur úr garði gerð eins og ég gerði?

Ég sagði t.d. að væri á annað borð farið út í þessa könnun væri, að mínu mati, betra að hún væri víðtækari en þrengri, betra að hún tæki til vöruverðsins í víðara samhengi og jafnvel verðlagsins almennt þannig að mismunandi aðstæður landa, kaupmáttur og laun, væru þá líka með. Ella er þetta svo erfitt og segir svo takmarkaða sögu. Það er nefnilega ekki þannig að við getum annars vegar haft í einu landi íslenskt kauplag, íslenskt launastig, og hins vegar suður-evrópskt verðlag. Það gengur yfirleitt ekki upp. Þetta tvennt helst yfirleitt í hendur af skiljanlegum ástæðum.

Síðan hafa menn velt hér upp ýmsum flötum á því hvar skýringanna sé að leita. Er eitthvað að því að menn bendi á að auðvitað þurfi að skoða fleira en þá þætti þessa máls eina og sér sem lúta að matvælaverðinu eða aðgangi eða ekki aðgangi að markaði Evrópusambandsins fyrir matvæli? Ég tel enga ástæðu til að fyrtast við eins og Samfylkingin hefur hér gert, eða hv. þm. Margrét Frímannsdóttir. Það finnst mér vera óþarfaviðkvæmni. En kannski á hún sér skýringar.