Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 14:12:12 (101)

2002-10-03 14:12:12# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[14:12]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru fleiri hv. þm. Vinstri grænna sem tóku til máls við þessa umræðu og reyndu, að mínu mati --- kannski er það misskilningur --- að gera það eitthvað tortryggilegt að skoðuð væri mismunandi aðkoma Norðurlandanna að Evrópusambandinu og þá að teknu tilliti til þeirrar þróunar sem á sér stað varðandi matvælaverðið. Útvíkkunin sem hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon talaði um áðan er engin vegna þess að tillagan felur þetta allt í sér, að allir þættir verði skoðaðir og allar orsakir yrðu skoðaðar nákvæmlega. Það er það sem við erum að fara fram á að verði gert til þess, fyrst og síðast, að stuðla að því að hér búum við við sambærilegt verð á matvælum á Norðurlöndunum og í Evrópusambandslöndunum sem eru þrátt fyrir allt okkar nánustu samstarfslönd.