Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 14:25:32 (105)

2002-10-03 14:25:32# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nákvæmlega. Um það erum við nefnilega sammála og þess vegna var ég í ræðu minni í dag að benda á að við þyrftum að fókusera á það sem við höfum vald á og getum gert sjálf og strax, en það væri í sjálfu sér ekki mjög frjótt að velta því fyrir sér hvort matvælaverð og þá hve mikið það mundi lækka með hugsanlegri aðild að Evrópusambandinu e.t.v. eftir fimm eða tíu ár, sem við vitum öll að verður ekki að veruleika bara einn, tveir, þrír, hvað sem öllu öðru líður og í umræðum um þau mál.

Að sjálfsögðu er matvælakarfan mikilvæg og sérstaklega fyrir lágtekjufjölskyldurnar. Upplýsingar liggja fyrir um það að þeim mun lægri sem tekjurnar eru og þeim mun stærri sem fjölskyldurnar eru, þeim mun þyngra vega yfirleitt matarútgjöldin. Það bil getur verið alveg frá 10--12% hjá fjölskyldum upp í kannski 20--25%. Þetta þykist ég muna úr því að hafa verið að skoða þetta mál sérstaklega í tengslum við skattlagningu á matvæli.

En það þarf auðvitað líka að skoða heildarsamhengi þessara hluta. Það vill svo til að ég fylgist talsvert með þessari umræðu í Noregi. Þar er vissulega mikið rætt um hátt verð á matvælum og miklar skattlagningar á brennivíni og hvað það nú er sem veldur því að Norðmenn streyma yfir landamærin til innkaupa. En þar eru menn líka með undir í umræðunni almennt verðlag í Noregi og kaupmátt launa og kaup sem er eitt það hæsta í Evrópu. Og hvers vegna vill matvara verða dýr í löndum þar sem laun eru há? Jú, það er af því að launaliðurinn í framleiðslukostnaði vörunnar vegur auðvitað þungt. Matvælaiðnaður er mannaflsfrekur iðnaður. Þar af leiðandi er óhjákvæmilegt að þetta haldist að einhverju leyti í hendur.

Og það er fullkomlega gilt og réttmætt að vara menn við því að halda að við getum haft íslenskt kauplag, íslensk laun, íslenskt launastig, en t.d. grískt eða portúgalskt verðlag á matvælum. Það gengur ekki upp, nema þá og því aðeins að við sættum okkur við að þurrka burt innlenda launaþáttinn í framleiðslukostnaði matvælanna hér.