Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 14:38:05 (108)

2002-10-03 14:38:05# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[14:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil sem einn af flm. þessarar tillögu þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir skeleggan og einbeittan stuðning við hana. Reyndar er það svo þegar maður skoðar þau mál sem hæst ber í samtímanum að eiginlega er enginn munur á stefnu og markmiðum Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar. Segir ekki meira af því, herra forseti.

En ég kem hingað til þess að taka sterklega undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um að ekki er vansalaust að við Íslendingar skulum búa við lífskjör sem eru snöggt um verri heldur en lífskjör þeirra þjóða sem við berum okkur jafnan saman við og það fyrst og fremst Norðurlöndin.

Ég dreg enga dul á það, herra forseti, að ég er þeirrar skoðunar að sú staðreynd að við séum utan við Evrópusambandið og njótum ekki þeirra gæða sem fylgja fullgildri aðild að því eigi þarna stóran hlut að máli. En ég vil þó jafnframt segja að ég tel að það sé annar stór þáttur sem líka veldur því að verð á matvælum á Íslandi hefur þróast með mjög óhagkvæmum hætti fyrir neytendur á síðustu árum. Herra forseti, það er vitaskuld sú vonda þróun sem hefur átt sér stað varðandi samruna fyrirtækja á matvælamarkaði.

Það er sláandi þegar maður skoðar þær tölur sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir leggur hér fram og tekur úr svari hæstv. forsrh. við fyrirspurn hennar frá því í fyrra, að frá því um miðjan síðasta áratug þegar saman runnu tvær stórar matvælakeðjur, Hagkaup og Bónus, þá sýnist sem allt hafi farið á verri veg að því er varðar matvælaverð á Íslandi. Og það var einfaldlega þannig þá, herra forseti, að engin keðja hafði í greip sinni meira en þriðjung markaðarins. Eftir þennan samruna er ljóst að ein keðja hefur meira en 60% matvælamarkaðarins í landinu í hendi sér. Í Reykjavík hefur þessi keðja í kringum tvo þriðju. Þetta er náttúrlega hrópleg staðreynd og þetta hlýtur að koma í veg fyrir að hér þróist eðlileg samkeppni.

Ég er nú einn af þeim sem eru stoltir af því að hafa með vissum hætti átt örlítinn þátt í tilurð Samkeppnisstofnunar og ég tel að þar sé einhver þarfasta stofnun sem við jafnaðarmenn höfum komið á fót í samfélaginu. Hún lítur eftir því að leikreglurnar séu skýrar og þeim sé fylgt. En ég er eigi að síður þeirrar skoðunar eins og ég hef látið koma fram hér fyrr í dag að henni urðu á ansi þung mistök þegar hún leyfði samruna þessara tveggja fyrirtækja. Og það er auðvitað á ábyrgð Samkeppnisstofnunar að þessi staða er komin upp. En ekki tjóar víst að sýta það núna.

Það skiptir hins vegar miklu máli að afleiðingar samrunans komi fram. Þá hlýt ég auðvitað, herra forseti, að rifja það upp að hér fyrir einum tveimur árum var talað með þeim hætti af hálfu stjórnvalda að við því væri að búast að Samkeppnisstofnun mundi leggja fram skýrslu um þróun matvælaverðs frá því þessi samruni gekk yfir. Það kom að vísu einhvers konar skemmri útgáfa af þeirri skýrslu fyrir þingið fyrir hartnær tveimur árum. Sú skýrsla sýndi að það var alveg ljóst að álagning hafði hækkað verulega í skjóli þeirrar fákeppni sem þessi samruni olli.

Herra forseti. Að þessu sögðu vil ég beina athygli hlustenda og þingheims að þeirri staðreynd að auðvitað er alveg ljóst að tengslin við Evrópusambandið hljóta að hafa nokkuð með þróun þessa matvælaverðs að gera. Þegar töflurnar eru skoðaðar sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur búið okkur í hendur, þá er það sláandi að árin sem Finnland og Svíþjóð gerast fullgildir aðilar að Evrópusambandinu er matvælaverð í þeim löndum í hámarki. Síðan lækkar það út áratuginn og það er fyrst í fyrra sem það nær aftur fyrri stöðu. Þessi þróun er þveröfug við önnur lönd sem tekin eru til samanburðar. Til dæmis er alveg ljóst að þau tvö lönd, Noregur og Ísland, sem standa utan Evrópusambandsins hækka miklu meira en t.d. Danmörk sem er í Evrópusambandinu. Og þróunin er auðvitað allt öðruvísi hjá okkur og Norðmönnum en hjá Finnum og Svíum. Það er greinilegt á þessum töflum að þegar Finnar og Svíar gerast aðilar að Evrópusambandinu, þá leitar verðlag niður og nær einhverju jafnvægi. Ljóst er að í þessari niðurfærslu sem felst í og er fylgifiskur aðildar að Evrópusambandinu er bersýnilega fólgin sterk lífskjarajöfnun --- sterk lífskjaraaukning.

Nú kynni að vera að þeir sem hlýddu á fyrri hluta ræðu minnar mundu spyrja: Já, var ekki sá þingmaður sem hér talar að benda á að hluti af þessari skýringu kynni að liggja í aukinni fákeppni hér á markaði?

Ef öll skýringin lægi þar, herra forseti, þá mundum við sjá mun á þróuninni á Íslandi annars vegar og Noregi hins vegar. En Baugur starfar bara á Íslandi. Baugur hefur enga einokunarstöðu í Noregi. Sú staðreynd að þróunin á Íslandi og í Noregi er hin sama sýnir auðvitað að þarna eru einhver önnur sterkari öfl að verki. Þá staðreynd að þróunin er verri fyrir íslenska neytendur má skýra með fákeppninni á matvælamarkaði. En það er alveg ljóst að staða okkar utan Evrópusambandsins hlýtur að hafa ákveðin og sterkan þátt í málinu.

Auðvitað þurfum við að skoða það rækilega hvað það mundi þýða fyrir Íslendinga og alla hópa ef við gengjum í Evrópusambandið. Ljóst er að sérstaklega einn hópur frumframleiðenda kemur til sögu þegar við ræðum þetta. Það er auðvitað landbúnaðurinn. Í landbúnaðinum eru þeir sem standa fyrir framleiðslu matvæla hér á landi fyrir utan sjómenn og við þurfum auðvitað að velta því fyrir okkur hvað yrði um þá.

Þetta er eitt af því sem hefur algjörlega skort á hjá stjórnvöldum. Þau hafa ekki sinnt þeirri skyldu sinni að rannsaka rækilega hvað yrði um íslenskan landbúnað ef við gengjum inn í Evrópusambandið.

Ég er þó sannfærður um að hlutar af íslenskum landbúnaði mundu koma betur út. Hver er sá hópur í íslensku samfélagi sem er verst staddur? Það eru íslenskir sauðfjárbændur. Og engum blöðum er um það að fletta að innan Evrópusambandsins yrði hagur þeirra miklu betri heldur en utan. Að sama skapi tel ég að íslenskir kúabændur mundu ekki fara verr út úr aðild að Evrópusambandinu. En hitt er alveg ljóst að framleiðendur á eggjum og hinu svokallaða hvíta kjöti mundu lenda í harðvítugri samkeppni og hlutur þeirra yrði verstur. Sömuleiðis tel ég að úrvinnslustöðvar mundu lenda í erfiðleikum.

Herra forseti. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða. Hvað þýðir aðild að Evrópusambandinu fyrir íslenskan landbúnað? Ég held þegar upp er staðið mundi hún vera jákvæð. En við þurfum að kanna þetta mál.