Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 14:46:26 (109)

2002-10-03 14:46:26# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[14:46]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég átti eftir fyrri ræðu mína ólokið að fara yfir þau andsvör sem komu við ræðum þingmanna Samfylkingarinnar, og einnig nokkrar góðar ábendingar.

Það kom t.d. fram hjá hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni að fyrir stuttu hefði hann rætt við kartöflubændur sem fengju um 20--30 kr. skilaverð fyrir hvert kíló og þyrftu þó sjálfir að pakka og dreifa. Fákeppni hefði m.a. leitt til þess að vöruverð væri svona hátt en skilaverð til bænda lágt.

Það sama kom í raun og veru fram hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur þar sem hún talaði um einokun og samþjöppun í verslun. Það gerði einnig hv. þm. Halldór Blöndal. Og það kom fram hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur að Davíð Oddsson hefði oft gagnrýnt þetta. Það vissum við. Hann hefði tekið sérstaklega fyrir þessa einokun, þessa samþjöppun sem hefur orðið í matvælaverslun sem hann hefði talað um að hefði leitt til mun hærra matvælaverðs í landinu en annars hefði verið.

Nú skyldi maður ætla að þetta væri fólk sem hefði tekið við í ríkisstjórn sl. vor en væri ekki búið að vera við völd síðan um 1991. Jafnvel þó að Davíð Oddsson gagnrýni í ræðu að matvælaverð sé hátt og tali í fjölmiðlum um að það þurfi að kanna það sérstaklega gildir það sama um matvælaverðið og húsaleiguna, það er hvorugt hægt að kjafta upp --- eða niður. Það er ekki nóg að tala, menn verða að taka á og gera eitthvað í málunum.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fylgdi þessu fast eftir síðasta vetur og hefur nú aftur tekið frumkvæði fyrir hönd Samfylkingarinnar að láta skoða þetta í tengslum við að við höfum verið að skoða sérstaklega kjör fjölskyldna í landinu, ekki síst, eins og ég sagði áðan, kjör þeirra ungu fjölskyldna sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið og eru með börn. Við erum að skoða hversu stór hluti af útgjöldum þeirra matvælakostnaðurinn er, og þess vegna hefur Samfylkingin farið fram á þennan ítarlega samanburð. Það er sorgleg staðreynd að það unga fólk sem fer utan til þess að mennta sig, eins og margur gerir, kemur jafnvel ekki til baka vegna þess að lífskjörin sem við bjóðum upp á, bæði hvað varðar húsnæðislán, lánafyrirgreiðslu, aðstoð við að koma sér þaki yfir höfuðið, laun --- eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi áðan, að vísu ekki á Norðurlöndunum, hann nefndi til önnur dæmi --- en ekki síst verð á matvöru og barnavöru sem er í flestu tilliti mun lægra annars staðar á Norðurlöndunum og í Evrópusambandslöndunum heldur en það er hér.

Það kom mér reyndar einnig á óvart eftir ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem hún talaði um fátæka á Íslandi --- um 11--15 þús. manns, og við vitum að í þeirri tölu er því miður nokkuð stór hluti bænda landsins --- að hv. þm. Drífa Hjartardóttir skuli segja að hér væri bara nánast jöfnuður í kjörum og sá mesti, hann gerðist hvergi betri. Hún sagði að hér væru engir ríkisbubbar, þeir væru ekki til, hún vissi ekki um þá. Það er slæmt, virðulegi forseti, að þessi hv. þm. skuli ekki vera hér í salnum vegna þess að ég tel ástæðu til að fá hana til að skilgreina fyrir þingheimi og fyrir almenningi í landinu hvar hún setur þá mörkin. Hvað felst í orðinu ,,ríkisbubbi``? Fyrst þeir eru ekki til hér á landi og hv. þm. Drífa Hjartardóttir hefur ekkert um þá heyrt og telur að hér sé þessi gífurlegi jöfnuður tel ég fulla ástæðu til þess að hún komi í ræðustól og skilgreini þessi hugtök alveg sérstaklega. Ég mun að sjálfsögðu ræða það við hana þegar ég fæ tækifæri til þess en hún er að sinna öðrum skyldustörfum. Það er synd að það skyldi ekki gerast í umræðu um stefnuræðu forsrh. í gærkvöldi sem útvarpað er og sjónvarpað til allrar þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Ég fór áðan yfir punkta frá Runólfi Sigursveinssyni hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, punkta sem teknir voru saman vegna ráðgjafar til bænda í nautakjötsframleiðslu. Við vitum öll og höfum heyrt af því að þar hafa verið verulegir erfiðleikar og um tíma héldu þeir því fram að svo gæti farið að nautakjötsframleiðsla í landinu legðist af. Hér hefur verið rætt töluvert um launakostnað sem stóran þátt í verðmynduninni. Þess vegna kom það mér dálítið á óvart þegar tekið er mjög skýrt dæmi um verðmyndun, sem ég tel rétt að fara aftur í af því að umfjöllun mín áðan var í hálfgerðum andarteppustíl, en í greinargerð Runólfs segir, með leyfi forseta:

,,Dæmi um verðmyndun: Erfitt er að átta sig nákvæmlega á því hvernig verðmyndun á sér stað í nautakjötinu. Hér á eftir kemur einfaldað dæmi miðað við ákveðnar forsendur.

Í fyrsta lagi er miðað við 280 kílóa fall og 68,7% nýtingu. Sú nýtingarprósenta er fengin úr niðurstöðum svokallaðra Möðruvallatilrauna. Þá er miðað við verð til framleiðanda samkvæmt verðskrá SS í febrúar 2002. Tölur um sláturkostnað á kíló og úrbeiningu á kíló eru fengnar frá SS, 45 kr. á kíló í slátrun og 81 kr. á kíló í úrbeiningu og pökkun.

Þá var skoðað verð á einstökum hlutum í nautakjöti í verslun Nóatúns þann 8. febrúar. Niðurstaðan varð þessi:

Bóndinn fær 86.000 kr. eða 37%.

Slátrun og vinnsla 35.100 kr. eða 15%.

Smásalan 80.000 kr. eða 34%.

Virðisaukaskatturinn er síðan 32.800 kr. eða 14%.

Samtals gera þetta 233.900 kr.``

Þess skal getið að þessar 86 þús. kr., þ.e. 37% sem bóndinn fær, er brúttóverð til bóndans og af því þarf hann að greiða m.a. flutning, móttökugjald og verðskerðingargjald.

Það segir sig sjálft að launakostnaðurinn hjá bónda er ekki mikill en hann getur hins vegar verið til staðar í smásölunni. Það sem við förum fram á með þeirri tillögu sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur kynnt hér, og reyndar kynnt mjög vel í fjölmiðlum líka sem hún á sérstakar þakkir skildar fyrir, er einmitt að láta skoða verðmyndunina á öllum stigum. (Forseti hringir.) Og tilgangurinn er, virðulegi forseti, ekki sá að sækja beint um aðild að Evrópusambandinu heldur að ná fram lægra matvöruverði til neytenda. Um það ættum við og hæstv. forseti að vera sammála.