Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 10:56:47 (115)

2002-10-04 10:56:47# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[10:56]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðara atriðið sem þingmaðurinn nefndi, þá er að sjálfsögðu verið að styrkja stöðu heimilanna í mjög ríkum mæli með ýmsu því sem nú er að koma til framkvæmda, t.d. með hækkuðum barnabótum sem sérstaklega munu gagnast barnafólki með lágar tekjur. Ég tel einnig að aukinn réttur feðra til fæðingarorlofs styrki stöðu heimilanna, sérstaklega barnafólksins, fólks með nýfædd börn. En ég lét þess getið að það væri að draga úr skuldsetningu heimilanna og það má m.a. sjá af þeirri staðreynd að þjóðhagslegur sparnaður er að vaxa. Hann er að vaxa miðað við árið 2000 um hvorki meira né minna en 40 milljarða kr. og ég hefði haldið að þingheimur allur gæti glaðst yfir þeirri þróun.

Að því er varðar skattbyrðina þá lét ég það koma fram í ræðu minni að tekjuskattur á einstaklingum er að hækka í heild vegna hærri tekna einstaklinga vegna þess að okkur hefur sem betur fer tekist að sjá til þess að tekjur fólksins í landinu fara hækkandi og kaupmátturinn hækkar. Hann eykst og þá gerist það sjálfkrafa að menn borga hærri hluta af tekjum sínum í skatt en áður var. Þannig er okkar skattkerfi uppbyggt. Eftir því sem tekjurnar verða hærri þeim mun meira borga menn í skatt, þeim mun hærra hlutfall af tekjum sínum borgar fólk í skatt. Og mig langar að spyrja þingmanninn: Er hann á móti því? Vill hann ekki að sá sem er með 300 þús. kr. tekjur borgi hlutfallslega meira í skatt en sá sem er með 100 þús. kr. tekjur? Eða hefur hann kannski ekki hugleitt það mál neitt sérstaklega?

Skattleysismörkin, þ.e. persónuafslátturinn, hækkar hér í samræmi við lagaákvæði sem sett voru á árinu 2000 í kjölfar þeirra kjarasamninga sem þá voru gerðir. Þau hækka um áramót. Persónuafslátturinn hækkar um áramót um 2,75% í samræmi við það sem lögfest var á sínum tíma.