Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 11:00:57 (117)

2002-10-04 11:00:57# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[11:00]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. blandar saman ýmsum óskyldum málum. Eins og fram kemur í frv. og eins og fram kom í ræðu minni eru áform ríkisstjórnarinnar að því er varðar einkavæðingu ríkisbankanna alveg óbreytt. Það gefst vonandi tækifæri til að ræða þau mál betur undir öðrum formerkjum en fjárlagaumræðu.

Að því er varðar skuldsetningu heimilanna er það auðvitað alrangt sem þingmaðurinn sagði, að hinn mikli hagvöxtur, sem hann kallaði svo, á næsta ári byggðist á því að heimilin héldu áfram að skuldsetja sig. Því miður verður ekki mikill hagvöxtur á næsta ári, 1,5% er ekki mikið. Það er ekki mikið miðað við það sem við höfum búið við á undanförnum árum. Hann þyrfti að vera miklu meiri. En það hefur auðvitað ekkert með það að gera hvort heimilin eru að skuldsetja sig eða ekki. Þetta byggist á auknum útflutningi og meiri fjárfestingu en í ár. Hér er verið að blanda saman alveg óskyldum hlutum.

Að því er varðar skattfrelsismörkin og það sem fram kom í máli þingmannsins um það efni vildi ég gjarnan benda honum á að hækkun skattfrelsismarka um 1.000 kr. færir hverjum skattgreiðanda --- ekki bara láglaunafólki heldur hverjum og einum sem borgar skatt --- 380 kr. í vasann, 380 kr. í ávinning. En það kostar ríkissjóð rétt tæpan milljarð kr. að ráðast í slíka breytingu. Ef menn vilja hækka þau um 10 þús. þá eru menn komnir í 10 milljarða og ávinningur hvers og eins skattgreiðanda er 3.800 kr. Ég tel að það sé hægt að gera miklu meira og skynsamlegra fyrir þá peninga en verja þeim með þessum hætti.

Þar fyrir utan er það þannig, hv. þm., sem ég efast ekki um að þingmaðurinn hafi kynnt sér, að hafi menn 100 þús. kr. í tekjur rennur allur skatturinn til sveitarfélaganna en ekki til ríkisins vegna þess að ríkissjóður stendur undir útsvarinu hjá öllum þeim sem eru undir skattleysismörkum og að þeim mörkum að þeir eru komnir upp fyrir útsvarið. Af 100 þús. kr. tekjum eru dregnar um 12 þús. kr. í skatt en það rennur allt til sveitarfélaganna. Vill þingmaðurinn beita sér fyrir því að breyting verði gerð á þessu? Vill hann beita sér fyrir því að sveitarfélögin, sem hann þykist gjarnan bera fyrir brjósti, taki þátt í þessu? Hvað er hann að fara?