Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 11:40:12 (127)

2002-10-04 11:40:12# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[11:40]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Þróun efnahagsmála á þessu ári hefur um margt verið hagstæðari en reiknað var með um svipað leyti í fyrra. Þannig hefur verulega dregið úr verðbólgu og spáð er jöfnuði í viðskiptum við önnur lönd. Ekki er lengur gert ráð fyrir samdrætti í landsframleiðslu heldur reiknað með að hún standi í stað. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur haldið áfram að vaxa og þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi aukist töluvert getur það ekki talist mikið hér á landi miðað við þann samanburð sem gerður er við önnur lönd.

Við þessar aðstæður hafa áætlanir ríkissjóðs um umtalsverðan tekjuafgang á árinu í aðalatriðum gengið eftir þegar frá eru taldar áætlaðar tekjur af sölu ríkiseigna. Í þessu felst að náðst hefur nokkuð gott jafnvægi í efnahagslífinu eftir langvinnt þensluskeið undanfarin ár. Enginn vafi er á því að aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum og peningamálum lék mikilvægt hlutverk á þessari leið efnahagslífsins til betra jafnvægis. Gengisfall krónunnar og tímabundin verðbólga léku hér jafnframt veigamikið hlutverk. Við bætist að ytri aðstæður hafa verið hagfelldar, bæði að því er varðar þróun útflutnings og viðskiptakjör. Þetta hefur gert aðlögunina að þjóðarbúskapnum auðveldari en oft áður þegar niðursveifla hefur átt sér stað. Hér við bætist að atvinnulífið og verkalýðshreyfing hafa lagt sitt af mörkum til að tryggja jafnvægi og stöðugleika.

Þessi árangur í efnahagsstjórninni hefur búið í haginn fyrir nýtt hagvaxtarskeið hér á landi. Þannig er spáð 1,5% vexti á næsta ári í samanburði við engan vöxt á þessu ári. Í framhaldi, á árunum 2004--2007, er reiknað með að hagvöxtur verði að meðaltali 3% hér á landi. Ef þessar spár ganga eftir verður hægfara bati í efnahagslífinu á næsta ári þar til fullum bata verður náð undir lok árs eða í byrjun ársins 2004. Eðlilegt er að hagvöxtur sé að jafnaði ekki minni en 3% á ári því að sá vöxtur tryggir stöðu Íslands í samanburði við önnur lönd hvað lífskjör varðar. Gangi þessar spár eftir hefur efnahagslægðin verið tiltölulega grunn og skammvinn og ekki haft jafnalvarlegar hliðarverkanir og jafnan áður þegar harðnað hefur á dalnum.

Þegar litið er til næsta árs standa þrjú kennileiti upp úr að mínu viti. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að verðbólgan verði komin á sama stig hér á landi og í öðrum löndum sem við berum okkur saman við í nágrenninu. Þetta er ákaflega þýðingarmikið. Verðstöðugleiki er án efa ein mikilvægasta undirstaða framfara og lífskjara. Spáð er 2,25% hækkun vísitölu neysluverðs milli áranna 2002 og 2003 borið saman við 4,75% hækkun hennar á þessu ári.

Í öðru lagi er búist að viðskiptajöfnuður verði nánast í jafnvægi eins og stefnir í á þessu ári. Samkvæmt þessu fer hallinn úr um 70 milljörðum kr. á árinu 2000 niður í núll á aðeins tveimur árum án þess að það hafi í för með sér alvarlegar afleiðingar, eins og ég hef lýst hér á undan. Þetta er athyglisverður árangur.

Í þriðja lagi hefur þróun ríkisfjármála verið með ágætum þrátt fyrir erfiðar aðstæður að mörgu leyti. Til marks um það er 17,2 milljarða kr. afgangur á þessu ári og áætlun um 10,7 milljarða afgang á næsta ári. Jafnframt þessu hefur náðst að lækka skuldir ríkisins ár frá ári undanfarin ár.

Sá árangur sem nú er í sjónmáli er ekki síst athyglisverður í ljósi þess að víða annars staðar hefur efnahagsstjórnin átt undir högg að sækja. Í því sambandi nægir að nefna stöðugar fregnir af ótíðindum af hlutabréfamörkuðum Evrópu og Bandaríkjanna, að ekki sé talað um Japan. Þar hefur hlutabréfaverð lækkað um 20--40% á helstu mælikvörðum frá byrjun árs meðan það hefur hækkað um 15% hér á landi. Þessi samanburður er enn hagstæðari fyrir okkur ef litið er til síðustu tólf mánaða. Hlutabréfaverð segir oft mikið um stöðu og horfur í efnahagsmálum og þessi þróun ber vitni um að almennir fjárfestar meti það svo að líklegt sé að Íslendingar séu komnir yfir erfiðasta hjallann á undan öðrum.

[11:45]

Þótt ástæða sé til að fagna þessari þróun og góðum horfum er einnig mikilvægt að hafa varann á sér. Eins og jafnan áður er mikil óvissa í spám af þessu tagi. Í því efni er nærtækt að nefna að fyrir fáum dögum sagði Íslensk erfðagreining upp fjölda starfsmanna sem væntanlega hefur ekki verið tekið tillit til við spágerðina sem frv. byggir á. Við þær aðstæður sem nú eru á vinnumarkaði kann það að taka nokkurn tíma fyrir þessa starfsmenn að finna störf við sitt hæfi. Á hinn bóginn má ekki gleyma því að ekki er reiknað með áhrifum þeirra virkjana og stóriðjuáforma sem eru til athugunar um þessar mundir. Ef af stóriðjuáformunum verður og þeim verður hrint í framkvæmd verður auðvitað mikið um að vera í efnahagslífinu á næstu árum því að fjárfestingin er gríðarlega mikil í þjóðhagslegu samhengi.

Við þetta bætist svo óvissa að utan. Þar vegur sennilega þyngst hvort hernaðaraðgerðum verður beitt gegn Írak og hvernig það verður gert ef til kemur. Einnig skiptir almenn efnahagsþróun máli í helstu viðskiptalöndum. Ef þar verður áfram á brattann að sækja, þrátt fyrir spár alþjóðastofnana um hið gagnstæða, má búast við að fyrr en síðar birtist erfiðleikarnir í einhverjum myndum hér á landi.

Þótt þannig ríki óvissa um margar veigamiklar forsendur fjárlagafrv. verður að öllu samanlögðu að telja að horfurnar séu hagfelldar og að mörg tækifæri séu til þess að sækja fram. Á þessu byggir fjárlagafrv.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um einstaka þætti frv. við þessa umræðu enda tekur fjárlaganefnd frv. til rækilegrar skoðunar á næstu vikum. Þó vil ég nefna hér örfá atriði.

Tekjuhlið frv. breytist lítið frá fyrra ári þegar á heildina er litið. Heildartekjur eru áætlaðar 264 milljarðar kr. sem er nánast sama tala og reiknað var með á þessu ári. Tekjur af sölu ríkiseigna eru reyndar minni en á þessu ári og fyrir vikið nemur hækkun án slíkra tekna 2,5% milli ára. Þetta er þó ekki nema nokkurn veginn í samræmi við hækkun verðlags enda lækka tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu.

Þá vil ég einnig nefna að gert er ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs verði 253,3 milljarðar kr. samanborið við 246,4 milljarða á yfirstandandi ári. Aukningin nemur 14 milljörðum frá fjárlögum eða 6,9 milljörðum frá endurskoðaðri áætlun þessa árs. Hækkunin frá endurskoðaðri áætlun er 2,8% og því breytast heildarútgjöldin lítið að raungildi milli ára og reyndar lækka þau um fjórðung úr prósenti sem hlutfall af landsframleiðslu. Þessi rammi um bæði tekjur og gjöld ríkissjóðs á næsta ári verður að teljast raunhæfur í þeim skilningi að ríkið er hvorki að taka til sín né auka útgjöldin að tiltölu við þjóðarbúskapinn. Það er eðlilegt markmið þegar til alls er litið. Jafnframt er hægt að færa veigamikil rök fyrir því að afgangurinn samkvæmt frv. sé út frá hagstjórnarsjónarmiðum í eðlilegu samhengi við stig núverandi hagsveiflu. Þannig ætti afgangurinn að veita svigrúm til áframhaldandi vaxtalækkana án þess að tefla verðstöðugleikanum í tvísýnu.

Því er hins vegar ekki að leyna að margvíslegir erfiðleikar steðja að velferðar-, heilbrigðis- og menntamálum sem menn verða að skoða gaumgæfilega og meta hvort frv. leysir með viðunandi hætti. Það þjónar engum tilgangi að stinga höfðinu í sandinn að því er þessa málaflokka varðar og sitja svo uppi með vandamál á miðju næsta ári sem ekki verða leyst öðruvísi en með aukafjárveitingum. Jafnframt þarf að gæta þess að aðhald sé nægjanlegt með útgjöldum og tryggja að öllum ráðum sé beitt til þess að nýta þá fjármuni með hagkvæmum hætti.

Þótt ég ætli ekki að ræða hér í löngu máli einstaka þætti frv. finnst mér nauðsynlegt að nefna heilbrigðismálin vegna umræðunnar um þau að undanförnu. Þar hefur ekki verið gætt hófs sem nauðsynlegt er þegar fjallað er um svo veigamikinn málaflokk. Fullyrðingar um að framlög til heilbrigðismála séu hvergi meiri í ríkjum OECD eru byggðar á talnagrunni sem gefur ekki vafalausar niðurstöður. Staðreyndin er sú að það er erfitt að bera saman útgjöld af þessu tagi milli landa og mismunandi aðferðir gefa ólíkar niðurstöður. Því er brýnt að þeir sem taka þátt í þessari umræðu sýni viðeigandi aðgát í meðferð talna og gæti þess að öll sjónarmið komi fram.

Þessi umræða um heilbrigðismálin dregur einnig athyglina að því að fjárlaganefnd og reyndar Alþingi hafa mjög takmarkaðan aðgang að óháðum sérfræðingum um efnahagsmál eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður. Þetta veikir óneitanlega Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það þarfnast því frekari umræðu hvort núverandi skipan efnahagsstofnana ríkisins sé sú lausn sem hentar Alþingi til frambúðar.

Virðulegi forseti. Ég vík þá að vinnu við fjárlagagerðina og störfum fjárlaganefndar. Á undanförnum árum hefur allnokkur umræða um aðferðir og skipulag í tengslum við fjárlög farið fram. Stjórnvöld hafa á síðustu árum gert ýmsar breytingar á aðferðum og reglum sem varða fjárlagaferlið. Það ákvörðunarferli sem liggur að baki fjárlögum er mjög flókið og tímafrekt og felur í sér að samhæfa þarf störf margra ólíkra aðila. Fram að gildistöku fjárreiðulaganna 1997 voru formlegar reglur um fjárlögin og fjárlagaferlið mjög almenns eðlis og að finna á víð og dreif í lögum. Fjárlaganefnd Alþingis hefur verið að bæta verklag á undanförnum árum og nýverið hafa verið sett á vef þingsins eyðublöð sem auðvelda eiga félagasamtökum að koma upplýsingum til fjárlaganefndar.

Nauðsynlegt er að fjárlagaferli og verklag sé í stöðugri endurskoðun og endurbót. Hér á landi heldur fjárlagaferlið um alla þræði fjárlagafrv. og hefur þá verið leitað eftir umsögnum til annarra þingnefnda um viðeigandi hluta frv. og að þær skipti safnliðum á milli sín eftir einstökum málefnasviðum. Ekki er um það að ræða að fjárlaganefndin fjalli eingöngu um heildarútlínur frv. og láti fagnefndum eftir að skipta framlögum á sínum málefnasviðum eins og tíðkast í nágrannalöndunum.

Aukin festa hefur orðið eftir að rammafjárlög voru tekin upp. Meiri agi hefur verið á vinnubrögðum. Hins vegar er það veikleiki í fjárlagaferlinu að afgreiðsla Alþingis tengist ekki rammaskipulaginu og má í raun segja að sjálfstætt ferli hefjist í meðförum þingsins. Æskilegt er að rammaskipulagið verði grundvallarviðmið á öllum stigum fjárlagagerðarinnar. Ég mun beita mér fyrir því að þessi mál verði skoðuð sérstaklega og lagðar verði fram hugmyndir um skipan mála fyrir þinglok.