Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 12:58:32 (133)

2002-10-04 12:58:32# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[12:58]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Sjálfsagt er að fagna því að íslenskt efnahagslíf er í sjálfu sér sterkt í samanburði við stöðu annarra þjóða.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson minntist áðan á að það væri í sjálfu sér nóg fjármagn í heilbrigðiskerfinu, vandinn væri bara skipulagsleysi. Hv. þm. er talsmaður og oddamaður sjálfstæðismanna í fjárlagagerðinni.

Ég er hér með blað, Fréttablaðið, þar sem stendur að rúman milljarð vanti í rekstur dvalarheimila, þar sé uppsafnaður fjárhagsvandi. Sveitarstjórnir hafa komið til okkar í fjárln. á undanförnum dögum og greint okkur frá þessu.

Ég heyrði ekki hv. þm. tala um að það væri vegna skipulagsvanda eða skipulagsskorts hjá þessum hjúkrunar- og dvalarheimilum að slíkt ástand hefði skapast. Eru þetta skilaboð talsmanns Sjálfstfl. til þeirra aðila sem reka þessar daggjalda- og heilbrigðisstofnanir af miklum myndarbrag og verða að taka á sig álögur og ábyrgðir í rekstrinum, að þar sé skipulagsleysi? Mér finnst það vera heldur gróft, virðulegi forseti.

Miklu nær væri að viðurkenna vandann. Þessi vandi kom ekki bara til á þessu ári. Þetta er uppsafnaður vandi sem horft var fram hjá því að stundum vilja menn stinga höfðinu í sandinn og horfa fram hjá vandanum.

Er kannski stjórnleysið í heilbrigðiskerfinu komið til með aukinni einkavæðingu innan þess? Er það einkavæðingin í heilbrigðiskerfinu sem hv. þm. var að vitna til þegar hann sagði að í sjálfu sér væri nóg fjármagn þar en það nýttist ekki vegna skipulagsleysis? Ég hefði viljað heyra, virðulegi forseti, nánari útlistun hv. þm. á því hvað hann á við þegar hann kennir skipulagsleysi um í svo alvarlegum tilvikum sem þessum.