Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 13:04:31 (137)

2002-10-04 13:04:31# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[13:04]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom að venju víða við í ræðu sinni, og margt athyglisvert var auðvitað bent á. Umfjöllun hv. þingmanns um byggðamál vakti þó sérstaka athygli mína. Hann einskorðaði sig að vísu við Byggðastofnun en það má segja um þann lið í fjárlögum að það kemur, vægt til orða tekið, mjög á óvart hvernig með er farið. Eins og hv. þm. benti á er verið að færa peninga varðandi þátttöku í eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni yfir á byggðaáætlun, sömu tölu, þannig að það eru engir peningar miðað við þessa tillögu í fjáraukalögunum á þessu ári til þátttöku í eignarhaldsfélögunum. Samkvæmt fjárlagafrv. er það heldur ekki á næsta ári. Þegar pakkinn í heild sinni er skoðaður er verið að lækka upphæðina sem fer til byggðamála. Í frv. fyrir árið 2003 er lægri upphæð áætluð í þau heldur en var í niðurstöðum fyrir árið 2001. Þrátt fyrir það er í millitíðinni búið að samþykkja hér ígildi --- svo maður taki ekki sterkar til orða --- a.m.k. ígildi byggðaáætlunar. Hefði maður nú haldið að á fyrsta heila ári þeirrar byggðaáætlunar yrði sýndur einhver metnaður í þá átt að hér yrði hlutunum mætt.

Ég vek sérstaka athygli á og spyr hv. þingmann hvort ég hafi nokkuð misskilið það að ekki hafi verið um þessi mál fjallað í þingflokki Sjálfstfl. Mér heyrðist einnig að hv. þingmaður hefði heimildir fyrir því að það hefði heldur ekki verið gert í þingflokki Framsfl. Því spyr ég hv. þingmann: Veit hann fleiri dæmi þess að fjárlagafrv. hafi verið lagt fyrir þingið án þess að þingflokkar stjórnarflokkanna hafi fjallað um ýmsa liði þess og gefið grænt ljós á?