Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 13:09:16 (140)

2002-10-04 13:09:16# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[13:09]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel rétt í þessu sambandi að minna á það að ég treysti mér einmitt ekki til að greiða byggðaáætluninni atkvæði mitt. Ég sat hjá vegna þess að ég taldi hana marklausa.

Það er hins vegar rangt hjá hv. þm. að hér sé von á meiri breytingu eða meira fráviki en vanalega við afgreiðslu þessa frv. Það er langt frá því. Ég tel þetta frv. þvert á móti standa á mun traustari fótum en oft áður vegna þess að hér ríkir alveg sérstakt jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þess vegna er óvissan núna miklu minni en oft áður þó að enginn kunni að sjá til framtíðarinnar af einhverri nákvæmni.

Ég á von á því að þetta frv. taki frekar litlum breytingum. Það er tiltölulega hlutlaust, það er rétt og satt að það er það. Það á líka að vera það á þessum tímum sem nú eru. Það er gríðarleg breyting frá því sem oft einkenndi frumvörp til fjárlaga hér áður fyrr á kosningaþingi. Hér er ábyrgt frv. sem er í algjöru jafnvægi og mun sanna sig og sýna.